Endurtekin svikráð
Ísland og Úkraína eru nú bæði löndin í uppnámi af áþekkum ástæðum.
Forseti Úkraínu hætti við að undirrita viðskiptasamning við ESB, sem hann hafði þegar sett stafina sína undir. Hann kallaði þannig yfir sig hörð viðbrögð lýðræðissinna, sem hröktu hann frá völdum innan ramma þingræðisins. Forsetinn flúði til Rússlands. Þessi hörðu viðbrögð helguðust af því, að forsetinn gekk á bak orða sinna, en það var ekki eina ástæðan. Fólkið, sem mótmælti á götum Kænugarðs frá nóvember fram í febrúar, tekur samstarf við ESB fram yfir samstarf við Rússland. Fólkið tekur evrópskt lýðræði fram yfir rússneskt gerræði þrátt fyrir náin tengsl Úkraínu við Rússland. Rússar búast nú til að lima landið í sundur án samráðs við ríkisstjórn landsins og án aðkomu kjósenda á landsvísu.
Hér heima hefur ríkisstjórnin einnig kallað á hörð viðbrögð lýðræðissinna með því að ganga á bak orða sinna. Báðir ríkisstjórnarflokkarnir lofuðu þjóðaratkvæði um ESB og búast nú til að svíkja loforðið. Fólkið á Austurvelli ber potta sína og pönnur til að mótmæla svikum ríkisstjórnar, sem býst til að taka völdin af fólkinu með því að svipta það réttinum til að eiga sjálft síðasta orðið um aðild Íslands að ESB.
Þetta er ekki fyrsta aðför Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar að lýðræðinu. Þessir tveir flokkar bera höfuðábyrgð á, að ný stjórnarskrá, sem tveir þriðju hlutar kjósenda lögðu blessun sína yfir í þjóðaratkvæðagreiðslu í boði Alþingis, liggur nú þar í salti. Það hefur aldrei áður gerzt í lýðræðisríki, að löggjafarþingið svíkist aftan að kjósendum með þessum hætti, ekki þegar stjórnarskráin er í húfi. Eitt er að svíkjast um að halda þjóðaratkvæðagreiðslu um nýja stjórnarskrá eins og lögþingið í Færeyjum hefur gert og Alþingi býst nú til að gera í ESB-málinu. Annað mál og miklu alvarlegra er að halda þjóðaratkvæðagreiðslu og ganga síðan gegn henni. Það er ekki bara svik, það er valdarán.
Hvers vegna lætur Sjálfstæðisflokkurinn, sem kallaði sig lýðræðisflokk á fyrri tíð, slíkt henda sig? Líkleg ástæða er, að flokknum er ekki lengur sjálfrátt, honum er fjarstýrt. Það mun koma skýrt í ljós, þegar nýtt frumvarp um stjórn fiskveiða verður lagt fram, frumvarp, sem veitir útvegsmönnum rétt til að nýta sameignarauðlind þjóðarinnar mörg ár fram í tímann, kannski 20-25 ár, í stað þess að þeim hefur hingað til verið fenginn þessi réttur til eins árs í senn. Hér eru þriðju svikin í uppsiglingu, þar eð 83% kjósenda lýstu stuðningi við auðlindaákvæðið í nýju stjórnarskránni. Auðlindaákvæðið kveður skýrt á um þjóðareign á auðlindunum einmitt til að tryggja réttum eiganda fiskimiðanna, fólkinu í landinu, fulla hlutdeild í arðinum af eign sinni í stað þeirrar mismununar og mannréttindabrota, sem enn viðgangast gegn vilja fólksins. Við skulum kalla hlutina réttum nöfnum. Sjálfstæðisflokkurinn og Framsókn sitja á svikráðum við lýðræðið í landinu. Takist þeim svikin, verður Ísland aldrei samt.
Hefði nýja stjórnarskráin, sem kjósendur samþykktu í þjóðaratkvæðagreiðslunni 20. október 2012, nú þegar tekið gildi svo sem rétt hefði verið, hefði ekkert af þessu þurft að gerast. Þá myndu undirskriftir 10% kjósenda duga til að taka mál úr höndum Alþingis og færa þau í hendur kjósenda. Þá hefði ríkisstjórninni ekki tekizt að láta það verða sitt fyrsta verk að afturkalla ákvörðun fyrri stjórnar um hækkun veiðigjalds. Þá myndi Alþingi ekki líðast að draga umsókn um aðild að ESB til baka upp á sitt eindæmi. Þá myndi áformum Alþingis um að svíkja fiskimiðin af þjóðinni verða hrundið í kjörklefanum. Einmitt þess vegna var ákvæðið um beint lýðræði með auknu vægi þjóðaratkvæðagreiðslna að frumkvæði almennings sett inn í nýju stjórnarskrána, ákvæði, sem 73% kjósenda lýstu fylgi við í þjóðaratkvæðagreiðslunni.
Þessi dæmi duga til að sýna, hvers vegna Sjálfstæðisflokknum og Framsókn er svo mjög í mun, að vilji þjóðarinnar í stjórnarskrármálinu nái ekki fram að ganga. Fleira hangir þó á spýtunni. Þessir flokkar óttast upplýsingaákvæðin, sem veita almenningi rétt til upplýsinga, sem hingað til hefur verið haldið leyndum. Þeir óttast umhverfisverndarákvæðin, sem veita almenningi rétt til óspilltar náttúru og aðildar að ákvörðunum um umhverfismál. Þeir óttast kosningaákvæðin, sem kveða á um jafnt vægi atkvæða og persónukjör. Þeir óttast þær réttarbætur, sem nýrri stjórnarskrá er ætlað að færa fólkinu í landinu og myndu girða fyrir núverandi ófremdarástand og stilla til friðar. Þeir mega ekki til þess hugsa, að allir sitji við sama borð. Er ekki kominn tími til að tengja?