Fréttablaðið
30. mar, 2017

„Ég vara ykkur við“

Maður er nefndur Andrey Krutskikh. Hann er ráðgjafi ríkisstjórnar Rússlands um öryggis- og upplýsingamál. Hann hélt ræðu á ráðstefnu í Moskvu í febrúar 2016 þegar baráttan um forsetaembættið í Bandaríkjunum var nýhafin. Í ræðu sinni sem hann hélt á rússnesku sagði Krutskikh að stórveldin tvö stæðu nú í sömu sporum og 1948, þ.e. árið áður en Rússar byggðu fyrstu kjarnorkusprengju sína fjórum árum á eftir Bandaríkjamönnum. Eftir það gátu Rússar staðið jafnfætis kananum í hernaðarlegu tilliti. Það flýtti fyrir Rússum að austur-þýzkur kommúnisti, Klaus Fuchs, lak upplýsingum til þeirra. Fuchs hafði unnið í Los Alamos þar sem bandarísku bomburnar tvær sem var varpað á Hirosima og Nagasaki 1945 voru búnar til. Enginn vissi þá nema Truman Bandaríkjaforseti og menn hans að þriðja sprengjan var ekki til.

Ég vara ykkur við, sagði Krutskikh í ræðu sinni í Moskvu, við erum að ná slíku valdi á upplýsingahernaði að við getum aftur talað við Bandaríkjamenn sem jafningjar. Sterkt Rússland getur sagt Vesturlöndum fyrir verkum, bætti hann við skv. frásögn Washington Post, sjónvarpsstöðvarinnar CNBC o.fl. miðla.

Fyrr höfðu vaknað grunsemdir sem jaðra við fullvissu um að Rússar hafi gert tölvuárás á Eistland 2007 og síðan einnig Georgíu 2008 áður en Rússar réðust þangað inn með vopnavaldi. Tölvuárásirnar fólust í að láta vefsetur stjórnvalda kikna undan álagi, brjótast inn í þau til að breyta innihaldinu o.fl. Þannig birtist t.d. mynd af Hitler á vefsetri forsætisráðherra Georgíu.

Í þessu ljósi hlaut grunur að beinast að Rússum þegar stolnir tölvupóstar demókrata tóku að birtast á vefsetri Wikileaks í aðdraganda forsetakjörsins vestra í haust leið. Upplýsingar um skipulegar lygaherferðir á vefnum og samfélagsmiðlum lögðust á sömu sveif. Þessi grunur hefur nú breytzt í fullvissu yfirvalda í Bandaríkjunum enda verður ekki séð að Rússar reyni að hylja sporin, ekki frekar en þeir sáu ástæðu til að þegja um fyrstu atómbombu sína 1949, þvert á móti. Sumir telja að með þessu hafi Rússar e.t.v. ráðið úrslitum forsetakosninganna í Bandaríkjunum.

Vísbendingar hrannast nú upp um að Trump forseti og menn hans kunni að hafa haft samráð við Rússa m.a. um tölvuhernaðinn gegn Bandaríkjunum. Fyrst tóku menn eftir því að menn Trumps báðu um aðeins eina breytingu á stefnuskrá Repúblikanaflokksins á flokksþinginu í sumar leið: þeir báðu um að gagnrýni á hernað Rússa gegn Úkraínu yrði numin burt. Þeim var alveg sama um allt hitt. Skömmu síðar, í lok júlí 2016, hóf alríkislögreglan FBI rannsókn á meintu samneyti Trumps og manna hans við Rússa eins og nú er komið á daginn. Forstjóri FBI greindi í tvígang fyrir kosningar frá rannsókn lögreglunnar á tölvupóstum Clintons, frambjóðanda demókrata, en sagði ekki orð um hina rannsóknina sem snýst þó að því er virðist um hugsanleg landráð.

Menn tóku einnig eftir því að Trump hallaði hvergi orðinu á Pútín forseta og stjórnarhætti hans, öðru nær, ólíkt nær öllum repúblikönum á þingi. Nú er komið í ljós að kosningastjóri Trumps, Paul Manafort, var launaður leynilegur erindreki ríkisstjórnar Pútíns auk annarra ávirðinga. Áður hafði nýr dómsmálaráðherra í ríkisstjórn Trumps, Jeff Sessions frá Alabama, þurft að segja sig frá rannsókn á Rússatengslum Trumps og manna hans vegna funda sem hann átti með Rússum. Nýskipaður öryggismálaráðgjafi forsetans, Michael Flynn, var staðinn að lygum um samtöl við Rússa og neyddist til að segja af sér. Tengdasonur og helzti ráðgjafi forsetans, Jared Kushner, átti fund með bankastjóra sem er handgenginn Pútín forseta; bankinn er á svörtum lista bandarískra yfirvalda, þ.e. háður lögbundnu viðskiptabanni.

Báðar deildir Bandaríkjaþings hófu rannsókn á málinu, hvor í sínu lagi. Repúblikanar hika og hafa meiri hluta í báðum deildum en demókratar heimta rannsókn og engar refjar enda snýst málið um hugsanleg landráð. Enginn veit nú hvort nefndir þingsins reynast vandanum vaxnar. Enginn veit heldur hvort rannsókn lögreglunnar fær að renna sitt skeið eða ekki. Óháð rannsókn er trúlega eina vitið ásamt skipun sérstaks saksóknara ef nauðsyn krefur en slík rannsókn verður ekki sett í gang nema fyrir tilstilli þingsins. Enn hallar á bandarískt lýðræði eins og margir Bandaríkjamenn viðurkenna nú opinberlega, þ. á m. Steven Hall sem fór með málefni Rússlands í leyniþjónustunni CIA 1985-2015.

Það veit þó kannski á gott að margir bandarískir þingmenn og aðrir vilja komast til botns í málinu. Það er meira en hægt er að segja um viðbrögðin sem fyrirspurnir á Alþingi um meint Rússatengsl íslenzkra banka hafa fengið.