Fréttablaðið
29. jún, 2017

Ættarnöfn eru annað mál

Algeng eftirnöfn eins og t.d. Hallgrímsdóttir og Sigfússon eru yfirleitt ekki fýsileg rímorð í skáldskap og eru þar sjaldgæf eftir því. Innlend og erlend ættarnöfn eru annað mál. Minnugur fjörlegs samtals Péturs Blöndal blaðamanns við Elías Mar í bókinni Sköpunarsögur kastaði ég þessum hversdagslega fyrri parti til Kristjáns Hreinssonar skáldvinar míns símleiðis sem ég stóð í biðröð á flugvellinum í Róm:

Elías Mar var óttalegt skar/

en alls ekki þar sem mest á mæddi./

Kristján svaraði um hæl:

Hann gerði sér far um gáfulegt svar/

og gleymdi þá hvar um veg hann æddi./

Við höfum skipt svo með okkur verkum við Kristján sem ég skjögra um skáldskaparsvellið þar sem hann leikur listir sínar með miklum brag að ég glími við auðveldu ættarnöfnin en hann sér um hin sem erfiðari eru eins og t.d. Bieltvedt, Farestveit og Flygenring. Hér er eitt alkunnugt og auðvelt ættarnafn:

Að halda því fram að Elliðárbrekkan sé brött/

er broslegt og eiginlega alveg út í hött,/

er haft eftir Sigfúsi Schiöth./

Og hér birtist vatnamælingmaðurinn þjóðkunni:

Enginn veit hvað átt hefur eða misst,/

en allir geta faðmað, sungið og kysst,/

sagði Sigurjón Rist./

Og hér er skipaverkfræðingurinn vinur minn sem vann hjá Eimskipafélaginu um árabil og ég var þar sendiherra á viðreisnarárum Ólafs Thors og þeirra nema ég hef breytt millistafnum í nafni hans úr E í P:

Í suðvestangarra og súld/

sagði mér Kristófer Kúld/

að vinur hans Viggó P. Maack/

vildi helzt búa í blokk/

ellegar verða innlyksa/

á afskekktri ey/

með Dórisi Day/

eða Droplaugu Mixa./

Og hér er söngkonan góða, föðursystir sjarmatröllsins George Clooney, ásamt Dannie Kaye sem var tíður gestur í Trípólibíói sem stóð ryðgaður braggi milli prófessorabústaða bernsku minnar:

Fegurstar þykja mér rauðar rósir í júní,/

sagði Rosemary Clooney./

Sjaldan hef ég dansað við svo draumfagra mey,/

sagði Dannie Kaye./

Proust og Pálína

Allt sitt líf lét hún sig dreyma um liðmjúkan dans, en/

hún dró það úr hömlu að skrá sig hjá Rigmor Hansen./

Hún dansaði heldur í kofanum heima við kúst/

sem hún kallaði Proust./

Þau dönsuðu foxtrott og rúmbu og ræl og polka./

Það rauk upp úr háfnum hjá Proust og Pálínu Kolka./