Pressan
8. okt, 2012

Að þræta fyrir staðreyndir

Brynjar Níelsson lögmaður þrætir fyrir þekktar staðreyndir. Hann þrætir fyrir, að stjórnarskráin frá 1944 hafi verið til bráðabirgða. Guðni Th. Jóhannesson sagnfræðingur hefur ásamt mörgum öðrum lýst því í löngu máli, að með stjórnarskránni 1944 var tjaldað til einnar nætur, enda lofuðu forustumenn allra flokka á Alþingi 1944 gagngerri endurskoðun stjórnarskrárinnar hið fyrsta.

Brynjar þrætir einnig fyrir þátt stjórnarskrárinnar í hruninu. Rannsóknarnefnd Alþingis mælti þó með endurskoðun stjórnarskrárinnar (8. bindi, bls. 184) einmitt vegna þess, að nefndin setti hrunið í samhengi við stjórnskipunina. Allir hljóta t.d. að sjá, að eitthvað er bogið við stjórnskipun lands, þar sem tveir menn geta dregið Ísland inn í stríð án þess að spyrja Alþingi. Brynjar talar um „óvilja almennings til þátttöku í ferlinu“ eins og það skipti engu máli, að línurnar voru lagðar á þjóðfundnum 2010, þar sem komu saman 950 manns af landinu öllu, frá 18 ára til 91 árs að aldri, valin af handahófi úr þjóðskrá með jafnri kynjaskiptingu. Úrtakið var valið þannig, að allir Íslendingar áttu jafna möguleika á að veljast til setu á þjóðfundinum. Þannig var tryggt, að niðurstöður þjóðfundarins spegluðu vilja þjóðarinnar. Það er ósvífni að halda því fram eins og Brynjar gerir, að þetta fólk hafi látið teyma sig á asnaeyrum.

Brynjar þrætir fyrir, að frá þjóðfundinum hafi borizt „krafa um nýja stjórnarskrá“. Niðurstaða þjóðfundarins tekur þó af öll tvímæli, en þar segir: „Þátttakendur ræddu þau gildi sem þeir vilja að lögð séu til grundvallar nýrri stjórnarskrá.“ Brynjar segir: „Tillögur stjórnlagaráðs endurspegla því einfaldlega pólitískar skoðanir og markmið þeirra stjórnlagaráðsfulltrúa, sem skipaðir voru af meirihluta alþingis.“ Einnig þetta er ósatt. Stjórnlagaráð gerði í reyndinni ekki annað en að færa niðurstöðu þjóðfundarins í frumvarpsbúning. Eiginlegur höfundur frumvarpsins er því þjóðfundurinn, fólkið í landinu, ekki Stjórnlagaráð.

Auðlindaákvæðið er eitt mikilvægasta ákvæði frumvarpsins, og það er í nánu samræmi við niðurstöðu þjóðfundarins og skriflegar stefnuskrár og stefnuyfirlýsingar allra flokka á Alþingi. Stjórnlagaráð tók flokkana á orðinu eins og lýst er í greinargerð Stjórnlagaráðs með frumvarpinu. Hið sama á við um mörg önnur ákvæði frumvarpsins, sem ríma vel við stefnu allra flokka á Alþingi. Hvernig ætti annað að vera? Þjóðfundurinn lagði línurnar, og hann sat fullt af fólki, sem hefur fylgt öllum stjórnmálaflokkum að málum eða engum.

Brynjar segir: „Mikilvægt er að víðtæk og almenn samstaða sé um efni stjórnarskrár“. Þetta er rangt. Það er þvert á móti eðlilegt, að stjórnarskrárfrumvörp eigi andstæðinga, því að sumum er óljúft að bera þær skyldur, sem fylgja réttindum annarra. Bandaríska stjórnarskráin var t.d. samþykkt með naumum meiri hluta atkvæða í níu fylkjum 1787-88. Hún hefur samt reynzt vera heilladrjúgur „samfélagssáttmáli, sem nauðsynlegur er í hverju þjóðríki“. Góðum stjórnarskrám er ætlað að tryggja, að við tökum nægt tillit hvert til annars. Tillitsleysingjar, sem heimta að fá að fara sínu fram hvað sem tautar og raular, leggjast í andstöðu gegn slíkum stjórnarskrám. Mannréttindabrjótum er lítt gefið um mannréttindaákvæði í stjórnarskrám.

Brynjar lýkur máli sínu með því að segja: „Fullyrða má að ekki sé almennur vilji til að kollvarpa lýðveldisstjórnarskránni.“ Þetta er rétt athugað, enda er frumvarp Stjórnlagaráðs til nýrrar stjórnarskrár vandlega reist á bráðabirgðastjórnarskránni frá 1944. Grundvöllur stjórnskipunarinnar með þingræði í öndvegi stendur óhaggaður. Frumvarp Stjórnlagaráðs miðar að því að treysta gamlan grundvöll stjórnskipunarinnar með nýjum ákvæðum um valdmörk og mótvægi, sem ætlað er m.a. að reisa skorður við ofríki framkvæmdarvaldsins á kostnað löggjafarvalds og dómsvalds, með því m.a. að girða fyrir spilltar embættaveitingar í dómskerfinu og annars staðar.

Brynjar klykkir út með viðvörun: „Verði tillögur stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá að veruleika mun það kalla á uppnám og óróleika í íslensku samfélagi.“ Frumvarp Stjórnlagaráðs verður borið undir þjóðaratkvæði 20. október vegna þess, að flokkur Brynjars Níelssonar og meðreiðarsveinar hans hrintu Íslandi fram af hengiflugi 2008 og sköpuðu með því móti meira „uppnám og óvissu“ en þjóðin hefur áður fengið að kynnast. Þjóðaratkvæðagreiðslan er haldin m.a. til að virða einróma ályktun Alþingis frá 28. september 2010, en stendur: „Alþingi ályktar að … taka verði gagnrýni á íslenska stjórnmálamenningu alvarlega og leggur áherslu á að af henni verði dreginn lærdómur. … Alþingi ályktar að fela forsætisnefnd, viðkomandi nefndum Alþingis, stjórnlaganefnd, … og forsætisráðherra fyrir hönd ríkisstjórnar að ráðast í eftirfarandi: I. Endurskoða … Stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944.“

Þessa ályktun samþykkti Alþingi með 63 atkvæðum gegn engu.