DV
12. nóv, 2012

Brenglað tímaskyn

Til mín kom um daginn rússnesk blaðakona fyrir milligöngu sendiráðsins til að taka við mig viðtal, sem væri nú varla í frásögur færandi nema fyrir það, að eina ákvæðið í stjórnarskrárfrumvarpinu, sem hún spurði mig um, var dýraverndarákvæðið.

Ég reyndi að skýra ákvæðið fyrir henni og rifjaði upp ummæli Gandís á þá leið, að siðmenningu okkar mannanna — þ.e. framkomu okkar við aðra menn — megi ráða af framkomu okkar við málleysingja.

Blaðakonan svaraði: Hvaða máli skiptir líðan dýranna?! — Þið drepið þau hvort eð er!

Hún spurði mig síðan, hvað ég héldi um líðan fisksins í sjónum og hvort ég væri grænmetisæta.

Ég leiddi talið að ferli stjórnarskrármálsins og útskýrði fyrir henni, hvernig þjóðfundarfulltrúarnir 950 voru valdir af handahófi úr þjóðskrá, þannig að allir Íslendingar 18 ára og eldri höfðu jafna möguleika á að veljast til setu á þjóðfundinum 2010.

Hún hlustaði af athygli og spurði síðan: Já, en hver valdi fulltrúana?

Nú skildi ég, hvernig sumum alþingismönnum hlýtur að líða frá degi til dags.

Samtök um nýja stjórnarskrá (SaNS, sjá sans.is) óskuðu formlega eftir því við Háskóla Íslands og aðra háskóla, að þeir ræktu skyldur sínar við skattgreiðendur með því að halda umræðu- og fræðslufundi handa almenningi um stjórnarskrármálið í aðdraganda þjóðaratkvæðagreiðslunnar 20. október. Því var ekki sinnt, ekki fyrr en nú, þegar þjóðin hefur samþykkt frumvarpið með yfirgnæfandi meiri hluta. Nú þykir háskólunum tímabært að halda heila ráðstefnuröð um stjórnarskrármálið.

Þetta heitir að hafa brenglað tímaskyn.

Eða hvað fyndist mönnum, ef verkfræðingafélagið héldi ráðstefnuröð um framkvæmd, eftir að útboðsfrestur er útrunninn og verkbeiðandinn er búinn að velja milli þeirra tilboða, sem bárust í tæka tíð? Og hvað fyndist mönnum, ef háskólarnir í landinu efndu til fundahalda eftir næstu alþingiskosningar undir yfirskriftinni: „Er niðurstaða alþingiskosninga bindandi?“

Ráðstefnuhald háskólanna nú um stjórnarskrármálið vitnar ekki um mikla virðingu fyrir því lýðræðislega ferli og meðfylgjandi tímatöflu, sem Alþingi ákvað. Það vitnar ekki heldur um næman skilning á því, að þjóðin er yfirboðari Alþingis og ekki öfugt. Þeir háskólamenn og aðrir, sem hirtu ekki um að koma sjónarmiðum sínum tímanlega á framfæri, eru nú í sömu stöðu og þeir, sem hirtu ekki um að taka þátt í þjóðaratkvæðagreiðslunni 20. október. Þeir misstu af bátnum.

Tíminn til efnislegrar umræðu um stjórnarskrármálið er liðinn. Þjóðin tók af skarið 20. október, þegar tveir þriðju hlutar kjósenda lýstu stuðningi við frumvarp Stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá. Frumvarpið, sem þjóðin hefur samþykkt, að leggja skuli til grundvallar að nýrri stjórnarskrá, er í nánu samræmi við niðurstöður þjóðfundar og þá um leið við þjóðarviljann.

Krafan um efnislega umræðu um frumvarpið á Alþingi nú er í reyndinni krafa um að drepa málinu á dreif. Alþingi hefur í bráðum 70 ár reynzt ófært um að ná árangri við gagngera endurskoðun stjórnarskrárinnar þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir. Ekkert bendir til, að því Alþingi, sem nú situr og aðeins 9% þjóðarinnar bera traust til, tækist betur upp en fyrri þingum, öðru nær. Á Alþingi er nú eins og oft áður hver höndin uppi á móti annarri. Stjórnlagaráð samþykkti frumvarp sitt, frumvarp þjóðarinnar, einum rómi með 25 atkvæðum gegn engu. Forsætisráðherra hitti naglann á höfuðið, þegar hún sagði eftir þjóðaratkvæðagreiðsluna 20. október: „Alþingi er á reynslutíma hjá þjóðinni.“

Ætla verður, að efnislega óbreytt frumvarp til nýrrar stjórnarskrár verði lagt fram á Alþingi næstu daga, enda var því lofað á Alþingi strax eftir þjóðaratkvæðagreiðsluna 20. október, að frumvarpið yrði „tilbúið eftir um tvær vikur“. Nú eru liðnar þrjár vikur. Klukkan gengur.