DV
6. jún, 2014

Andvaraleysi

Ef menn læra ekki af reynslunni eða gleyma henni eða þykjast gleyma, endurtaka þeir þeim mun heldur mistök fyrri tíðar. Sagan geymir ýmis átakanleg dæmi um afdrifaríka gleymsku.

Bankahremmingar síðustu ára vitna um vandann. Byrjum í Bandaríkjunum. Upphaf hremminganna þar má rekja til þess, að Bandaríkjaþing felldi úr gildi regluverkið, sem Franklin Roosevelt forseti og bandamenn hans á þingi höfðu leitt í lög í kreppunni miklu snemma á fjórða áratug síðustu aldar. Lög og reglur bönnuðu bönkum eftirleiðis að braska með innstæður og taka með því móti áhættu á kostnað annarra. Þetta fyrirkomulag reyndist vel. En bankamönnum héldu engin bönd eftir 1980. Þeir fylltu gullkistur stjórnmálamanna og flokka og fengu þá smám saman til að þykjast ekki muna eftir því, sem allir áttu að vita um varnir ríkisstjórnar Roosevelts gegn nýrri kreppu. Því fór sem fór. Kannski voru mistök Roosevelts þau að reyna ekki að leiða kreppuvarnirnar í stjórnarskrá, því að þá hefði stjórnmálamönnunum ekki veitzt svo auðvelt að nema þær úr gildi. Málið er samt ekki einfalt, þar eð Kanadamenn hafa aldrei talið sig þurfa að banna brask með innstæður og hafa aldrei kallað yfir sig bankakreppu, jafnvel ekki í kreppunni miklu, heimskreppunni 1929-39. Það kann að stafa af því, að kanadískir stjórnmálamenn hafa ævinlega haldið sig í hæfilegri fjarlægð frá bankamönnum og ekki heldur þegið umtalsvert fé af bönkunum: þar hefur ekki verið innangengt á milli. Í Kanada er ýmislegt eins og það á að vera. Meðalfjölskylda í Kanada hefur nú í fyrsta sinn frá því mælingar hófust meira milli handanna en meðalfjölskylda í Bandaríkjunum.

Bandaríkin eru annað mál. Þar endurtók sagan sig, en þó ekki nema til hálfs, þar eð ríkisstjórnir Bandaríkjanna og Evrópu brugðust að ýmsu leyti rétt við falli Lehman Brothers 2008 og öðrum hremmingum og komu þannig í veg fyrir, að af hlytist ný heimskreppa. Rétt viðbrögð voru þau, sem menn höfðu lært af kreppunni miklu og hagfræðinemar læra í þjóðhagfræði, t.d. hjá mér í Háskóla Íslands: að stíga þegar svo ber við á bensínið með því að auka peningamagn í umferð, lækka vexti, auka útgjöld ríkisins, lækka skatta o.s.frv. Skammtarnir voru að vísu ekki nógu stórir frá mínum bæjardyrum séð og margra annarra, þar eð öðrum fannst, að ekki væri á skuldir og ríkishallarekstur bætandi og mátti til sanns vegar færa. Niðurstaðan var málamiðlun. Árangurinn varð minni en hann hefði getað orðið að minni hyggju, og enn er staða heimsbúskaparins tvísýn sex árum eftir fall Lehman Brothers.

Næsta dæmi er náskylt. Þegar Grikkir komust í kröggur 2009, kallaði ríkisstjórn landsins á þríeyki sér til hjálpar: Alþjóðagjaldeyrissjóðinn (AGS), Evrópusambandið (ESB) og Evrópska seðlabankann (ECB). Vandi Grikklands var skuldavandi ríkisins, ekki bankavandi. Grikkir kunnu fótum sínum ekki forráð eftir inngöngu landsins í ESB 1981, þeir tóku lán í erlendum bönkum í stórum stíl og lentu síðan í vanskilum. Þríeykið kom Grikklandi til bjargar með því skilyrði, að Grikkir hertu mjög sultarólina. Atvinnuleysi í Grikklandi rauk úr 8% af mannaflanum upp í 18%, og við það veiktist vitaskuld geta Grikklands til að standa skil á skuldum ríkisins. Með því að heimta svo harkalegan niðurskurð í Grikklandi gerði þýzka ríkistjórnin sig seka um gleymsku, þar eð engin Evrópuþjóð ætti að vita og muna það betur en Þjóðverjar, hversu alvarlegar afleiðingar það getur haft að leggja of þungar byrðar á þjóð í þrengingum. Svo fór í Versalasamningunum 1919, þegar bandamenn, sigurvegarar í fyrra stríði, lögðu svo þungar skaðabætur á Þjóðverja, að þýzkir kjósendur lögðu hlustir við málflutningi nasista og hleyptu þeim til valda 1933. Kreppan lagðist á sömu sveif. Ýmislegt bendir til, að þýzka stjórnin hafi ráðið för í þríeykinu, bæði harður málflutningur Angelu Merkel kanslara gagnvart Grikkjum og sú staðreynd, að AGS fór ásamt Norðurlöndum mildari höndum um Ísland ári fyrr með allgóðum árangri. Sjóðurinn hafði brennt sig í Suðaustur-Asíu 1997-98 og ekki gleymt sögunni.

Þeir, sem tala enn um „svokallað hrun“ hér heima, hafa engu að gleyma. Þeir sjá ekkert athugavert. Alþingi ályktaði að vísu einum rómi 2010, að „taka verði gagnrýni á íslenska stjórnmálamenningu alvarlega.“ Ekkert bendir til, að hugur hafi fylgt máli. Bankarnir standa bólgnir á brauðfótum með fullar hendur fangins fjár og eru nú byrjaðir aftur að borga bónusa og auglýsa grimmt í sjónvarpi – og halda áfram að bera fólk út af heimilum sínum. Landbankinn, ríkisbankinn, býst til að reisa sér glæsihöll á hafnarbakkanum í Reykjavík eins og ekkert hafi í skorizt. Hér þyrfti að vera kanadískur banki, ótengdur stjórnmálalífinu, ef líf skyldi kalla.