DV
31. ágú, 2012

Einn maður, eitt atkvæði

Jafnt vægi atkvæða er eitt brýnasta hagsmunamál Íslendinga, og hefur svo verið í meira en 160 ár. Brynjólfur Pétursson, einn Fjölnismanna, mælti fyrstur fyrir jöfnu vægi atkvæða 1849. Það ár tók fyrsta stjórnarskrá landsins gildi, uppistaðan í bráðabirgðastjórnarskránni, sem var samþykkt við lýðveldisstofnunina 1944 og gildir enn. Hannes Hafstein, fyrsti ráðherrann 1904-1909, varaði á Alþingi við afleiðingum ójafns atkvæðisréttar.

Alla tuttugustu öldina voru uppi háværar raddir um nauðsyn þess að jafna atkvæðisréttinn, bæði af hagkvæmnisástæðum og réttlætisástæðum. Alþingi brást við kröfugerðinni með því að lagfæra kosningalöggjöfina smám saman, en þó aldrei til fulls. Enn í dag er tvöfaldur munur á vægi atkvæða sunnan og norðan Hvalfjarðarganga.

Með öðrum orðum: Enn í dag duga innan við helmingi færri atkvæði til að koma manni á þing í norðvesturkjördæmi en í suðvesturkjördæmi. Þetta misvægi hefur kallað óheilbrigða slagsíðu yfir lögin og landsstjórnina.

Jafnt vægi atkvæða er hagkvæmt vegna þess, að lýðræði er hagkvæmasta stjórnskipulag, sem völ er á. Misvægi atkvæðisréttar felur í sér frávik frá lýðræði og dregur úr hagkvæmni og skerðir lífskjör almennings á heildina litið. Misvægi atkvæða mylur undir þá, sem sitja að völdum með fá atkvæði að baki sér, iðulega í óþökk fjöldans. Í þessu ljósi þarf að skoða þá staðreynd, að innan við tíundi hver kjósandi segist bera mikið traust til Alþingis, mun lægra hlutfall en í nálægum löndum.

Jafnt vægi atkvæða er réttlátt vegna þess, að við eigum öll að sitja við sama borð, einnig í alþingiskosningum. Jafnt vægi atkvæða er mannréttindakrafa. Erlendir kosningaeftirlitsmenn hafa mörg undangengin ár mælt með löngu tímabærum leiðréttingum á kjördæmaskipaninni með skírskotun til algildra mannréttinda.

Umtalsverð frávik frá jöfnum atkvæðisrétti tíðkast hvergi í lýðræðisþjóðríkjum. Stundum eru Bandaríkin tilfærð sem dæmi um land með misjafnt vægi atkvæða með stuðningi stjórnarskrár. Hér er þó ólíku saman að jafna, þar eð Bandaríkin eru sambandsríki, sem er gerólíkt litlu samstæðu þjóðríki eins og Íslandi. Þar vestra kveður þó ekki nærri eins rammt að misvæginu og hér heima, þar eð misvægi atkvæðisréttarins þar er bundið við öldungadeild Bandaríkjaþings. Við kosningar til fulltrúadeildar þingsins gildir reglan „Einn maður, eitt atkvæði“. Öll löggjöf þarf að komast í gegn um báðar deildir þingsins. Fulltrúadeildin getur stöðvað þingmál ekki síður en öldungadeildin. Engum slíkum öryggisbúnaði er til að dreifa hér heima. Í fylkiskosningum í Bandaríkjunum, sem kalla má sambærilegar við alþingiskosningar, gildir reglan „Einn maður, eitt atkvæði“.

Þjóðfundurinn 2010 lýsti eftir jöfnu vægi atkvæða. Þjóðfundurinn speglaði þjóðarviljann í tölfræðilega marktækum skilningi, enda voru fulltrúarnir, um eitt þúsund talsins, valdir af handahófi úr þjóðskrá. Til þess var leikurinn gerður. Slembiúrtakið var miklu stærra en þurft hefði til að fullnægja kröfum tölfræðinnar um marktækar niðurstöður.

Í ljósi alls þessa þótti Stjórnlagaráði rétt, að í frumvarpi til nýrrar stjórnarskrár væri svofellt ákvæði: „Atkvæði kjósenda alls staðar á landinu vega jafnt.“ Að þessu gefnu lætur frumvarpið Alþingi eftir að ákveða, hvort landið allt verður eitt kjördæmi, eins og þjóðfundurinn lýsti eftir, eða fleiri, allt að átta.

Nú er hafin utankjörfundaratkvæðagreiðsla fyrir þjóðaratkvæðagreiðsluna um frumvarp Stjórnlagaráðs 20. október. Ein spurningin, sem lögð er fyrir kjósendur á kjörseðlinum, hljóðar svo: „Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði ákvæði um að atkvæði kjósenda alls staðar að af landinu vegi jafnt?“

Aldrei fyrr hefur kjósendum gefizt færi á að svara þessari spurningu og öðrum skyldum spurningum í þjóðaratkvæðagreiðslu, þar sem við sitjum öll við sama borð undir einkunnarorðunum: „Einn maður, eitt atkvæði.“ Nú er lag. Látum færið okkur ekki úr greipum ganga.