Fréttablaðið
10. jan, 2008

Dvínandi afli: Taka tvö

Tæknilega séð væri hægðarleikur að kippa sameiginlegri sjávarútvegsstefnu ESB í lag, svo að útvegur ESB-landanna gæti horft björtum augum til framtíðarinnar. Til þess þyrfti að bæta úr þeim fjórum megingöllum, sem ég lýsti á þessum stað fyrir viku.

Í fyrsta lagi þyrfti að taka ákvarðanir um aflamark úr höndum stjórnmálamanna með því til dæmis að stofna sérstakt ráð, sem hefði það hlutverk að tryggja hámarksafrakstur af fiskimiðum í lögsögu ESB-landanna til langs tíma litið. Hugsunin hér er hina sama og býr að baki núgildandi löggjafar um sjálfstæða seðlabanka nær alls staðar um iðnríkin og víðar: peningamál eru mikilvægari en svo, að vert sé að treysta skammsýnum og duttlungafullum stjórnmálamönnum fyrir stjórn þeirra. Þessari lausn væri hægt að koma við í hverju landi fyrir sig eða innan ramma nýrrar sameiginlegrar fiskveiðistefnu ESB, þar sem réttur og hagur hvers aðildarríkis væri tryggður. Þessi hugsun er í góðu samræmi við upphaflega hugsjón ESB: að stilla til friðar milli landa með samstjórn mikilvægra náttúruauðlinda og annarra mála, sem ríkur samhagur er bundinn við. Í annan stað þyrfti að selja kvótana, sem aflamarksráðið ákvæði, á markaðsverði eða opnu uppboði til að koma veiðiréttindunum örugglega í hendur þeirra, sem geta dregið fiskinn úr sjó með minnstum tilkostnaði. Í þriðja lagi þyrfti að tryggja frjáls viðskipti með kvóta. Þessar þríþættu umbætur á sameiginlegri fiskveiðistefnu ESB myndu efla bæði hagkvæmni og réttlæti – hagkvæmni með því að færa veiðiheimildirnar í hendur þeirra, sem bezt kunna með þær að fara, í frjálsri samkeppni, til dæmis á uppboðsmarkaði, þar sem allir sitja við sama borð, og réttlæti með því að koma arðinum af sameignarauðlindinni í hendur réttra eigenda að lögum: skattgreiðenda. Væri sameiginleg fiskveiðistefna ESB með þessu móti færð í heilbrigt markaðsbúskaparhorf, gætu Ísland og Noregur gengið áhyggjulaus og létt í spori í ESB, með því að tryggt væri, að frjáls aðgangur að uppboðsmörkuðum væri aðskilinn frá frjálsum aðgangi að auðlindunum, sem kæmi að sjálfsögðu aldrei til greina. Ef skozkir fiskimenn geta greitt hærra verð en íslenzkir fyrir veiðirétt á Íslandsmiðum, geta báðar þjóðirnar hagnazt á viðskiptunum.

Umbætur á fiskveiðistefnu ESB í þessa veru myndu mæta harðri andstöðu, það segir sig sjálft. Margir stjórnmálamenn myndu snúast öndverðir gegn hugmyndinni um að fela nýju aflamarksráði, skipuðu óháðum sérfræðingum, að ákveða aflakvóta frá ári til árs. Samt hafa evrópskir stjórnmálamenn fallizt á að fela óháðum seðlabanka í Frankfurt stjórn peningamála í samræmi við hugsunina um óháða dómstóla, fjölmiðla og háskóla. Í annan stað myndu margir stjórnmálamenn, útgerðarmenn og sjómenn leggjast gegn því, að horfið yrði frá eða dregið úr núverandi niðurgreiðslum og styrkjum handa evrópskum sjávarútvegi líkt og evrópskir bændur og bandamenn þeirra á stjórnmálavettvangi halda áfram að streitast gegn umbótum á búverndarstefnunni í markaðsbúskaparátt, og þeir munu vísast leggjast með líku lagi gegn frjálsum viðskiptum með veiðiheimildir. Hér heima var fylgi útvegsmanna við frjálst framsal á sínum tíma keypt því dýra verði, að þeim var fyrst færður kvótinn á silfurfati. ESB þarf ekki að fara eins að ráði sínu.

Kvótakerfi ESB hvetur líkt og íslenzka kvótakerfið til brottkasts, því að fiskimenn reyna skiljanlega að fylla kvótana sína með dýrum fiski og fleygja því undirmálsfiski. Brottkast er yfirleitt ekki bannað með lögum í Evrópu. Rannsóknir sýna, að fiskiskip með eftirlitsmenn um borð skila yfirleitt hlutfallslega minna af dýrum fiski á land en skip án eftirlits. Athuganir á vegum ESB benda til, að 40-60 prósentum af veiddum afla sé fleygt fyrir borð. Við þetta bætist ólögleg löndun afla í óþekktu umfangi til að komast fram hjá kvóta. Í vel útfærðu veiðigjaldskerfi borgar sig oftast nær að koma með allan veiddan fisk á land, svo lengi sem verðið, sem fæst fyrir fiskinn að greiddu gjaldi, er umfram flutningskostnaðinn af sjó á land.