DV
13. apr, 2012

Að vanda sig

Fréttablaðið birti forustugrein um daginn undir yfirskriftinni „Alþingi þarf að vanda sig“. Þar segir m.a.: „Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd þingsins hafði tillögu stjórnlagaráðs að breyttri stjórnarskrá til umfjöllunar í fimm mánuði.“ Þetta er ekki rétt. Frumvarpið var afhent Alþingi 29. júlí 2011. Við erum að tala um átta mánuði, ekki fimm.

Síðan segir í leiðaranum: „Í stað þess að fara efnislega ofan í saumana á málinu, leita umsagna sérfræðinga, skýra óskýrt orðalag, lagfæra misræmi í ákvæðum … skilaði meirihluti nefndarinnar af sér ómerkilegri og illa unninni þingsályktunartillögu um að þjóðin yrði spurð álits á tillögu stjórnlagaráðs.“ Ekki er þetta heldur rétt. Nefndin ræddi við sérfræðinga og aðra, vann úr þessum viðræðum og spurði Stjórnlagaráð síðan bréflega um hugsanlega „óskýrt orðalag“ og hugsanlegt „misræmi í ákvæðum“ á fáeinum stöðum í frumvarpinu. Hvorugu reyndist vera til að dreifa, svo sem Stjórnlagaráð skýrði í svari sínu til þingnefndarinnar 11. marz sl., enda gaf nefndin ekki heldur neitt slíkt í skyn í bréfi sínu til Stjórnlagaráðs. Ef í frumvarpinu væri að finna dæmi um „óskýrt orðalag“ og „misræmi í ákvæðum“, hefði ritstjóri Fréttablaðsins trúlega tilgreint þau. En það gerði hann ekki, þótt ætla megi, að hann og aðrir andstæðingar frumvarpsins hafi leitað með logandi ljósi að slíkum dæmum í átta mánuði. Stjórnlagaráð hafði færum ráðgjöfum og sérfræðingum á að skipa við vinnu sína.

Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn eiga þrjá fulltrúa í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis, alla löglærða. Þessum þrem fulltrúum minni hlutans hefði verið í lófa lagið „að fara efnislega ofan í saumana á málinu, leita umsagna sérfræðinga, skýra óskýrt orðalag, lagfæra misræmi í ákvæðum …“ eins og Fréttablaðið lýsir eftir, en þeir hafa þó engin gögn lagt fram í þá veru, ekki frekar en meiri hluti nefndarinnar. Mér dettur ekki í hug að efast um, að þau eru öll eins og ritstjórinn að reyna að vanda sig.

Þingnefndin leitaði ekki álits erlendra sérfæðinga á frumvarpi Stjórnlagaráðs. Á því getur varla verið önnur skýring en sú, að nefndinni þótti það ástæðulaust eftir að hafa kynnt sér frumvarpið. Nefndin leitaði ekki heldur til Feneyjanefndarinnar, sem á vegum Evrópuráðsins er iðulega fengin til að fjalla um nýjar stjórnarskrár í álfunni með lýðræði og mannréttindi að leiðarljósi. Lýðræði og mannréttindum er gert hátt undir höfði í frumvarpi Stjórnlagaráðs. Því hefur þingnefndin trúlega ekki séð ástæðu til að leita eftir umsögn Feneyjanefndarinnar.

Leiðari Fréttablaðsins heldur áfram: „Það liggur svo fullkomlega í augum uppi að málið var vanreifað og óklárað af hálfu Alþingis að það er mikil blessun, en alls ekki bölvun, að þjóðin skuli ekki verða spurð álits á tillögum um breytingar á stjórnarskrá samhliða forsetakosningunum.“ Blaðið missir marks. Alþingi fól Stjórnlagaráði að semja frumvarp til nýrrar stjórnarskrár, þar eð Alþingi hefur ekki tekizt að gera það í 67 ár þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir. Hlutverk Alþingis nú þarf ekki að vera annað en að standa við eigin samþykkt um að halda þjóðaratkvæðagreiðslu um frumvarpið samhliða forsetakjöri 30. júní, eða síðar í haust.

Fréttablaðið segir: „Þingið þarf að taka efnislega afstöðu til þeirra tillagna sem fyrir liggja“. Þingið þarf þess þó einmitt ekki. Þingið fól öðrum að vinna verkið og á því ekki að hrifsa það til sín aftur. Staðhæfingar Fréttablaðsins um „innri mótsagnir í grundvallarplaggi stjórnskipunarinnar“ eiga ekki við rök að styðjast, enda myndi blaðið þá trúlega tefla fram þeim rökum. Enginn hefur á átta mánuðum nefnt nokkurt gilt dæmi um „innri mótsagnir“. Fullyrðingar um „innri mótsagnir“ og annað í þeim dúr eru yfirvarp þeirra, sem reyna að klæða andúð sína á frumvarpinu í lagatæknilegt dulargervi. Frumvarpið á andstæðinga eins og eðlilegt er. Sumir eru andvígir auðlindum í þjóðareigu, jöfnu vægi atkvæða, greiðum aðgangi að upplýsingum og ýmsum öðrum réttarbótum, sem frumvarpið kveður á um. Leitt er að sjá Fréttablaðið bergmála andstöðu sérhagsmunahópa gegn sjálfsögðum mannréttindum. En þeir eiga ekki Ísland. Þjóðaratvæði er ætlað að sannreyna vilja fólksins í landinu. Þjóðin á sig sjálf.