Fréttablaðið
10. maí, 2007

Áttatíu ár: Ekki nóg?

Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn hafa setið að völdum á Íslandi ýmist á víxl eða báðir í einu í 80 ár samfleytt, ef utanþingsstjórnin 1942-44 er undan skilin ásamt tveim skammlífum minnihlutastjórnum. Þessir tveir flokkar hafa unnið þjóðinni ýmislegt gagn á öllum þessum tíma, það verður ekki frá þeim tekið. Samanlagt kjörfylgi þeirra hefur þó minnkað með tímanum. Þeir fengu 80 prósent atkvæða í þingkosningunum 1931, 70 prósent 1959, 60 prósent 1995 og 51 prósent 2003. Styrkur þeirra á Alþingi hefur jafnan verið umfram kjörfylgið vegna ójafns atkvæðisréttar eftir búsetu og einnig vegna þess, að þingsætum er úthlutað eftir reglu, sem hefur tryggt þessum tveim flokkum eitt til tvö þingsæti í forgjöf í hverjum kosningum að minnsta kosti síðan 1971 (nema 1978; þessu er lýst í bók minni Tveir heimar, 2005). Samanlagt fylgi þeirra hefur aðeins tvisvar sokkið niður fyrir 50 prósent. Það gerðist 1978, þá fengu þeir innan við 50 prósent atkvæða, en 53 prósent þingsæta. Þetta gerðist aftur 1987, þegar flokkarnir tveir fengu 46 prósent atkvæða og 49 prósent þingsæta; það er í eina skiptið, sem þessir tveir flokkar höfðu ekki þingstyrk til að mynda meirihlutastjórn.

Í kosningunum 2003 fengu stjórnarflokkarnir tvö þingsæti umfram þann fjölda, sem þeir hefðu fengið eftir þeirri úthlutunarreglu, sem beitt er í Danmörku, Noregi og Svíþjóð. Stjórnarflokkarnir hefðu þá fengið 32 þingsæti gegn 31 sæti stjórnarandstöðunnar í stað 34 sæta gegn 29. Þá hefði ríkisstjórnin naumast haldið velli 2003. Í öllu falli hefði hún varla enzt út kjörtímabilið. Henni hefði tæplega haldizt uppi að hlaða svo undir einstaka flokksmenn, að þeir urðu sumir milljarðamæringar við einkavæðingu ríkisbankanna og annarra ríkisfyrirtækja líkt og í Rússlandi. Og hún hefði varla reynt með rússnesku offorsi að loka Fréttablaðinu, Stöð 2 og fleiri fjölmiðlum sumarið 2004. Hún hefði varla heldur gert sér lítið fyrir og vanvirt stjórnarskrána með því að hirða ekki um að halda þjóðaratkvæðagreiðslu um fjölmiðlafrumvarpið 2004. Að réttu lagi hefði Alþingi átt að kalla saman Landsdóm og draga ráðherra til refsiábyrgðar fyrir að brjóta stjórnarskrána. Þess verður ekki vart, að frambjóðendur stjórnarflokkanna telji sig skulda kjósendum skýringar á þessum nýliðnu atburðum. Það er engu líkara en þeim finnist þeir hafa kastað öllum syndum bak við sig með því einu að skipta um formenn. Nema þeir sjái ekkert athugavert við aðförina gegn fjölmiðlunum 2004 og stjórnarskrárbrotið í kjölfar hennar.

Átökin um fjölmiðlafrumvarpið 2004 drógu dilk á eftir sér. Þau spilltu andrúmslofti stjórnmálanna, og var það þó þrútið fyrir. Nú er svo komið, að sumir frambjóðendur stjórnarflokkanna víla það ekki fyrir sér að þræta fyrir augljósar staðreyndir eins og þá, að ójöfnuður hefur aukizt til muna á Íslandi síðustu ár. Þeir þræta, þótt skýrar vísitölur um aukna misskiptingu liggi fyrir í gögnum, sem Geir Haarde, þá fjármálaráðherra, lagði fram á Alþingi 2005 og ríkisskattstjóri hefur skjalfest. Þeir skýla sér bak við skýrslu frá Hagstofu Íslands, þar sem því er haldið fram þvert á allar aðrar marktækar vísbendingar, að ójöfnuður í tekjuskiptingu á Íslandi sé engu meiri en annars staðar um Norðurlönd. Þeir láta eins og það komi málinu ekki við, að skattleysismörk hafa í verðbólgu undangenginna ára hríðlækkað að raungildi, svo að skattbyrði lágtekjufólks hefur þyngzt eftir því fyrir tilstilli ríkisstjórnarinnar. Auk þess búa fjármagnseigendur í efstu þrepum tekjustigans við mun léttari skattbyrði en launþegar. Í stað þess að viðurkenna aukna misskiptingu, biðjast velvirðingar og lofa að bæta ráð sitt, reyna sumir frambjóðendur stjórnarflokkanna að ljúga sig út úr vandanum. Blákalt. Hver trúir þeim?

Ríkisútvarpið flutti svohljóðandi frétt 27. apríl: „Mikill meirihluti fólks telur að ójöfnuður hafi aukist í íslensku samfélagi á kjörtímabilinu sem er að ljúka. Þetta kemur fram í könnun Gallups, fyrir Ríkisútvarpið og Morgunblaðið. Ríflega 70% telja að ójöfnuður hafi aukist, um 20% telja hann hafa staðið í stað, og 10% telja að dregið hafi úr ójöfnuði.“ Fólkið í landinu sér í gegnum lygavefinn. Frambjóðendur stjórnarflokkanna héldu líklega, að lygin gæti hlaupið hringinn í kringum landið, áður en sannleikanum tækist að reima á sig skóna. Þeim varð ekki kápan úr því klæðinu. Það er góðs viti.