Fréttablaðið
14. feb, 2019

Bíðum með bankana

Reykjavík – Við eðlilegar kringumstæður eða því sem næst væri nú einboðið að draga úr eignarhaldi ríkisins á viðskiptabönkum. Slík staða var uppi árin eftir 1990 þegar ljóst þótti að í bankamálum líkt og annars staðar ætti einkarekstur jafnan betur við en ríkisrekstur. Úti í heimi var einkabankarekstur reglan, en blandaður rekstur tíðkaðist þó sums staðar. Gömlu kommúnistaríkin í Austur-Evrópu settu þessi ár alla sína banka í hendur einkaframtaks, ýmist erlendra manna eða innlendra, enda var lítilli sem engri þekkingu á heilbrigðum bankarekstri til að dreifa í flestum þessara landa þegar þau losnuðu undan oki Sovétríkjanna 1989-1991.

Þegar Ísland var eitt eftir í okkar heimshluta með yfirgnæfandi ríkisbankarekstur féllust menn loksins á að tímabært væri að einkavæða gömlu ríkisbankana þrjá, Búnaðarbankann, Landsbankann og Útvegsbankann. Málið snerist um að dragast ekki aftur úr öðrum þjóðum í bankamálum. Málið snerist einnig um að draga rétta lærdóma af langri reynslu sem sýndi að ríkisbankarnir höfðu ekki gefizt vel. Útvegsbankinn hafði t.d. verið keyrður út á yztu nöf 1985 vegna viðskipta sem ríkir stjórnmálahagsmunir virtust bundnir við.

Ný gögn utan úr heimi bentu til að einkabankarekstur væri líkt og annar rekstur yfirleitt hagkvæmari en ríkisrekstur þar eð arður væri vænlegra leiðarljós í viðskiptum en atkvæði kjósenda. Öllu þessu o.m.fl. var haldið til haga í skýrslu sem ég samdi um málið fyrir viðskiptaráðuneytið í október 1992, Bankar: Úr ríkiseigu í einkaeign. Hún birtist skömmu síðar í Fjármálatíðindum, tímariti Seðlabanka Íslands.

Ólíkt því sem virtist vera um 1990 eru nú ekki uppi eðlilegar kringumstæður, fjarri því. Tvennt hefur breytzt.

Í fyrsta lagi eru erlendar fyrirmyndir í bankamálum nú að ýmsu leyti varhugaverðar í ljósi þess sem gerzt hefur í bankaheiminum frá 2007. Bankar hrundu, aðrir römbuðu á barmi hengiflugs. Bankamenn reyndust hafa brotið lög í stórum stíl þótt stjórnmálamenn sem bankarnir höfðu stutt með fjárframlögum og einnig saksóknarar áræddu ekki að hræra hár á höfði þeirra. Stjórnmálamenn báru mikla ábyrgð á þessum hremmingum þar eð t.d. Bandaríkjaþing hafði aflétt eldri hömlum sem um margra áratuga skeið höfðu haldið bankarekstri í heilbrigðu horfi yfirleitt. Þar eð bankamönnum var ekki gert að sæta ábyrgð að lögum hafa þeir margir skotið sér undan að draga þá lærdóma af mistökum sínum sem vert væri.

Í annan stað mistókst einkavæðing ríkisbankanna hér heima herfilega þótt til hennar væri stofnað á eðlilegum forsendum að því er virtist. Því var heitið að bankarnir myndu lúta dreifðu eignarhaldi. Við það var ekki staðið. Til stóð að laða traustan sænskan banka – banka sem hefur aldrei hlekkzt á – til starfa á Íslandi en við það var ekki heldur staðið. Tveir bankanna voru heldur afhentir innlendum einkavinum sem þurftu ekki nema nokkur ár til að keyra þá í þrot eins og Þórður Snær Júlíusson lýsir nú síðast í bók sinni Kaupthinking. Bókin fjallar um einn bankanna þriggja, en þeir voru allir eins í aðalatriðum svo sem skýrsla Rannsóknarnefndar Alþingis lýsir vel þótt umfang starfseminnar og þá um leið svikanna væri e.t.v. ólíkt.

Það kann m.ö.o. að hafa verið stigsmunur á bönkunum þrem en varla nokkur umtalsverður eðlismunur.

Hér heima er nú uppi sami vandi og víða annars staðar þótt Ísland hafi þá sérstöðu að hafa dæmt bankamenn og fáeina aðra sökudólga hrunsins í samtals nærri 100 ára fangelsi. Vandinn er sá að enginn kannast við að bera nokkra ábyrgð á hruninu ef frá er talinn einn stjórnmálamaður og einn bankaeigandi sem sluppu bæði og báðu forláts. Forherðing sökudólganna, þ.m.t. þeir sjö menn sem Rannsóknarnefnd Alþingis taldi hafa sýnt af sér vanrækslu í skilningi laga, er svo að segja alger. Litlu virðist skipta þótt nýtt fólk hafi valizt til forustu í stjórnmálum og bönkum. Forherðingin virðist ganga í erfðir.

Tökum Landsbankann sem er nú ríkisbanki. Bankaráðið, skipað ungu fólki, hefur ákveðið að hækka svo laun bankastjórans að jafnvel Samtök atvinnulífsins hafa brugðizt ókvæða við. Bankaráðið slengir launahækkun bankastjórans eins og blautri tusku framan í launþega sem eiga í erfiðum samningum við vinnuveitendur um kaup og kjör. Við bætist að Landsbankinn er eini bankinn í álfunni sem er nú að byggja yfir sig nýjar höfuðstöðvar. Þær eiga að kosta jafnvirði um 100.000 kr. á hverja fjögurra manna fjölskyldu í landinu.

Gerum hlutina í réttri röð. Hreinsum fyrst til á Alþingi í þeirri von að nýju, skaplega skipuðu Alþingi verði betur treystandi til að laga til í Landsbankanum og víðar. Bankarnir verða þá fyrst tilbúnir til eigendaskipta að þeir sem falið er að halda utan um einkavæðinguna njóti trausts. Takist ekki að endurreisa Alþingi í tækan tíma mætti velja t.d. 20 manna eigendaráð af handahófi úr þjóðskrá og setja yfir bankasýsluna sem fer með hlut ríkisins i bönkunum.