Fréttablaðið
1. maí, 2008

Bjarni Benediktsson

Svo kynni að virðast, að harkaleg átök hafi fylgt stjórnmálabaráttu á Íslandi frá fyrstu tíð, en svo er þó ekki. Jón Sigurðsson forseti var friðsæll maður og fylgdi þeirri föstu reglu í einkaviðræðum líkt og í stjórnmálaumræðum að nefna menn helzt ekki á nafn nema til að hæla þeim. Hann átti að sönnu harða andstæðinga, til að mynda Grím Thomsen, sem var hallur undir Dani og flæktist á ýmsa lund fyrir Jóni og baráttu hans, en Jón sýndi Grími þó ævinlega fulla kurteisi. Eftir fráfall Jóns forseta 1879 þrútnaði andrúmsloftið. Deilur heimastjórnarmanna, sem heimtuðu fulla sjálfsstjórn, og Valtýinga, sem töldu hyggilegra að taka eitt skref í einu, lýstu djúpri óvild og ofstæki, þótt Valtýr Guðmundsson væri rómað prúðmenni. Eftir heimastjórn 1904 tók ekki betra við, og enn versnaði ástandið við upphaf flokkaskipanar nútímans um 1920, með því að þá komu fram á sjónarsviðið óvenjuharðskeyttir stjórnmálamenn og spöruðu hvergi vopnin. Mest fór fyrir Jónasi Jónssyni frá Hriflu, sem hrakyrti andstæðinga sína án afláts í Tímanum og öðrum blöðum Framsóknarflokksins, og höfuðandstæðingi hans, Ólafi Thors. Inn í þennan heim gekk Bjarni Benediktsson 1933, nýkominn með kosningarrétt, og gerðist með tímanum hægri hönd Ólafs Thors, formanns Sjálfstæðisflokksins 1934-61. Ólafur kom úr Íhaldsflokknum, en Bjarni mun hafa fylgt Frjálslynda flokknum að málum og stýrði fundinum, þar sem Frjálslyndi flokkurinn sameinaðist Íhaldsflokknum í Sjálfstæðisflokknum 1929. Bjarni lauk kornungur lagaprófi í Háskóla Íslands með frábærum vitnisburði, fór utan til frekara náms í Berlín og Kaupmannahöfn og sneri síðan heim og varð prófessor í Háskólanum 1932, 24 ára að aldri. Hann var kjörinn borgarstjóri í Reykjavík 1940 og var síðan ráðherra 1947-56 og aftur frá 1959 til dauðadags 1970 og ritstjóri Morgunblaðsins í millitíðinni 1956-59. Upplag hans og útivistin opnuðu honum víða útsýn til umheimsins og mótuðu verk hans öll.

Ólafur Thors fól Bjarna Benediktssyni forustu um tvö mikilvæg utanríkismál, sem vöktu harðar deilur. Fyrra málið varðaði konungssambandið við Danmörku. Þegar Þjóðverjar hernámu Danmörku 1940, taldi Bjarni nauðsynlegt að slíta sem fyrst sambandinu við Dani og stofna lýðveldi með þeim rökum, að hernumin Danmörk megnaði ekki að uppfylla skyldur sínar gagnvart Íslandi. Bretar og síðan Bandaríkjamenn komu í veg fyrir hraðskilnað. Lögskilnaðarmenn vildu bíða stríðslokanna og stofna þá lýðveldi í friði og sátt við frjálsa Danmörku. Niðurstaðan varð málamiðlun: lýðveldið var stofnað með nýrri stjórnarskrá 1944, þegar 25 ára frestur sambandslagasamningsins frá 1918 var liðinn. Stofnun lýðveldis 1944 í skugga styrjaldar var samþykkt nær einróma í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Hitt málið var innganga Íslands í Atlantshafsbandalagið 1949. Þriggja flokka ríkisstjórn Stefáns Jóhanns Stefánssonar ákvað að bera málið ekki undir þjóðaratkvæði líkt og sambandsslitin, heldur leiða það til lykta í sölum Alþingis með æstan múginn og lögregluna úti fyrir á Austurvelli. Ólafur Thors bar þungar sakir á andstæðinga sína og aðra og sagði í ræðustól Alþingis daginn eftir óeirðirnar: „Í marga mánuði hefur þjóðin verið ærð upp og henni sagt, að verið væri að svíkja föðurlandið. … Menn eins og Sigurbjörn docent Einarsson, Pálmi Hannesson rektor, Klemens Tryggvason, Einar Ólafur Sveinsson og Gylfi Þ. Gíslason – þessir menn hafa æst bálið og á þeim hvílir þung ábyrgð um þá atburði, sem hér urðu í gær. Það kann að vera, að þeir hafi ekki ætlazt til að við værum drepnir. En þeir ætluðu að halda fund …“ Sigurbjörn, síðar biskup, og félagar hans fjórir báðu Alþingi með bréfi að svipta Ólaf þinghelgi, svo að hægt væri að fá ummælum hans hnekkt fyrir dómi, en af því varð ekki. Bjarni barðist einnig af hörku við andstæðinga inngöngunnar í Nató og hafði ásamt Ólafi og öðrum samherjum fullan sigur. Ætla má, að meiri friður og sátt hefðu ríkt um utanríkismálin, hefði þjóðin fengið að greiða atkvæði um inngönguna. En Bjarni Benediktsson leiddi bæði málin til réttra lykta þrátt fyrir ágreining um leiðir að settu marki.

Það orð fór af Bjarna eftir þessi átök, að hann væri harður í horn að taka. Margir lofuðu jafnframt réttsýni hans, sáttfýsi og verksvit. Forustan fyrir viðreisnarstjórninni eftir daga Ólafs Thors þótti leika í höndum Bjarna, og voru samverkamenn hans í stjórninni sammála um það og aðrir, þar á meðal verklýðsforingjar, sem unnu náið með honum að friði á vinnumarkaði. Harðskeyttur stjórnmálaforingi var orðinn að mildum landsföður. Bjarni sagði föður mínum 1969, að hann hygðist hætta afskiptum af stjórnmálum, færi svo, að Sjálfstæðisflokkurinn þyrfti að mynda ríkisstjórn með Framsóknarflokknum eftir kosningar 1971. Á þann ásetning reyndi þó ekki, því að sumarið 1970 var Bjarni hrifinn burt í ljóma lífsins ásamt Sigríði Björnsdóttur konu sinni og kornungum dóttursyni, Benedikt Vilmundarsyni. Þá sá ég föður minn gráta.