DV
2. maí, 2014

Frá Broadway til Alþingis

Ég man þegar ég flutti til Washington, höfuðborgar Bandaríkjanna, fyrir bráðum 40 árum. Þá héngu þar víða uppi í skóvinnustofum, efnalaugum og öðrum vinnustöðum myndir af John F. Kennedy fyrrum forseta, sem hafði verið myrtur í Dallas fáeinum árum fyrr. Fátækt blökkufólk heiðraði minningu fallins forseta. Nær hefði verið að hafa þarna heldur uppi hangandi myndir af mér, var haft eftir Lyndon B. Johnson, sem tók við forsetaembættinu eftir Kennedy. Johnson kom langþráðri mannréttindalöggjöf í gegnum Bandaríkjaþing 1964 gegn harðri andstöðu repúblikana og einnig demókrata frá suðurríkjunum. Kennedy kom fáum frumvörpum gegnum þingið, en þar var Johnson öllum hnútum kunnugur.

Nú gengur fyrir fullu húsi á Broadway nýtt leikrit, All the Way, eftir bandaríska leikskáldið Robert Schenkkan. Leikritið segir söguna af fyrsta ári Johnsons í Hvíta húsinu, 1964. Johnson lagði allt kapp á að koma mannréttindafrumvarpi Kennedys gegnum þingið og tryggja þannig sjálfum sér endurkjör 1964. Bryan Cranston leikur LBJ af þvílíkri list, að ég hef sjaldan séð annað eins á sviði. Cranston varð frægur í hlutverki efnafræðikennarans, sem lendir í fjárþröng og snýr sér að eiturlyfjaframleiðslu í sjónvarpsþáttunum Breaking bad, 60 tíma stím, hvergi dautt augnablik.

Sagan frá 1964 á erindi við nútímann. Þá voru innan við 100 ár liðin frá lokum borgarastríðsins, sem kostaði 600.000 Bandaríkjamenn lífið, einnig Abraham Lincoln, merkasta forseta landsins fyrr og síðar. Borgarastyrjöldin snerist í reyndinni um rétt meiri hluta landsmanna til að skerða rétt minni hlutans í suðurríkjunum til þrælahalds. Sigur norðurríkjanna leiddi til afnáms þrælahalds 1865, en með því lauk þó ekki baráttunni fyrir fullum réttindum blökkumanna.

Lyndon Johnson einsetti sér að feta slóð Lincolns og fá þingið til að samþykkja mannréttindalög til að girða fyrir mismunun á grundvelli kynþáttar, litarháttar, trúarbragða, kynferðis eða ætternis. Þetta þóttu sjálfsögð mannréttindi víða í Vestur-Evrópu, en ekki í Bandaríkjunum. Johnson þurfti að vaða eld og reyk, svo hörð var andstaðan af hálfu þeirra, sem töldu sér ógnað, fengju svartir menn og hvítir að sitja við sama borð. Johnson beitti ýmsum brögðum til að koma frumvarpinu í gegnum báðar deildir þingsins. Hann skirrðist ekki við að hræða líftóruna úr andstæðingum sínum og hikandi samherjum eða jafnvel múta þeim, m.a. með því að lofa stuðningi við lítilmótlegt kjördæmapot.

Blökkumenn undir forustu dr. Martins Luther King voru viðkvæmir fyrir málamiðlunum, sem Johnson hugleiddi til að koma málinu í höfn, og hótuðu fjöldamótmælum. Þeir brugðust ókvæða við, þegar Johnson féllst á að veikja ákvæði um jafnan kosningarétt svartra og hvítra í frumvarpinu. En Johnson sagði: Tökum eitt skref í einu, jöfnun kosningaréttarins er næst á dagskrá. Klukkan gekk. Johnson varð að koma frumvarpinu fram í tæka tíð fyrir forsetakjörið í nóvember 1964. Hann barðist eins og ljón. Hann þurfti 67 atkvæði af 100 í öldungadeildinni til að stöðva nær tveggja mánaða málþóf andstæðinganna. Það tókst, með herkjum. Hubert Humphrey, síðar varaforseti, átti sinn þátt í því. Frumvarpið var samþykkt í báðum þingdeildum með 70% atkvæða gegn 30%. Vitað var, að meiri hluti kjósenda studdi frumvarpið.

Hvað gerðist næst? Norska Nóbelsverðlaunanefndin tilkynnti í október, mánuði fyrir kosningar, að Martin Luther King skyldi hljóta friðarverðlaun Nóbels, 35 ára að aldri. Ég man ekki viðbrögðin, sem verðlaunin vöktu meðal andstæðinga Johnsons í aðdraganda kosninganna, en víst má telja, að viðurkenningin hafi sefað blökkumenn og blásið þeim kjark og sigurvon í brjóst. Mánuði síðar sigraði Johnson keppinaut sinn, Barry Goldwater, frambjóðanda repúblikana, með 61% atkvæða gegn 39%, og 95% blökkumanna kusu Johnson. Árið eftir, 1965, efndi Johnson heit sitt og keyrði jafnan kosningarétt hvítra og svartra í gegnum þingið með miklum brag.

Átti Johnson að gefast upp fyrir þeim, sem sögðust hafa heilagan rétt til endalauss málþófs? Átti hann að gefast upp fyrir þeim, sem sögðu jafnan rétt hvítra og svartra brjóta gegn stjórnarskránni? Átti hann að gefast upp fyrir þeim, sem sögðu, að um viðkvæm lög, sem snerta stjórnarskrána, þurfi að ríkja víðtæk sátt í þinginu?

Nei, auðvitað ekki. Johnson bauð þrjótunum byrginn. Hann taldi, að málþóf í þágu rangs málstaðar og mannréttindabrota verði réttsýnir menn að stöðva eins og lögin leyfa. Hann taldi það fjarstæðu, að jafnrétti kynþáttanna brjóti gegn stjórnarskránni. Og hann taldi fráleitt, að um framför mannréttinda þurfi að ríkja víðtæk sátt á þingi, því að minni hlutinn, sem nærist á ranglæti og mismunun, mun ævinlega berjast gegn jafnrétti og verður því að lúta í lægra haldi skv. leikreglum lýðræðisins.

Johnson stóðst prófið 1964 með miklum brag. Jóhanna Sigurðardóttir, Steingrímur J. Sigfússon, Árni Páll Árnason, Katrín Jakobsdóttir og Guðmundur Steingrímsson kolféllu á sama prófi 2013, þegar þau heyktust á að neyta aflsmunar á Alþingi fyrir samþykkt nýrrar stjórnarskrár í samræmi við skriflegar yfirlýsingar meiri hluta þingmanna og í samræmi við vilja kjósenda eins og hann birtist í þjóðaratkvæðagreiðslunni 2012.