DV
30. nóv, 2011

Austfjarðaslysið og önnur mál

Ýmsar ástæður liggja til þess, að Alþingi er ekki vel til þess fallið að taka ákvörðun um frumvarp Stjórnlagaráðs til nýrrar stjórnarskrár. Þær lúta allar að því, að stjórnarskráin fjallar m.a. um Alþingi, tilgreinir hlutverk þess og setur því skorður. Þess vegna fer betur á, að aðrir en alþingismenn fjalli um málið eftir þeirri einföldu reglu, að enginn skyldi gerast dómari í eigin sök. Sjálftaka getur aldrei talizt eðlileg. Þess vegna eru haldin stjórnlagaþing. Við bætist, að Alþingi hefur í bráðum 70 ár látið undir höfuð leggjast að endurskoða stjórnarskrána eins og lofað var strax eftir samþykkt gildandi stjórnarskrár á Þingvöllum 1944. Af þessum ástæðum ákvað Alþingi 2009 að fela öðrum að endurskoða stjórnarskrána. Við þá ákvörðun hlýtur Alþingi nú að vilja standa.

Nú liggur frumvarp Stjórnlagaráðs hjá stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis, og þá þarf að hyggja að þeim freistingum, sem frumvarpið leggur fyrir háttvirta þingmenn. Margir þingmenn hljóta að geta sagt sér það sjálfir, að þeir eiga varla von á að ná endurkjöri til Alþingis með nýjum kosningareglum um jafnt vægi atkvæða og persónukjör við hlið listakjörs. Kosningareglum skv. frumvarpinu er ætlað að skerða getu stjórnmálaflokka til að raða sínum mönnum í „örugg“ sæti. Þingmenn geta ekki leyft sér að láta þessa staðreynd marka afstöðu sína til frumvarpsins. Til að girða fyrir þá hættu ættu þingmenn ekki að skipta sér af efni frumvarpsins, enda fólu þeir öðrum verkið í upphafi. Löng reynsla af breytingum Alþingis á kosningalögunum lýsir hættunni. Ein reglan, sem þingmenn fylgdu við endurskoðun kosningalaganna á fyrri tíð, var kennd við „Austfjarðaslysið“ – þetta orð notuðu þingmenn um hættuna á, að Alþýðuflokkurinn gæti fengið mann kjörinn á Austurlandi, og það mátti ekki gerast, fyrir því þurftu kosningalögin að sjá.

Önnur freisting, sem frumvarp Stjórnlagaráðs leggur fyrir alþingismenn, tengist kvótanum. Allir vita, að bankarnir jusu fé í stjórnmálamenn og flokka fram að hruni til að kaupa sér frið; þetta stendur skýrum stöfum í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis (RNA). Allir mega einnig vita, að útvegsfyrirtæki hljóta með líku lagi að hafa ausið fé í stjórnmálamenn og flokka til að þakka þeim fyrir kvótann, þótt engin rannsóknarnefnd hafi enn verið skipuð til að kortleggja þá fyrirgreiðslu.

Styrmir Gunnarsson fyrrum ritstjóri Morgunblaðsins hefur lýst vandanum vel. Hann segir í bók sinni Umsátrið (2009): „Handhafar kvótans urðu þeir valdamenn, sem máli skiptu í sjávarplássunum í kringum landið. Þeir höfðu líf plássanna í hendi sér. … Þingmenn landsbyggðarkjördæmanna stóðu nær undantekningarlaust með kvótahöfunum. Þeir vissu sem var, að snerust þeir gegn þeim, væri stjórnmálaferli þeirra lokið. … Frambjóðendur í prófkjörum þurftu og þurfa að leita fjárstuðnings …, þar á meðal hjá handhöfum kvóta. Það jafngilti pólitísku sjálfsmorði að rísa upp gegn handhafa kvóta á landsbyggðinni.“ (bls. 206).

Í þessu ljósi þarf að skoða hik sumra þingmanna við að leyfa þjóðinni að greiða atkvæði um stjórnarskrárfrumvarp, sem kveður skýrt á um auðlindir í þjóðareigu og úthlutun aflaheimilda á jafnræðisgrundvelli gegn fullu gjaldi. Þótt allir stjórnmálaflokkar segist í orði kveðnu vera hlynntir ákvæði í stjórnarskrá um auðlindir í þjóðareigu, virðast sumir þingmenn þó helzt vilja hopa, þegar á hólminn er komið. Nær væri, að þeir segðu nú við útvegsmenn: Málið er ekki lengur í okkar höndum, kjósendur þurfa að leiða málið til lykta í þjóðaratkvæðagreiðslu, eins og Alþingi lagði upp með. Ekki verður aftur snúið.

Þriðja freistingin tengist sjálfsmynd og metnaði alþingismanna, sem sumir virðast ekki vilja viðurkenna rétt annarra en þeirra sjálfra til að setja landinu stjórnarskrá. Þeir virðast sumir líta á Stjórnlagaráð sem boðflennu í veizlusölum valdsins. Þeir horfa fram hjá því, að Alþingi hélt kosningu til Stjórnlagaþings og skipaði Stjórnlagaráð skv. úrslitum kosningarinnar til að semja frumvarp til nýrrar stjórnarskrár og afréð að halda þjóðaratkvæðagreiðslu um frumvarpið. Vert er að rifja upp, að það tókst gegn harðri andstöðu á Alþingi að koma því inn í stjórnarskrána 1944, að þjóðin, ekki Alþingi, kysi forseta Íslands í samræmi við skýra niðurstöðu skoðanakönnunar.