Enn um misskiptingu
Ég birti dóm um Hagskinnu, Sögulegar hagtölur um Ísland í Morgunblaðinu 21. ágúst 1997 og fór þar fögrum orðum um þetta vel samda og viðamikla rit og höfunda þess, Hallgrím Snorrason, þá hagstofustjóra, og samverkamenn hans. Ég jós verkið lofi í löngu máli. Undir lokin nefndi ég tvö atriði, sem mér fannst, að Hagskinna hefði mátt gera betri skil. Mér fannst vanta rækilegra efni um menntamál, og brást Hagstofan vel við þeirri áskorun. Í annan stað fannst mér „afleitt, að engar opinberar tölur skuli enn vera til í hagskýrslum um þá gríðarlegu eignatilfærslu, sem átt hefur sér stað í skjóli aflakvótakerfisins undanfarin ár. … Tölur af þessu tagi eru í raun og veru forsenda þess, að menn geti myndað sér skynsamlega skoðun um sum mikilvægustu álitamálin á vettvangi stjórnmálanna. Hvernig eiga menn t.d. að geta tekið afstöðu með eða á móti íhaldsstefnu eða jafnaðarstefnu, ef menn hafa engar haldbærar tölur um jöfnuð og ójöfnuð í samfélaginu af völdum ólíkra stjórnarhátta?“
Við og við hef ég ásamt öðrum minnt Hagstofuna á þessa brýningu. Ég skrifaði hagstofustjóra 4. maí 2006: „Kæri Hallgrímur. Hvað líður útreikningum Hagstofunnar á Gini-stuðlum fyrir Ísland? Það er tilfinnanlegt, að þessar tölur um tekjuskiptingu skuli enn láta á sér standa. … Hvað veldur drættinum? Hvað er mikilvægara eins og sakir standa? Kær kveðja, Þorvaldur.“ Hagstofustjóri svaraði daginn eftir og sagði, að sér þætti miður, að vinnan við að gera tekjuraðirnar nothæfar hefði ekki skilað árangri, hann væri sammála því, að æskilegt væri, að tekjuskiptingartölur væru reiknaðar fyrir langt tímabil, en það væri enn ekki hægt. Ég sendi síðan hagstofustjóra skeyti 25. október 2007 og sagði þar: „Kæri Hallgrímur. Mig langar að marggefnu tilefni að benda þér á bls. 215 í fjárlagafrumvarpi norsku ríkisstjórnarinnar … Þar kemur fram, að norska hagstofan hefur tekið saman tölur um tekjuskiptingu í Noregi a.m.k. aftur til ársins 1990 og norska ríkisstjórnin birtir þessar tölur á áberandi stað í eigin skýrslum og leggur út af þeim … Tölurnar sýna, að tekjuskipting í Noregi hefur færzt talsvert í ójafnaðarátt, en þó hvergi nærri í sama mæli og á Íslandi skv. mælingum ríkisskattstjóra og annarra. Ég hef í a.m.k. áratug, ýmist opinberlega eða einkalega, hvatt Hagstofu Íslands og þig til að taka saman svipaðar tölur um Ísland, en þið sýnið samt ennþá engin merki þess, að þið hyggist verða við þeim áskorunum mínum og annarra. … Aðgerðarleysi Hagstofunnar hefur valdið skaða, meðal annars með því að gefa ósannindamönnum færi á því að fara með rangt mál og rugla almenning í ríminu, eins og gerðist fyrir kosningar í vor leið. … Með beztu kveðjum og óskum, Þorvaldur.“
Snemma árs 2007 hafði Hagstofan loksins birt tvo Gini-stuðla fyrir Ísland 2003 og 2004. Síðan hefur Hagstofan bætt við stuðli fyrir 2005 án þess að kortleggja þróunina aftur í tímann. Tölurnar sýna, að Gini-stuðullinn hækkaði um eitt stig á ári 2003-2005 líkt og Gini-stuðlar ríkisskattstjóra, sem hækkuðu um rösklega eitt stig á ári að jafnaði allt tímabilið 1993-2006 (hækkun þýðir aukinn ójöfnuð). Samanburður Hagstofunnar á Íslandi og öðrum löndum 2003-2005 er því marki brenndur, að fjármagnstekjur, sem gerast æ mikilvægari í heildartekjum, eru ekki taldar með til fulls. Þetta skekkir samanburðinn, því að skattar á fjármagnstekjur eru langt undir sköttum á vinnutekjur hér heima öndvert mörgum nálægum löndum, þar sem minna misræmi, ef nokkurt, er í skattlagningu fjármagnstekna og vinnutekna. Þess vegna þarf að taka allar tekjur með í reikninginn og reikna dæmið aftur í tímann líkt og ríkisskattstjóri hefur gert til að reyna að gefa rétta mynd af þróun tekjuskiptingarinnar. Sumir stjórnmálamenn og erindrekar þeirra eru viðkvæmir fyrir auknum ójöfnuði, einkum skipulögðum ójöfnuði, þar eð þeir vita upp á sig sökina, og þræta fram í rauðan dauðann, þótt staðreyndir málsins blasi við öllu sjáandi fólki.
Hagfræðistofnun Háskóla Íslands gaf 2001 út skýrslu um tekjuskiptingu á Íslandi eftir fimm hagfræðinga: Ásgeir Jónsson, Ástu Herdísi Hall, Gylfa Zoëga, Mörtu Skúladóttur og Tryggva Þór Herbertsson. Skýrslan lýsir stigvaxandi ójöfnuði í skiptingu ráðstöfunartekna að meðtöldum fjármagnstekjum 1993-2000: Gini-stuðullinn hækkaði úr 27 árið 1993 í 33 árið 2000 (bls. 87). Útreikningar ríkisskattstjóra vitna með líku lagi um rösklega eins stigs hækkun Gini-stuðulsins á hverju ári að jafnaði 1993-2006 eins og áður sagði og eru í góðu samræmi við skýrslu Hagfræðistofnunar um fyrri hluta tímabilsins. Aukinn ójöfnuður á Íslandi er bláköld staðreynd og á sér skiljanlegar skýringar. Opinberar hagtölur þurfa að spegla veruleikann.