DV
20. júl, 2011

Auðlindir í þjóðareign

Auðlindaákvæðið batnaði enn í meðförum Stjórnlagaráðs í dag.

Við gerðum tvær breytingar á ákvæðinu.

Í fyrsta lagi segjum við nú um auðlindirnar, að enginn megi „selja þær eða veðsetja, beint eða óbeint“. Feitletruðu viðbótinni er ætlað að tryggja, að ekki fari á milli mála, að ekki megi veðsetja skip út á kvótann, sem fylgir því – eftir þeirri sjálfsögðu reglu, að engum leyfist að veðsetja eigur annarra.

Í annan stað segjum við nú um leyfi til afnota eða hagnýtingar auðlindanna: „Slík leyfi skal veita á jafnræðisgrundvelli og þau leiða aldrei til eignarréttar eða óafturkallanlegs forræðis yfir auðlindunum.“ Með feitletruðu viðbótinni er það áréttað, að fiskveiðistjórnin verður að samrýmast jafnræðisákvæði stjórnarskrárinnar, enda hafa fallið dómar og álit í Hæstarétti og mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna þess efnis, að fiskveiðistjórnarkerfið, sem við búum við, brjóti gegn jafnræði og mannréttindum.

Feitletraði textinn var felldur inn í ákvæðið í dag með yfirgnæfandi meiri hluta atkvæða.

Ákvæðið hljóðar nú svo:

„Auðlindir í náttúru Íslands, sem ekki eru í einkaeigu, eru sameiginleg og ævarandi eign þjóðarinnar. Enginn getur fengið þær, eða réttindi tengd þeim, til eignar eða varanlegra afnota og því má aldrei selja þær eða veðsetja, beint eða óbeint.

Til auðlinda í þjóðareign teljast náttúrugæði, svo sem nytjastofnar, aðrar auðlindir hafs og hafsbotns innan íslenskrar lögsögu, vatns- og virkjunarréttindi og jarðhita- og námaréttindi. Með lögum má kveða á um þjóðareign á auðlindum undir tiltekinni dýpt frá yfirborði jarðar.

Við nýtingu auðlindanna skal hafa sjálfbæra þróun og almannahag að leiðarljósi.

Stjórnvöld bera, ásamt þeim sem nýta auðlindirnar, ábyrgð á vernd þeirra. Stjórnvöld geta á grundvelli laga veitt leyfi til afnota eða hagnýtingar þeirra, gegn fullu gjaldi og til tiltekins hóflegs tíma í senn. Slík leyfi skal veita á jafnræðisgrundvelli og þau leiða aldrei til eignarréttar eða óafturkallanlegs forræðis yfir auðlindunum.“

(Birtist á dv.is)