Fréttablaðið
20. mar, 2008

Brosandi borgir og lönd

New York – borgin, ekki ríkið – er ríflega helmingi ríkari en Bandaríkin í heild. Framleiðsla á mann í New York 2005 nam 65 þúsundum dollara á kaupmáttarkvarða á móti 42 þúsundum dollara fyrir landið allt. London, París og Bangkok eru með líku lagi ríflega helmingi ríkari en Bretland, Frakkland og Taíland, að ekki sé minnzt á Sjanghæ, þar sem framleiðsla á mann er tvisvar sinnum meiri en í Kína í heild. Kaupmáttarkvarðinn er oft notaður í fjölþjóðlegum samanburði, þar eð verðlag er mishátt eftir löndum. Klipping í Sjanghæ kostar til dæmis ekki nema 200 krónur, og kaupmáttur heimilanna er eftir því meiri en ella. Stokkhólmur er rösklega helmingi ríkari en Svíþjóð; tekjur á mann í Stokkhólmi 2005 námu 54 þúsundum dollara móti 32 þúsundum dollara fyrir landið allt. Munstrið er býsna skýrt, en það er samt ekki einhlítt. Hamborg er til dæmis ekki miklu ríkari en Þýzkaland mælt í tekjum á mann.

Borgir, einkum stórborgir, eru yfirleitt hagkvæmar rekstrareiningar. Ýmsa þjónustu er ódýrara að sækja í borg en í sveit, ekki aðeins vegna nálægðar fyrirtækjanna við mikinn fjölda viðskiptavina, heldur einkum vegna þeirrar hagkvæmni, sem býr í vel útfærðum stórrekstri. Flutningar fólks úr dreifðum byggðum í þéttbýli endurspegla eftirsókn þess eftir betri þjónustu og betur launuðum störfum, sem borgir og bæir geta veitt umfram sveitirnar.

Uppgangurinn í Kína undangengin ár er öðrum þræði því að þakka, að fólkið hefur flykkzt úr sveitunum inn í borgirnar. Sveitafólkið leggur drjúgan skerf til verðmætasköpunarinnar í borgunum og breytir ásjónu þeirra og lyftir lífskjörum borgarbúa á heildina litið. Sennilega hefur engin borg heimsins tekið viðlíka stakkaskiptum og Sjanghæ, sem hefur á stuttum tíma breytzt úr frekar lágreistri byggð í háreista heimsborg, sem býst nú til að keppa við Hong Kong og New York á flestum sviðum. Tekjur á mann í Sjanghæ eru nú orðnar svipaðar og þær voru á Íslandi um 1970 – já, 1970! – og aukast hratt frá ári til árs. Borgarbragurinn ber vitni: iðandi mannhaf, brunandi bílar og byggingarkranar, sem reisa einn nýjan skýjakljúf á hverjum degi.

Í þessu ljósi þarf að skoða sérstöðu borgríkjanna tveggja í Suðaustur-Asíu, Hong Kong og Singapúr. Þau þurfa ekki að bera þann kostnað, sem fylgir smárekstri í dreifðum byggðum og einnig landbúnaði, jafnvel þegar hann er stundaður með stóru sniði. Borgríkin hafa að því skapi meiri vaxtarmöguleika. Það er því ekki að öllu leyti sanngjarnt að bera lífskjör almennings þar saman við lífskjör í öðrum löndum; nær væri að bera kjörin þar við lífskjör í öðrum borgum.

Asíulöndin hafa af eigin ramleik náð miklum árangri síðan 1960. Fjármálakreppan þar 1997-98 setti ekki stórt strik í reikninginn á heildina litið. Lækkun hlutabréfaverðs getur að vísu verið þungbær í bráð, en hún veldur yfirleitt ekki langvinnum búsifjum, ef undirstaðan er sterk.

Örastur hefur vöxturinn verið í Kína í krafti efnahagsumbótanna, sem Deng Xiaoping hóf 1978 fyrst í landbúnaði og síðan á öðrum sviðum upptendraður af heimsókn sinni til Singapúr, þar sem hann fékk að sjá með eigin augum, hversu mikils Kínverjar eru megnugir, fái þeir til þess frið og svigrúm. Landsframleiðsla á mann í Kína tífaldaðist 1975- 2005. Framleiðsla á mann í Hong Kong, Singapúr og Taílandi fjórfaldaðist á sama 30 ára skeiði og fimmfaldaðist í Kóreu. Framför Taílands frá 1975 má ráða af því, að landið hefur vaxið jafnhratt og borgríkin tvö, Hong Kong og Singapúr, þótt aðeins þriðjungur Taílendinga búi nú í borgum og bæjum á móti 80 prósentum Kóreumanna.

Um Japan gegnir öðru máli. Þar hefur framleiðsla á mann ekki nema tvöfaldazt frá 1975 líkt og á Íslandi. Ekki nóg með það: landsframleiðsla á mann í Japan stóð svo að segja í stað 1990-2000 og óx aðeins um sjöttung 1990-2005 á móti þriðjungsaukningu hér heima. Hægur vöxtur Japans frá 1990 skrifast einkum á duglausa stjórnmálastétt, sem stóð ráðþrota frammi fyrir ofþenslu á fasteigna- og hlutabréfamarkaði fyrir 1990 og einnig frammi fyrir stöðnun í heilan áratug í kjölfar ofþenslunnar. Svo langan tíma getur það tekið að vinda ofan af skefjalausri ofþenslu í efnahagslífi lands, hvort sem atvinnulífið eða ríkið ber upphafssök á ofþenslunni. Við þekkjum þetta: Ísland stóð í stað 1987-96 eftir verðbólgu og rakalausa óstjórn fyrri ára. Sagan er til þess að læra af henni, en gæti þó verið í þann veginn að endurtaka sig.