Fréttablaðið
20. des, 2007

Bækur halda sjó

Bækur kosta sitt. Nú eru að koma jól, og nýjar bækur kosta þrjú þúsund krónur í búðunum, sumar kosta fjögur eða fimm. Bækur taka tíma. Sumir renna sér í gegn um langa bók á litlum tíma, aðrir gefa sér langan tíma í lesturinn og gera þá ekki annað á meðan. Ef bók kostar þrjú þúsund krónur í búð og lesandinn þarf fimm klukkutíma til að ljúka henni, þá kostar bókin í raun og veru þrjú þúsund kall og fimm tíma, því þann tíma hefði handlaginn lesandi getað notað til að hengja upp nýja eldhúsinnréttingu. Ef lesandinn á kost á aukavinnu, sem gefur af sér tvö þúsund krónur á tímann, þá kostar bókin lesandann í raun og veru ekki þrjú þúsund krónur, heldur þrettán þúsund. Þótt útgáfukostnaður fari lækkandi, kostar bóklestur sífellt meira og meira, því að samkeppnin um tíma lesendanna fer harðnandi: tíminn hækkar í verði. Allt, sem tekur tíma og kallar á viðveru, án þess að vélum og tækjum verði við komið til að bera baggana – hjúkrun, kennsla, lestur, löggæzla – allt kostar þetta meira og meira með tímanum. Það er engin tilviljun, að sjúkrahúsin, skólarnir og lögreglan eru í kröggum. Lestrarfélögin eru ekki lengur til nema á stöku stað.

Í landbúnaði var hægt að leysa vinnandi hendur af hólmi með hestafli, síðan með vélarafli og nú með tölvutækni. Bústörf, sem gleyptu nær allan mannaflann í ungdæmi ömmu minnar, kalla nú aðeins á þrjú eða fjögur prósent af vinnuaflinu. Sama á við um sjávarútveginn, iðnað og ýmsa þjónustu, þar sem vélar og tæki halda framleiðslukostnaðinum niðri með því að auka afköst mannaflans. Um persónulega þjónustu gegnir öðru máli. Þar eru engar greiðfærar flýtileiðir í boði, þótt tæki og tölvur geti að vísu hjálpað til við skurðaðgerðir, kennslu og löggæzlu. Það er og verður tveggja manna verk að taka mann fastan. Það hlýtur að vera áleitin freisting að bæta ódýru erlendu vinnuafli í lögregluna líkt og spítalarnir hafa gert og dvalarheimilin, en ekki ber enn á því.

Hvernig hefur bóklestri reitt af í lífsins ólgusjó? Annar hver Portúgali les aldrei bók. Þriðji hver Ítali les aldrei bók. Fjórði hver Dani les aldrei bók, ekki heldur Norðmenn. Fimmti hver Íri les aldrei bók. Sjötti hver Þjóðverji les aldrei bók, ekki heldur Bandaríkjamenn eða Íslendingar. Ég tek þessar tölur flestar úr lærðri ritgerð eftir kunningja minn, fyrrum menntamálaráðherra Hollands, nú prófessor í Oxford. Svíar lesa manna mest, en tólfti hver Svíi les þó aldrei bók. En þetta er ekki svo slæmt. Ef við snúum tölunum við, kemur í ljós, að langflest fólk les bækur. Í flestum nálægum löndum seljast fimm til sex bækur á mann á hverju ári, flestar í Frakklandi (sjö). Í Suður-Evrópu lána almenningsbókasöfn eina bók á mann á ári á móti átta bókum hér heima og tíu í Danmörku, Finnlandi og Hollandi. Í flestum hátekjulöndum grípur fimmti til tíundi hver fullorðinn karl í bók á hverjum degi. Ástralar, Bandaríkjamenn, Bretar, Írar, Kanadamenn, Svisslendingar og Svíar eru bókhneigðastir, þar les fjórðungur allra karla part úr bók á hverjum degi. Konur lesa alls staðar miklu meira en karlar.

Bókaútgáfa er nú blómlegri en nokkru sinni fyrr. Flest evrópsk forlög eru smáfyrirtæki og gefa út 20 til 40 titla á ári. Dönsk forlög gáfu út 275 bækur á hverja 100.000 íbúa 1999, tvisvar sinnum fleiri bækur en 1975. Brezk forlög gáfu út 188 bækur á hverja 100.000 íbúa 1999, þrisvar sinnum fleiri en 1975. Hér heima voru gefnir út 444 titlar á hverja 100.000 íbúa 1999 á móti 236 titlum 1975. Meðalupplag bóka er lítið á litlum málsvæðum eins og hér, og því er rúm fyrir fleiri útgefna titla miðað við fólksfjölda. Til viðmiðunar gáfu bandarísk forlög út 24 titla á hverja 100.000 íbúa 1999 á móti 39 titlum 1975. Nær öll hátekjulönd nema Bandaríkin gefa nú út fleiri bækur á mann en áður. Bókabúðir lifa margar góðu lífi. Aðeins sjötta hver bók á Bretlandi er seld á vefnum, tuttugasta hver bók í Þýzkalandi og enn minna í Frakklandi. En les fólk meira? Það er ekki vitað. Holland er eina landið, sem á tölur um þróun bóklestrar síðan 1975. Samkvæmt þeim lesa færri Hollendingar bækur en áður, en hver lesandi virðist verja svipuðum tíma til bóklestrar og fyrr.

Bandaríkjamenn horfa manna mest á sjónvarp samkvæmt nýrri skýrslu frá OECD, eða átta stundir á viku að jafnaði á móti fjórum á Ítalíu, þrem og hálfri í Portúgal og á Spáni, þrem í Bretlandi, Danmörku og Finnlandi og tveim og hálfri í Sviss og Svíþjóð líkt og hér heima. Ekki verður séð, að bóklestur standi endilega í öfugu sambandi við þrásetur við sjónvarp. Kaninn er býsna iðinn við hvort tveggja og vefinn líka, og hann vinnur manna mest líkt og við. Bókin lengi lifi.