Aukin misskipting í aðdraganda hruns
Mynd 127. „Þetta er óvenjumikil aukning ójafnaðar og raunar fordæmalaus á Vesturlöndum frá lokum seinni heimsstyrjaldar,“ segir Stefán Ólafsson, prófessor í félagsfræði í samtali við DV.
Stefán hefur ásamt Arnaldi Sölva Kristjánssyni hagfræðingi gert rannsóknir á vegum Þjóðmálastofnunar á ójöfnuði. Samkvæmt mælingum þeirra jókst ójöfnuður á Íslandi úr 0,21 árið 1995 í 0,43 árið 2007 ef stuðst er við svokallaðan Gini-stuðul við mælingu á ójöfnuði. Aukning ójafnaðar á þessu tímabili var sex sinnum meiri en OECD telur „mikla aukningu ójafnaðar“.
Þess skal getið að samkvæmt mælingum Þjóðmálastofnunar jókst ójöfnuður mun meira en opinberar tölur Hagstofunnar og Eurostat, opinberrar tölfræðistofnunar Evrópusambandsins, hafa gefið upp. Ástæðan er sú að í mælingum Þjóðmálastofnunar eru fjármagnstekjur einstaklinga taldar með en eins og kunnugt er stórjukust þær á Íslandi í góðærinu fyrir bankahrunið.
„Þeir sem vilja gera lítið úr þessari aukningu hafa haldið því fram að ekki eigi að telja með eignatekjuhluta fjármagnstekna. Það er auðvitað rangt að horfa fram hjá þeim hluta tekna sem einkum kemur til tekjuhærri hópa,“ segir Stefán.
Að hans sögn voru helstu ástæður aukins ójafnaðar á þessu tímabili stórlega auknar fjármagnstekjur í hærri tekjuhópum og einnig lækkuð skattbyrði hjá þeim tekjuhærri. Á móti hafi skattbyrði þeirra tekjulægri aukist. Á mynd með frétt má sjá aukningu ójafnaðar samkvæmt mælingum Þjóðmálastofnunar.
Heimild: DV, 26. marz 2011.