Fréttablaðið
21. apr, 2016

Brennuvargar og slökkvistörf

Nýr forseti Íslands þarf helzt að sameina sem flesta kosti forvera sinna.

Forseti lýðveldisins þarf að geta veitt Alþingi og ríkisstjórn aðhald og jafnvel skipað landinu utanþingsstjórn sé þess þörf eins og Sveinn Björnsson; tekið farsælt frumkvæði að stjórnarmyndun við erfiðar aðstæður eins og Ásgeir Ásgeirsson; haldið fram sögu landsins, menningu, tungu og náttúru án yfirlætis innan lands og utan líkt og Kristján Eldjárn og Vigdís Finnbogadóttir; skotið umdeildum þingmálum til þjóðarinnar eins og Ólafur Ragnar Grímsson; og eflt Íslendinga til dáða með hug og orði.

Núverandi forseti virkjaði málskotsrétt forsetans skv. gildandi stjórnarskrá þótt hann hefði að vísu um árabil kennt nemendum sínum í Háskóla Íslands að málskotsrétturinn væri markleysa líkt og nokkrir lagakennarar gerðu einnig. Að öðru leyti kemst núverandi forseti hvergi með tærnar þar sem forverar hans höfðu hælana. Nú verður ekki lengur undan því vikizt að lýsa því. Göngum á röðina.

Sveinn Björnsson, fyrsti forseti Íslands, átaldi Alþingi í nýársávarpi sínu 1949 fyrir að vanrækja endurskoðun stjórnarskrárinnar frá 1944 og sagði: „ … búum vér því ennþá við bætta flík, sem sniðin var upprunalega fyrir annað land, með öðrum viðhorfum, fyrir heilli öld.“ Núverandi forseti er á hinn bóginn allur á bandi andstæðinga nýju stjórnarskrárinnar sem tveir þriðju hlutar kjósenda samþykktu í þjóðaratkvæðagreiðslunni 2012. Forsetinn hefur skipað sér í fremstu röð þeirra sem vilja smána þjóðarviljann í stjórnarskrármálinu.

Ásgeir Ásgeirsson beitti sér fyrir myndun viðreisnarstjórnarinnar 1959 m.a. til að leysa þann vanda sem hlauzt af djúpu ósætti helztu forustumanna Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins eftir stjórnarskrárbreytinguna 1959. Viðreisnarstjórnin reyndist langlíf og farsæl, sat í tólf ár. Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks 1995-2007 reyndist að vísu jafnlanglíf, en farsæl var hún ekki heldur varðaði veginn fram að bjargbrúninni 2008 svo sem jafnvel yngstu menn ættu að muna. Núverandi forseti átti einkum frumkvæði að myndun ríkisstjórnar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks 2013 undir forustu minni flokksins, Framsóknar, hinnar fyrstu í sögu lýðveldisins sem frammi fyrir agndofa umheimi hrökklaðist frá völdum vegna hneykslis eftir aðeins þrjú ár en þó aðeins til málamynda.

Kristján Eldjárn og Vigdís Finnbogadóttir voru flekklausir fulltrúar íslenzkrar menningar og fluttu mál sitt svo innan lands og utan að hvergi bar skugga á. Núverandi forseti hefur ítrekað orðið sér til minnkunar innan lands og utan með yfirlætisfullum málflutningi („You ain‘t seen nothing yet“). Rannsóknarnefnd Alþingis birti að gefnu tilefni langan kafla í skýrslu sinni (8. bindi, bls. 170-178) um nauðsyn þess að forsetaembættinu væru settar „siðareglur þar sem meðal annars yrðu ákvæði um það með hvaða hætti er eðlilegt að hann veiti viðskiptalífinu stuðning.“ (bls. 178) Fv. ríkisstjórn ítrekaði þessi tilmæli til forsetans, en hann varð ekki við þeim. Þóttafullur málflutningur forsetans á ekki vel við nú þegar öfgafullir þjóðremblar sækja í sig veðrið um alla Evrópu.
Alþingi gerði sig sekt um þá óhæfu á lokafundi sínum í marz 2013 að greiða ekki atkvæði um nýju stjórnarskrána sem lá fullbúin til staðfestingar á Alþingi. Forseti Íslands hefði þá átt að grípa í taumana eins og gildandi stjórnarskrá frá 1944 heimilar honum. Forsetinn hefði getað beitt fyrir sig 23. og 25. grein stjórnarskrárinnar.

Í 23. grein segir: „Hafi Alþingi verið frestað getur forseti lýðveldisins eigi að síður kvatt Alþingi saman til funda ef nauðsyn ber til.“ Forsetinn hefði því getað kallað Alþingi saman strax aftur til að ljúka málinu. Hefði það ekki dugað hefði forsetinn getað beitt fyrir sig 25. grein stjórnarskrárinnar þar sem segir: „Forseti lýðveldisins getur látið leggja fyrir Alþingi frumvörp til laga og annarra samþykkta.“ Forsetinn hefði getað lagt stjórnarskrárfrumvarpið óbreytt fyrir Alþingi. Meiri hluti þingmanna hafði opinberlega lýst stuðningi við frumvarpið. Gildandi stjórnarskrá veitti forsetanum skýra heimild til að hleypa Alþingi ekki heim fyrr en það hefði staðfest nýju stjórnarskrána í samræmi við niðurstöðu kjósenda í þjóðaratkvæðagreiðslunni 2012. Meiri hluti Alþingis hefði að öllum líkindum ekki lagt í að fella frumvarpið þar eð dómur þjóðarinnar lá fyrir.

Forseti Íslands kaus að gera ekkert af þessu, hann sem hafði þó fyrstur manna beitt málskotsréttinum skv. 26. grein stjórnarskrárinnar. Hann lét undir höfuð leggjast að koma fólkinu í landinu og lýðræðinu til varnar á úrslitastundu svo sem hann hafði skýrt umboð til skv. stjórnarskrá og stjórnskipan landsins gerir beinlínis ráð fyrir.

Nýr forseti þarf að standa með þjóðinni ef gjá myndast milli þings og þjóðar og beita sér fyrir staðfestingu nýju stjórnarskráinnar sem þjóðin kaus sér til handa 2012, stjórnarskrá sem hefst á orðunum: „Við sem byggjum Ísland viljum skapa réttlátt samfélag þar sem allir sitja við sama borð.“ Reynslan sýnir að núverandi forseti er ekki vel til verksins fallinn. Hann var nefndur „guðfaðir útrásarinnar“ og er enn holdgervingur spilltrar og óhæfrar stjórnmálastéttar sem hrinti Íslandi fram af hengiflugi 2008, kallaði hörmulegan skaða yfir fjölda fólks innan lands og utan og lætur samt eins og lítið sem ekkert hafi í skorizt. Brennuvargar henta ekki vel til slökkvistarfa.