DV
31. okt, 2014

Einar Benediktsson

Í dag eru liðin 150 ár frá fæðingu Einars Benediktssonar, höfuðskálds Íslands eftir fráfall séra Matthíasar Jochumssonar 1920 allt til dauðadags 1940.

Einar Benediktsson var margir menn. Hann var ekki bara skáld, heldur einnig ritstjóri, lögfræðingur, embættis- og athafnamaður. Hann var framtaksmaður, það sem Englendingar og Frakkar kalla entrepreneur. Hann stofnaði fyrsta dagblað Íslands, Dagskrá, 1896, var sjálfur ritstjóri blaðsins í tvö ár og skrifaði um stjórnmál, atvinnuvegi, bókmenntir og menningu af mikilli snilld. Hann var meðútgefandi Landvarnar 1902, gaf síðan út Þjóðina 1914-1915 og ritstýrði henni og stofnaði og kostaði Þjóðstefnu 1916-1917 og Höfuðstaðinn 1916-1917. Hann fékk Marconifélagið til að setja upp og starfrækja loftskeytastöð í Reykjavík 1905-1906. Árin 1908-1921 stundaði hann ýmsa fjársýslu og fór víða, m.a. var hann oft í Noregi og lagði þar á ráðin um virkjanir, bjó fyrst í Edinborg, síðan í Kaupmannahöfn 1908-1910, þá í London 1910-1917 og svo aftur í Kaupmannahöfn 1917-1921, en kom heim á milli. Hann bjó eftir það í Reykjavík næstu ár, en var oft langdvölum erlendis, m.a. í Þýzkalandi, á Spáni og í Norður-Afríku. Hann stofnaði The British North-Western Syndicate Ltd. 1910 og fossafélagið Titan 1914 með norskum fjárfestum. Eftir heimkomuna 1921 lét hann fara fram rannsóknir á námum í Miðdal, aðallega með málmvinnslu og sements- og áburðarframleiðslu fyrir augum.

Skáldskapur Einars Benediktssonar birtist með reglulegu millibili í fimm bókum: Sögur og kvæði (1897), Hafblik (1906), Hrannir (1913), Vogar (1921) og Hvammar (1930). Einnig þýddi hann Pétur Gaut eftir Henrik Ibsen (1901). Meðal annarra rita hans eru Nývaltýskan og landsréttindin (1902), Sannleiksgullkorn og fróðleiksmolar (1910), Stjórnarskrárbreytingin og ábyrgð alþingis (ritgerðasafn, 1915) og Thules Beboere (1918). Auk þess birti hann margar greinar í blöðum og tímaritum, m.a. um Grænland. Þær lýsa framfarahug, jafnaðarhugsjón og ríkri réttlætiskennd. Þeim mun rangsleitnari er gamli rógurinn um meinta fjárglæfra hans, sem engir voru og engar heimildir eru til um aðrar en illmælgi og ábyrgðarlaust slúður. Einar kannaðist sjálfur við að vera a.m.k. tveir menn. „En þeir talast aldrei við“, bætti hann við.

Íslendingum fórst ekki vel við Einar Benediktsson. Þingmenn og aðrir tortryggðu áform hans, þar eð þeir virtust ekki þekkja muninn á heilbrigðu framtaki og fjárglæfrum. Einari varð því frekar ágengt um áhugamál sín í Noregi en á Íslandi, þar sem hann sagði menn snýta sér þeim mun fastar í fingurna sem þeir skildu minna af því, sem við þá var sagt. Reynslan sýnir, að áform Einars Benediktssonar voru raunsæ, enda komust þau nær öll í framkvæmd eftir hans dag. Norðurljósin rokseljast.

Símon Jóh. Ágústsson, síðar prófessor í sálarfræði, kynntist Einari Benediktssyni vel í París 1931-1932 og lýsir honum svo í handriti frá 1975: „Einar var með hærri mönnum, … um 183 cm á hæð. … Hann var vel limaður, hendurnar grannar, langar og vel hirtar. Hann var … mikill á velli, vel í holdum, en ekki feitur. … Hann var nokkuð höfuðstór, frekar langhöfði en stutthöfði. Hann hafði ekki fullt hár, en það var dökkt eða dökkjarpt, slétt eða lítið eitt liðað og gljáði á það. … Hann var með vel snyrt yfirvararskegg og var það farið að grána lítið eitt. Andlitið var bæði frítt og gerðarlegt, svipurinn sterkur og hreinn. … Allra manna var hann bezt eygður. Augun voru í meðallagi stór, móleit, en jafnframt með bláum eða blágrænum lit. Augnaráð hans var hvasst og leiftrandi og tók miklum breytingum eftir skapbrigðum hans, svo og allur andlitssvipur hans. Í augum hans, einkum þegar honum bjó eitthvað mikið í hug, brá fyrir ólýsanlegum glampa eða bliki, sem ég hef ekki séð hjá nokkrum öðrum manni … Einar var ákaflega mælskur, orðgnótt hans var óþrjótandi … Handahreyfingum sínum stillti hann mjög í hóf. … Einar var fyrirmannlegur í öllum háttum, fas hans og framkoma voru fáguð. Hann var jafnan mjög vel til fara. Við okkur stúdentagræningjana var hann ákaflega alúðlegur og vingjarnlegur. … Á langri ævi hef ég engan mann séð höfðinglegri né fallegri en Einar Benediktsson. Hann skar sig úr þúsundum og milljónum manna. … Fyndnin lék svo á vörum hans, að það eru ekki neinar ýkjur, þótt sagt sé, að vel fyndinn maður segi varla fleiri hnyttiyrði allt sitt líf en Einar sagði oft á einni dagstund, er hann var í essinu sínu. Þessi andans auðlegð féll yfir menn eins og holskefla, svo að þeir stóðu sem höggdofa. … Við þessa andlegu eiginleika bættist svo hin mikilúðlega og fagra persóna hans og höfðinglegt fas. … Aldrei heyrði ég Einar minnast á móður sína, en oft talaði hann um föður sinn með takmarkalausri aðdáun (föðurdýrkun). Á Svölu dóttur sína mátti hann ekki óklökkur minnast.”