28. nóv, 2006

Ævilíkur og hagvöxtur

Mynd 98. Langlífi borgar sig. Myndin sýnir samhengið milli ævilíkna árið 1960, þ.e. hversu mörg ár nýfætt barn gat þá vænzt þess að lifa, og hagvaxtar á mann um heiminn 1960-2000 í þeim 147 löndum, sem tölur Alþjóðabankans ná yfir. Hvert land á myndinni er auðkennt með einum punkti. Fylgnin er marktæk í tölfræðilegum skilningi (raðfylgnin er 0,60). Rauða aðfallslínan gegnum punktaskarann bendir til þess, að 11-12 árum lengri meðalævi haldist í hendur við aukningu hagvaxtar á mann um eitt prósentustig á ári. Orsök og afleiðing kallast á, nema hvað: aukið langlífi eykur hagvöxtinn, og ör vöxtur lengir lífið. Tölfræðilega séð má þó túlka myndina þannig, að hún lýsi áhrifum ævilíkna á hagvöxt, þar eð hagvöxtur eftir 1960 getur varla hafa haft áhrif á lengd meðalævinnar 1960, þ.e. aftur í tímann. Svipuð mynd fæst, ef við setjum ævilíkur að meðaltali 1960-2000 á lárétta ásinn, og þá er eðlilegast að álykta sem svo, að stærðirnar tvær orki hvor á aðra. Heimild: Alþjóðabankinn, World Development Indicators 2003.