Brasilía við vatnaskil
Sao Paulo – Brasilía er fimmta stærsta og fjölmennasta land heims. Aðeins Rússland, Kanada, Bandaríkin og Kína eru stærri að flatarmáli. Aðeins í Kína, Indlandi, Bandaríkjunum og Indónesíu býr fleira fólk.
Portúgalar fundu Brasilíu 22. apríl 1500, átta árum eftir að Kristófer Kólumbus tók land í Mið-Ameríku 1492. Portúgalar stofnuðu nýlendu í Brasilíu og stóð sú skipan þar til Brasilíumenn tóku sér sjálfstæði 1822. Flest önnur Suður-Ameríkulönd brutust undan yfirráðum Spánverja um svipað leyti og tóku sér sjálfstæði. Leið þá nýlenduveldi Portúgala og Spánverja í Suður-Ameríku undir lok um 130-140 árum á undan nýlenduveldi Breta og Frakka í Afríku og Asíu.
Þrjú smálönd á norðurströnd Suður-Ameríku fóru aðra leið. Gvæjana sem hét áður Brezka Gvæjana tók sér ekki sjálfstæði frá Bretum fyrr en 1966. Súrínam sem hét áður Hollenzka Gvæjana tók sér sjálfstæði 1975. Franska Gvæjana er ennþá frönsk nýlenda og sýnir ekkert fararsnið á sér undan yfirráðum Frakka. Þannig er Suður-Ameríka. Þar er allt til í dæminu.
Brasilíumenn eru nú 208 milljónir talsins. Fólksmergðin er fjölbreytt. Brasilíumenn rekja uppruna sinn til Evrópu, Afríku og Austur-Asíu auk Indjána og Araba. Hvítir menn, afkomendur Portúgala, Ítala, Spánverja og Þjóðverja, eru tæpur helmingur mannfjöldans (48%). Fjórir af hverjum tíu þrælum sem voru fluttir vestur um haf frá Afríku lentu í Brasilíu. Afkomendur þrælanna hafa blandazt öðrum íbúum landsins í ríkari mæli en t.d. í Bandaríkjunum. Minna ber því á kynþáttafordómum og mismunun af þeirra völdum í Brasilíu en í Bandaríkjunum. Blandaðir íbúar Brasilíu eru kallaðir brúnir og nema um 43% mannfjöldans og blökkumenn 8%. Íbúar af asískum uppruna eru rösklega 1% af heildinni og innfæddir Indjánar innan við 1% enda stráféllu forfeður þeirra og mæður eftir landnám Portúgala úr sjúkdómum sem Portúgalarnir báru með sér og ónæmiskerfi frumbyggjanna réð ekki við fyrir nú utan allar blóðsúthellingarnar.
Brasilía vitnar um getu manna af ólíkum uppruna til að lifa saman í sæmilegri sátt og friði. Samt er bilið milli ríkra og fátækra breiðara en víðast hvar annars staðar í álfunni og heiminum öllum og veldur togstreitu og úlfúð milli samfélagshópa en heimamenn hafa samt haldið friðinn nema þegar herinn brauzt til valda 1964 og hélt þeim með harðri hendi í 20 ár. Hernum tókst með klókindum að koma herforingjunum undan lagalegri ábyrgð á grófum mannréttindabrotum ólíkt því sem gerðist í Argentínu, Úrúgvæ, Síle og Perú.
Nýr forseti Brasilíu, Jair Bolsonaro, tók við embætti í ársbyrjun. Hann er allur á bandi Trumps Bandaríkjaforseta, mærir gömlu herforingjastjórnina og aðrar slíkar og segist heldur vildu eiga dauða syni en samkynhneigða. Hann náði kjöri þar eð Lula da Silva fv. forseti var sviptur réttinum til að bjóða sig fram og situr í fangelsi fyrir fjárböðun og mútuþægni, nánar tiltekið fyrir að hafa látið mútuveitandann bera kostnaðinn af framkvæmdum við sumarbústað sinn (þú last þetta rétt). Skoðanakannanir fyrir kosningar í fyrra bentu til að Lula myndi ná kjöri á ný þrátt fyrir spillingarmálin sem hann var bendlaður við. Hann segir úr fangelsinu að vitfirringar stjórni nú landinu. Ekki færri en 150 brasilískir stjórnmálamenn og viðskiptafélagar þeirra hafa fengið fangelsisdóma í mesta mútuhneyksli sem sögur fara af í Suður-Ameríku. Í þeim hópi eru m.a. þrír fv. ríkisstjórar í Ríó-héraði sem sitja nú inni vegna spillingar.
Hvernig gat þetta gerzt? Hvaða slys hafði borið að höndum?
Það sem gerðist var að nýir, vaskir saksóknarar töldu tíma vera kominn til að háir og lágir væru jafnir fyrir lögum. Venjulegt fólk í Brasilíu er langþreytt á landlægri spillingu og fagnar þessum umskiptum. Svipað hefur gerzt í mörgum öðrum Suður-Ameríkulöndum, t.d. í Perú þar sem einn fv. forseti, Alberto Fujimori, situr inni og annar, Alan Garcia, svipti sig lífi um daginn frekar en að sæta handtöku vegna gruns um mútuþægni. Trump forseti sætir nú um 20 sjálfstæðum rannsóknum frá Kaliforníu til Virginíu og New York vegna gruns um ýmis lögbrot, gruns sem margir telja jaðra við vissu. Benjamín Netanyahu, nýendurkjörinn forsætisráðherra Ísraels, stendur í svipuðum sporum og það gera æ fleiri stjórnmálaforingjar um allan heim.
Gallup gefur Brasilíu lága einkunn fyrir spillingu því þar sögðust 63% aðspurðra telja spillingu útbreidda í stjórnmálum landsins 2012 borið saman við 67% í Síle (eins og á Íslandi), 76% í Argentínu og 81% í Perú.
Fólkið hefur fengið sig fullsatt af spillingu. Réttarkerfið heyrir nú loksins raddir fólksins.