DV
12. des, 2014

Borgunarmenn

Hvers vegna eru íslenzkir vinnuveitendur ekki borgunarmenn fyrir betri launum en raun ber vitni um? Hvers vegna standast kaup og kjör íslenzkra launþega upp og niður launastigann ekki samanburð við önnur Norðurlönd? Hvers vegna þurfa íslenzkir launþegar yfirleitt að vinna myrkranna á milli til að ná endum saman? Hvers vegna tapa Íslendingar fleiri dögum í verkföll en flestar aðrar þjóðir um okkar slóðir? Þessar spurningar brunnu á vörum margra löngu fyrir hrun, t.d. 1995, þegar ég birti bók mína Síðustu forvöð, og brenna enn.

Nú er að vísu orðið ljóst, að samanburður Íslands við önnur Norðurlönd á ekki lengur að öllu leyti vel við. Hrunið 2008 afhjúpaði bresti í innviðum íslenzks samfélags, sem eiga sér enga hliðstæðu annars staðar um Norðurlönd. Nægir þar að nefna, að 67% kjósenda á Íslandi telja spillingu útbreidda í íslenzkum stjórnmálum á móti 14% í Svíþjóð og 15% í Danmörku skv. nýlegri rannsókn Gallups, sem nær um allan heim. Mælingar Transparency International á spillingu í viðskiptum draga upp áþekka mynd. Þar fær Ísland nú einkunnina 7,8 á móti 8,6 í Noregi, 8,7 í Svíþjóð, 8,9 í Finnlandi og 9,2 í Danmörku. (Skalinn nær frá 0 upp í 10. Norður-Kórea og Sómalía skrapa botninn með einkunnina 0,8. Danmörk er dúxinn með 9,2).

Spilling grefur undan trausti. Mælingar World Values Survey á trausti milli manna sýna, að traustið, sem Íslendingar bera hver til annars, var jafnvel löngu fyrir hrun miklu minna en annars staðar um Norðurlönd eins og ég hef áður lýst á þessum stað. Ætla má, að traust milli manna hafi dvínað enn frá hruni, en slíkar mælingar vantar. Traust skiptir máli.

Undirrót lágra launa má yfirleitt rekja til rýrra afkasta ýmist af hálfu vinnuaflsins eða vinnuveitenda, nema hvort tveggja sé. Rýr afköst á báða bóga geta átt sér ýmist sértækar skýringar eða sameiginlegar rætur í ástandi og innviðum samfélagsins.

Fyrir liggur, að menntun mannaflans hér heima stendur langt að baki menntun mannaflans annars staðar um Norðurlönd, þar eð mun hærra hlutfall mannaflans hér en þar hætti námi að lokinni skólaskyldu. Þetta hefur verið rakið í mörgum skýrslum, t.d. frá OECD í París og Alþýðusambandinu hér heima. Samt sitja menntamál enn á hakanum. Danir framleiða heimsfræg hljómtæki, Svíar heimsfræga bíla og Finnar heimsfrægar lyftur. Íslendingar hafa ekkert sambærilegt fram að færa, ekki frekar en t.d. Rússar. Iðnvarningur nam 14% af vöruútflutningi Íslands 2012 á móti 16% í Rússlandi og 79% í Lúxemborg, sem er litlu fjölmennara land en Ísland. Dæmin sýna, að smæðin, fólksfæðin, er ekki vandinn hér.

Við bætist landlægur klíkuskapur í ráðningum og meðvirkni, einkum á vegum ríkis og byggða og einnig sums staðar í einkageiranum. Hvort tveggja rýrir afköst vinnuaflsins. Hér bera vinnuveitendur ábyrgðina, ekki launþegar. Ofan á þetta leggjast landlægir skipulagsbrestir, sem gera hagsmunahópum kleift að halda langtímum saman í ýmislegt óhagræði á kostnað almennings og koma í veg fyrir eða tefja umbætur, sem gætu hjálpað vinnuveitendum með því að gera þá að borgunarmönnum fyrir betri launum. Látum tvö dæmi duga.

  • Fyrirtæki þurfa að bera mikinn vaxtakostnað aukreitis vegna fákeppni í bankakerfinu og hafa eftir því minna aflögu til launagreiðslna. Samt voru það ekki bankarnir sjálfir, sem keyptu og birtu hvítþvottarskýrslurnar um bankana 2006 og 2008, rétt fyrir hrun, heldur var það Viðskiptaráð, einn helzti samráðsvettvangur vinnuveitenda.
  • Ríkið veitir útvegsmönnum nánast ókeypis aðgang að sameignarauðlindinni í sjónum og erlendum fyrirtækjum aðgang að orku á niðursettu verði og hefur eftir því minna afgangs til að greiða læknum og öðrum launþegum í almannaþjónustu sómasamleg laun. Hvorki Samtök atvinnulífsins né Viðskiptaráð virðast hafa neitt við þessa skipan að athuga.

Bætt skipulag bankamála og fullt gjald fyrir aðganginn að auðlindum í þjóðareigu skv. nýrri stjórnarskrá myndi ásamt öðru gera vinnuveitendur að borgunarmönnum fyrir betri launum.