DV
28. nóv, 2014

Bandaríkin og Ísland

Tvö lönd skera sig að einu leyti úr hópi „gömlu“ iðnríkjanna. Þessi tvö lönd eru einu löndin í hópnum, sem sökuð eru af fullum þunga heima fyrir um að hafa leyft lýðræði að víkja fyrir fáræði, fyrir auðræði. Með fáræði er átt við það, sem á ensku er kallað oligarchy, veldi fárra, í andstöðumerkingu við fjölræði (e. pluralism), veldi fjöldans, sem fylgir virku lýðræði.

Veldi Bandaríkjanna á heimsvettvangi hefur dvínað allar götur frá 1970, þótt innri styrkur landsins sé enn til staðar. Árið 1975 töpuðu Bandaríkin sínu fyrsta stríði, það var í Víetnam, og nötruðu í innanlandsófriði, sem færðist utan af götunum inn á vettvang stjórnmálanna og hefur smám saman náð að eitra stjórnmálalíf landsins. Ófriðurinn stafaði öðrum þræði af styrjöldinni í Víetnam og einnig af því, að Nixon forseti hrökklaðist úr embætti 1974 fyrir að hylma yfir innbrot sinna manna í höfuðstöðvar demókrata í Watergate-byggingunni í Washington. Auðmýking repúblíkana af völdum afsagnarinnar sáði fræjum óvildar.

Nú er svo komið, að stjórnmálaflokkarnir tveir, demókratar og repúblíkanar, talast varla við, svo mikil er úlfúðin. Leyndir gallar í stjórnarskrá Bandaríkjanna frá 1787 eiga trúlega einhverja sök á þessu. Bandaríska viðskiptatímaritið Forbes hefur nú tvö ár í röð lýst Vladímir Pútín Rússlandsforseta valdamesta mann heims. Obama Bandaríkjaforseti skipar annað sæti listans. Skv. nýjum mælingum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sigldi Kína fram úr Bandaríkjunum á þessu ári í efnahagslegu tilliti og er nú ríkasta land heims í dölum talið, en þó ekki mælt í tekjum á mann. Á þann kvarða eiga Kínverjar ennþá langt í land. Eftir sem áður er efnahagsstyrkur Bandaríkjanna mikill. Bandaríkjamenn kunna að framleiða margs konar vörur og þjónustu, sem aðrar þjóðir vilja kaupa. Bílaverksmiðjur Bandaríkjanna, löngum hryggjarstykkið í efnahagslífi landsins, reyndust þó vera svo illa reknar, að þær voru þjóðnýttar til að halda í þeim lífinu. Bandaríkin geta tekið lán erlendis í eigin gjaldmiðli og þurfa ekki að óttast að geta ekki staðið í skilum. Fyrr myndi Bandaríkjastjórn rýra virði skulda sinna með því að hleypa verðbólgunni af stað heima fyrir. Þarna skilur milli feigs og ófeigs.

Meðalþingmaður í Washington þarf nú að verja þrem dögum á viku til fjáröflunar. Hæstiréttur Bandaríkjanna hefur nýlega úrskurðað, að engin bönd megi leggja á fjárframlög til stjórnmálastarfsemi. Peningarnir hafa tekið völdin. Þessu andrúmslofti hefur fylgt aukinn ójöfnuður í skiptingu auðs og tekna. Sá þúsundasti hluti (0,1%) Bandaríkjamanna, sem hefur mestar tekjur, jók hlut sinn í þjóðartekjum úr 14% 1990 í 24% 2008 eins og lýst er í rómaðri bók franska hagfræðingsins Thomas Piketty (Capital, 2014). Ný rannsókn Gallups sýnir, að 73% Bandaríkjamanna telja spillingu vera útbreidda í stjórnkerfi landsins borið saman við 80% Rússa, 67% Íslendinga – og 15% Dana, svo að dæmi sé tekið af hinum enda skalans.

Ýmislegt af því, sem amar nú að Bandaríkjunum, amar einnig að Íslandi. Þó er einn mikilvægur munur á. Íslendingar tóku lán í erlendri mynt og geta því ekki staðið í skilum við útlönd með því að prenta peninga, sem enginn vill taka við. Þess vegna stendur Ísland nú, sex árum eftir hrun, í svipuðum sporum og Argentína og önnur óreiðulönd og bisar við að velja milli samninga við erlenda kröfuhafa og einhliða valdboðs, t.d. með útgönguskatti, sem virðist líklegur til að rýra lánskjör og aðgang að lánsfé og kosta áhættusöm málaferli innan lands og jafnvel utan.

Alþingi bjó með einu pennastriki til auðstétt úr útvegsmönnum fyrir 30 árum og gerði þá þar með smám saman að ríki í ríkinu. (Alþingi fór eins að við einkavæðingu bankanna, en veldi þeirra stóð stutt). Reynslan sýnir, að stjórnmálaflokkarnir sitja og standa eins og útgerðin býður þeim. Hvergi birtist auðsveipni flokkanna gagnvart útvegsmönnum skýrar en í þeirri staðreynd, að Alþingi heldur nú í gíslingu nýrri stjórnarskrá, sem 2/3 hlutar kjósenda samþykktu í þjóðaratkvæðagreiðslu 2012. Morgunblaðið – í eigu útgerðarinnar! – birtir leiðara eftir leiðara gegn nýju stjórnarskránni án þess að nefna þjóðaratkvæðagreiðsluna einu orði. Af þessum merkjum að dæma er Ísland ekki lengur fullburða lýðræðisríki. Peningarnir hafa tekið völdin – illa fengið fé úr almannasjóðum skv. ákvörðun Alþingis, ekki sjálfsaflafé einkaframtaksins eins og í Bandaríkjunum. Útreiðartúrar á tígrisdýrum fara allir á sömu leið.

Alþingi hefur í reyndinni lýst stríði á hendur fólkinu í landinu. Við bætist, að væntanlegt frumvarp til nýrra fiskveiðistjórnarlaga gengur í berhögg við ákvæði nýju stjórnarskrárinnar um auðlindir í þjóðareigu – ákvæði, sem 83% kjósenda lýstu sig fylgjandi í þjóðaratkvæðagreiðslunni 2012.