Aldrei sama greiðslan
Hann hét fullu nafni Jósef Djúgasvílí og hefði trúlega orðið guðfræðingur, hefði hann ekki verið rekinn úr prestaskólanum suður í Georgíu, þar sem hann var við nám. Myndir af honum ungum eru eftirtektarverðar meðal annars fyrir þá sök, að hann var alltaf að skipta um greiðslu, svo að hann er stundum nánast óþekkjanlegur frá einni ljósmynd til annarrar. Stundum skipti hann hægra megin, stundum vinstra megin, stundum alls ekki, stundum lá strýið eins og heypoki langt niður á ennið, stundum var hárið stutt og smurt og strokið beint aftur eins og á Pínóchet hershöfðingja. Hann gerði þetta víst til að villa á sér heimildir, svo að hann gæti farið huldu höfði um landið. Svo þurfti hann líka að skipta um nafn og hét þá ekki lengur Djúgasvílí, heldur Stalín, sem þýðir stálin stinn á rússnesku.
Margrét Thatcher skipti aldrei um greiðslu og ekki heldur um nafn. Greiðslan á höfði hennar haggaðist ekki í átján vindstigum. Hún hélt sínu striki langt fram yfir síðasta söludag að flestra dómi, einnig samherja hennar, sem sneru baki við henni hver af öðrum og veittust sumir harkalega gegn henni í brezka þinginu í kveðjuskyni, tóku hana nánast af lífi, eins og til dæmis Geoffrey Howe. Hann var fjármálaráðherra í fyrstu ríkisstjórn Thatchers 1979-83 og síðan utanríkisráðherra til 1989 og gegndi báðum störfum með miklum brag. Hann var nánasti samstarfsmaður Thatchers frá upphafi og sagði loks af sér embætti með háreysti 1990 vegna þess, að Thatcher lét sér ekki segjast í Evrópumálum, og hún hrökklaðist frá völdum þrem vikum síðar. Howe og aðrir nánustu bandamenn hennar í Íhaldsflokknum, þar á meðal Nigel Lawson fjármálaráðherra, töldu rétt og nauðsynlegt, að Bretar gengju til gjaldeyrissamstarfs við hinar Evrópusambandsþjóðirnar, en það mátti Thatcher ekki heyra nefnt. Henni var pundið heilagt eins og landið, tungan og þjóðin. Hún var ekki yfirgangssamari en svo, ólíkt Stalín, að samherjar hennar þorðu að standa uppi í hárinu á henni og segja síðan af sér. Afsögn Howes bar að í þeim svifum, þegar House of Cards, eitt áhrifamesta stjórnmáladrama, sem sézt hefur á sjónvarpi fyrr og síðar, gekk á BBC og fjallaði einmitt um brezkan forsætisráðherra, sem er kominn fram yfir síðasta söludag. Thatcher reyndist mega sín lítils ein og yfirgefin og náði ekki endurkjöri sem formaður flokks síns og hefur æ síðan verið í pólitískri útlegð. Það er helzt, að Tony Blair hafi sýnt henni áhuga; hann bauð henni til kvöldverðar á undan öllum öðrum í Downingstræti 10, eftir að hann flutti þangað inn 1997. Þvermóðska hennar í Evrópumálinu varð einn stærsti banabiti hennar og Íhaldsflokksins. Hún tók sér ekki sæti í seðlabankanum að leikslokum; hún varð aldrei uppvís að því að skara eld að eigin köku.
Sama verður ekki sagt um annan mann, sem hún var í nánu vinfengi við. Ég á við Ágúst Pínóchet, yfirmann herforingjastjórnarinnar í Síle 1973-90. Sá þriðjungur sílesku þjóðarinnar, sem studdi Pínóchet og stjórn hans gegnum þykkt og þunnt, þreyttist aldrei á að mæra Pínóchet fyrir heiðarleika. Hann kann að hafa brotið gegn mannréttindum, sagði þetta fólk (130 þúsund handtökur, 30 þúsund fangelsisdómar með pyndingum og öllu tilheyrandi, þrjú þúsund morð), en hann er strangheiðarlegur. Þessari skoðun myndi þetta fólk líklega lýsa enn, ef Pínóchet væri horfinn til feðra sinna. En hann lifir enn og er á tíræðisaldri, svo að tími hefur gefizt til að grafast fyrir um fortíð hans. Það var ekki fyrr en vorið 2004, að Hæstiréttur Síle lýsti Pínóchet nógu hraustan til að svara til saka fyrir dómi. Þá hafði rannsóknarnefnd Bandaríkjaþings leitt í ljós, að Pínóchet átti fúlgur fjár á leynireikningum í bandarískum bönkum, langt umfram það, sem tekjur hans dugðu til að skýra. Og þá tók að losna um málbeinið á öðrum. Stríðsdagbækur sjálfstæðishetjunnar Josés Miguels Carrera hurfu úr þjóðskjalasafninu skömmu eftir 1973 og fundust heima hjá Pínóchet samkvæmt ábendingu skjalavarðar; þeim var skilað aftur til safnsins í fyrra. Annar safnstjóri hefur tilkynnt um aðra dýrgripi í vanskilum: tvö sverð frelsishetjunnar Bernardós O’Higgins, sem hurfu af þjóðminjasafninu, en hermönnum er afhent afsteypa af þeim með viðhöfn, þegar þeir eru hækkaðir í herforingjatign. Safnstjórinn heldur, að sverðin séu heima hjá Pínóchet. Málið er í athugun. Hvað gekk honum til? Hélt hann, að sjálfskipuð návist við ósviknar þjóðhetjur leysti hann undan ábyrgð á níðingsverkunum?