Ákall atvinnulífsins
Samtök atvinnulífsins hafa nú sent út neyðarkall. „Launakröfur margra hópa … valda áhyggjum því fyrir þeim er engin innistæða. Verði gengið að þessum kröfum verður verðbólgunni hleypt af stað, óbeislaðri með tilheyrandi tjóni.“ Þetta segir Björgólfur Jóhannsson, formaður samtakanna og forstjóri Icelandair Group í pistli á Eyjunni.
Lítum yfir baksviðið, og drögum handann djúpt. Skv. upplýsingum ríkisskattstjóra jukust tekjur þess hundraðshluta (1%) íslenzkra heimila, sem hafa hæstar tekjur, úr 4% af heildartekjum 1995 í 20% af heildartekjum 2007, árið fyrir hrun. Sem sagt: hlutdeild hátekjumanna í heildartekjum fimmfaldaðist á tólf árum. Til samanburðar jukust tekjur þess hundraðshluta (1%) bandarískra heimila, sem hafa hæstar tekjur, úr 14% af heildartekjum 1990 í 24% 2008. Í Svíþjóð jókst hlutdeild tekjuhæsta hundraðshluta heimilanna miklu minna, en þó talsvert eða úr 4% 1990 í 7% 2008. Hvorki Bandaríkjamenn né Svíar náðu tvöföldun á móti fimmföldun hér heima. Vá, myndu sumir segja. Þessar tölur um Bandaríkin og Svíþjóð hafa legið fyrir um nokkurt skeið og eru reiddar fram á einu bretti auk annars efnis í nýrri þverhandarþykkri bók Capital in the Twenty-First Century eftir franska hagfræðinginn Thomas Piketty. Mæli með henni.
Af þessum tölum má ráða, hvert Ísland sótti sér fyrirmynd um tekjuskiptingu fram að hruni. Fyrirmyndin var bersýnilega sótt til Bandaríkjanna í stjórnartíð George W. Bush forseta 2001-2008, en hann er nú almennt talinn vera einn allra versti forseti Bandaríkjanna fyrr og síðar. Bandaríkjamenn mæla slíkt og reisa mælingarnar á samanburðarathugunum sagnfræðinga o.fl. Bush yngri hefur látið sig hverfa af sjónarsviðinu, og þykir mörgum fara vel á því. Forverar hans úr hópi demókrata Jimmy Carter (1977-1980) og Bill Clinton (1993-2000) halda báðir áfram ótrauðir að reyna að gera gagn hvor á sínum vettvangi. Carter er níræður.
Um Bandaríkin er einnig vitað, að forstjóralaun hækkuðu að jafnaði úr 30-földum launum venjulegra launþega árin 1960-1970 í 270-föld venjuleg laun 2008. Það gerir níföldun. Uppsprettan var ekki aukin afköst, öðru nær, heldur sjálftaka, þar eð forstjórarnir sitja iðulega í stjórnum fyrirtækja hver hjá öðrum og skammta hver öðrum laun. Þeir koma óorði á markaðsbúskap.
Ég segi öðru nær, því að t.d. General Motors, hryggjarstykkið í bandarísku efnahagslífi um langt árabil, reyndist vera svo illa rekið, þegar til kastanna kom, að það var þjóðnýtt á endanum. Sambærilegar upplýsingar um Ísland liggja ekki fyrir að öðru leyti en því, að landbúnaður og sjávarútvegur eru enn sem fyrr reknir með gríðarlegri meðgjöf af almannafé – aldrei reynt annað. Ætla má, að íslenzkir athafnamenn hafi margir líkt og stjórnvöld reynt að fylgja bandarískri fyrirmynd. Lausleg athugun t.d. á tekjublöðum Frjálsrar verzlunar bendir til, að forstjóralaun séu nú miklu hærra hlutfall venjulegra launa en áður var fyrir utan ýmis fríðindi, sem stjórnendur hafa fengið sjálfum sér og hver öðrum. Starfslokasamningar sumra forstjóra eru yrkisefni út af fyrir sig.
Greiðasta leiðin að hóflegum kjarasamningum á næsta ári blasir við í ljósi þess, sem á undan er gengið og rakið er hér að framan. Til að greiða fyrir hóflegum kjarasamningum, sem formaður Samtaka atvinnulífsins lýsir eftir til að girða fyrir gamalkunna verðbólgu, þurfa forstjórar og stjórnarmenn fyrirtækja að ganga á undan með góðu fordæmi og fallast á myndarlega launaskerðingu til að færa hlutfallið milli launa þeirra og venjulegra launþega nær fyrra horfi. Engin reynslurök benda til, að forstjórar og aðrir stjórnendur fyrirtækja verðskuldi miklu hærri laun en áður miðað við aðra starfsmenn. Tiltölulega fáir íslenzkir forstjórar hafa starfsreynslu frá útlöndum, og fáir þeirra eru því gjaldgengir þar ólíkt t.d. læknum, sem tínast nú einn af öðrum til starfa í öðrum löndum, enda eru laun læknanna hér heima bara brot af forstjóralaunum. Því þarf að breyta.