Argentína og Ísland: Verðbólga 1961-2018
Argentína er gamalt verðbólgubæli. Myndin t.v. sýnir að verðbólgan þar skauzt upp fyrir 3000% 1989. Árum saman sagði Hagstofa Argentínu verðbólguna vera um 10% á ári þegar hún var í reyndinni 25%. Lengi treystu alþjóðastofnanir eins og Alþjóðabankinn og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn sér ekki til að birta tölur um verðbólgu í Argentínu. Menn voru dregnir fyrir dóm fyrir að vefengja upplognar tölur Hagstofunnar. Og þegar Hagstofan sjálf reyndi að bæta ráð sitt var starfsmönnum hennar stefnt fyrir dóm. En nú hefur rofað til og Alþjóðabankinn birtir nú aftur tölur um verðvísitölu landsframleiðslunnar en þó ekki enn um neyzluvöruverðsvísitöluna. Verðbólgan í Argentínu var 40% 2018. Gengi pesósins hefur fallið um 70% frá ársbyrjun fram á haustið 2019. Macri forseti sem fannst í Panama-skjölunum tapaði nýlega forsetakosningum fyrir gömlu Perónistunum sem eru snillingar í að koma landinu á kaldan klaka og hagnast sjálfir á öllu saman. Argentína á erfiða tíð í vændum, ekki í fyrsta sinn.
Heimild: Alþjóðabankinn, World Development Indicators 2019.