8. júl, 2005

Botsvana: Lífslíkur við fæðingu

Mynd 76. Botsvana er það land heimsins, sem hefur orðið verst úti af völdum eyðniveirunnar. Þetta er landið, sem á heimsmet í hagvexti; landið, sem er óspilltast allra Afríkulanda skv. viðteknum spillingarvísitölum; landið, sem ver einna mestu fé til menntamála miðað við landsframleiðslu af öllum löndum heims, meira en t.d. Norðurlönd, að ekki sé talað um Ísland – og þá þarf einmitt þetta land, Botsvana, að þola svo mikinn mannfelli af völdum þessa skæða sjúkdóms og hefur ekki efni á að kaupa þau lyf, sem þarf til að lengja líf fólksins og lina þjáningar þess. Myndin sýnir, að árið 1960 gat barn, sem fæddist í Botsvönu, vænzt þess að ná 47 ár aldri. Lífslíkurnar jukust síðan jafnt og þétt ár fram af ári og komust upp í 61 ár 1987, en þær hafa síðan hrapað niður í 39 ár. Botsvana er nú komin aftur fyrir upphafsreitinn. Alþjóðaheilbrigðisstofnunin í Genf spáir því, að lífslíkurnar í Botsvönu og þeim löndum öðrum, sem hafa orðið sérstaklega illa úti af sömu völdum (þar á meðal eru Lesótó, Suður-Afríka, Simbabve og Namibía, sjá mynd 75), muni aukast aftur smám saman, en eigi að síður er auðvitað mikill skaði orðinn og hörmulegur og verður aldrei bættur.