Fréttablaðið
9. júl, 2009

Breyttar forsendur

Í nóvember 2008, þegar efnahagsáætlun ríkisstjórnarinnar og Seðlabankans var hrundið af stað með fulltingi Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS), voru erlendar skuldir þjóðarbúsins taldar minnka úr 670% af landsframleiðslu í árslok 2008 í 160% 2009. Munurinn á þessum tveim tölum er 510% af landsframleiðslu og samsvarar erlendum skuldum gömlu bankanna, einkaskuldum, sem þeir voru taldir annaðhvort ekki mundu standa skil á eða þá gera upp að einhverju marki við lánardrottna sína með eignasölu. Ljóst var, að erlenda skuldin, sem eftir var talin standa í árslok 2009, 160% af landsframleiðslu, myndi leggja þungar byrðar á þjóðina. AGS leit þó svo á, að þessa þungu byrði gæti fólkið í landinu borið, enda myndi hún léttast hratt með ströngu aðhaldi 2010-13 og nema 101% af landsframleiðslu í árslok 2013 og vera þá komin í viðráðanlegt horf, þótt þung væri.

Þessar forsendur frá í nóvember 2008 standast nú ekki lengur í tveim veigamiklum atriðum. Í fyrsta lagi virðast eignir bankanna nú munu duga í mesta lagi fyrir innistæðum. Reynist það rétt, munu erlendir lánardrottnar öndvert vonum varla fá neitt upp í kröfur sínar á hendur þrotabúum gömlu bankanna. Erlendir kröfuhafar munu þá trúlega höfða mál gegn íslenzka ríkinu til að reyna að fá neyðarlögunum frá í október 2008 hnekkt. Það hefur aldrei áður gerzt í fjármálasögu heimsins, að bankakerfi lands hafi hlunnfarið erlenda viðskiptavini um fjárhæð, sem nemur rösklega fimmfaldri landsframleiðslu heimalandsins, og er þá skaðinn, sem innlendir viðskiptavinir bankanna hafa orðið fyrir ekki talinn með. Þessi einstæða ósvinna mun loða við Ísland um ókomna tíð.

Í annan stað virðast erlendar skuldir þjóðarbúsins nú stefna í um 240% af landsframleiðslu í árslok 2009 eins og komið hefur fram í fréttum, en ekki 160% líkt og áður var talið. Munurinn á gamla og nýja skuldamatinu nemur um 80% af landsframleiðslu. Reynist nýja matið rétt, munu erlendar skuldir þjóðarbúsins í árslok 2009 nema um fimmföldum útflutningstekjum landsmanna það ár. Það þýðir, að nær þriðja hver króna, sem útflutningsfyrirtækin hala inn, rennur beint úr landi aftur til að standa straum af vöxtum að óbreyttum höfuðstóli. Ekkert land getur borið svo þunga vaxtabyrði, nema miklar erlendar eignir standi á móti skuldunum.

Samanburður við efnahagshrun Færeyja 1989-93 bregður birtu á vandann. Erlendar skuldir færeysku landsstjórnarinnar eftir hrun námu um 120% af landsframleiðslu Færeyja. Færeyskir skattgreiðendur stóðu skil á skuldunum með vöxtum á innan við tíu árum. Uppgjörinu fylgdi að vísu eftirgjöf Dana á um fimmtungi skuldanna. Íslendingar virðast nú þurfa að horfast í augu við og axla um tvöfalt þyngri skuldabyrði en Færeyingar eftir hrun.

Færeysk lög voru brotin, svo sem fram kom við réttarhöld eftir hrunið, en lögbrjótum var hlíft við ábyrgð að öðru leyti en því, að sumir þeirra náðu ekki endurkjöri til þings. Ekki óx álit Færeyja í Danmörku við þau málalok, en kunnugleiki umheimsins um Færeyjar er takmarkaður utan Danmerkur, Íslands og Grænlands, svo að álitshnekkirinn kom ekki mjög að sök.

Um Ísland gegnir öðru máli. Við erum fullvalda þjóð, sem hefur hingað til notið sæmilegs álits víða um lönd. Álit þjóðarinnar hefur nú beðið hnekki. Væri allt með felldu, myndu Danir, Finnar, Norðmenn og Svíar ef til vill reyna að forða Íslandi frá þeirri auðmýkingu og þungbærum skaða, sem bankahrunið hefur valdið landinu og virðist nú geta stefnt þjóðinni langleiðina í gjaldþrot. Slík hjálp þyrfti lauslega reiknað ekki að kosta hvern Norðurlandabúa miklu meira en endurreisn Færeyja eftir hrun kostaði hvern Dana, væri vel á málum haldið. Hjálp af þessu tagi virðist þó ekki vera í boði umfram þau norrænu gjaldeyrislán, sem samið hefur verið um með fyrirvara um frekari stuðning AGS við efnahagsáætlun ríkisstjórnarinnar og Seðlabankans og fleira. Ætli frændum okkar og vinum á Norðurlöndum blöskri ekki líkt og flestum okkar hinna framganga þeirra, sem komu Íslandi á kaldan klaka?