DV
9. jan, 2015

Að slíta sundur friðinn

Nú hallar svo mjög á lýðræðið í landinu, að til ófriðar horfir. Lítum yfir sviðið.

Alþingi valtar yfir vilja kjósenda í hverju málinu á eftir öðru og skeytir í engu um þá staðreynd, að kjósendur eru yfirboðarar Alþingis og ekki öfugt. Þessi lykilstaðreynd lýðræðisins er að vísu óskráð í gildandi stjórnarskrá frá 1944, en hún stendur skýrum stöfum í nýju stjórnarskránni, sem tveir þriðju hlutar kjósenda samþykktu í þjóðaratkvæðagreiðslunni 2012 og Alþingi er að reyna að drepa á dreif.

Alþingismeirihlutinn með 51% atkvæða að baki sér og 30% fylgi meðal kjósenda skv. nýrri skoðanakönnun frá Capacent Gallup daðrar enn við þá hugmynd að afturkalla umsókn Íslands frá 2009 um aðild að ESB með óafturkræfum hætti. Markmiðið er að binda hendur fólksins í landinu langt fram í tímann. Þingmeirihlutinn daðrar því við að fremja fáheyrt fólskuverk. Það er hægt að geyma umsóknina líkt og umsókn Svisslendinga frá 1992 hefur legið í salti æ síðan. Geymsla felur í sér, að hægt er að taka þráðinn upp aftur hvenær sem er án þess að byrja að nýju á fyrsta reit. Afturköllun felur á hinn bóginn í sér, að nýtt Alþingi þarf á nýjan leik að afla samþykkis hvers einstaks aðildarríkis í ESB (þau eru nú 28), samþykkis, sem liggur nú fyrir. Óvíst er, hvort slíkt samþykki fengist á ný eftir allt, sem á undan er gengið.

Nýja stjórnarskráin, sem Alþingi er að reyna að koma fyrir kattarnef, kveður skýrt á um, að þjóðin á milliliðalaust að ráða ferðinni í málum, sem varða framsal fullveldis eins og ESB-málið gerir, og reyndar einnig í flestum þeim málum öðrum, sem 10% atkvæðisbærra manna sammælast um að vísa til þjóðaratkvæðis. Fyrirhugað fólskuverk þingmeirihlutans er því skýlaust brot gegn nýju stjórnarskránni og má heita næsti bær við landráð.

Líku máli gegnir um nýtt frumvarp til fiskveiðistjórnarlaga, sem ríkisstjórnin hyggst leggja fram innan tíðar til að tryggja útvegsmönnum áhyggjulausan aðgang að sameignarauðlindinni í sjónum gegn málamyndagjaldi næstu 20-25 ár. Markmiðið er að skerða getu nýs Alþingis til að breyta fiskveiðistjórninni bótalaust. Einnig þetta frumvarp gengur þvert gegn nýju stjórnarskránni og gegn vilja kjósenda, sem voru spurðir sérstaklega um auðlindaákvæði nýju stjórnarskrárinnar í þjóðaratkvæðagreiðslunni 2012. Þar lýstu 83% kjósenda sig fylgjandi ákvæðinu um auðlindir í þjóðareigu, sem kveður á um fullt gjald fyrir aðganginn að auðlindinni. Þarna býst Alþingi einnig til að slengja blautri tusku framan í fólkið í landinu og binda hendur þess fram í tímann.

Sýnu alvarlegastur er þó yfirgangur Alþingis í stjórnarskrármálinu. Í því máli hefur Alþingi og m.a.s. Hæstiréttur brotið alvarlega gegn fólkinu í landinu. Kjósendur kusu sér nýja stjórnarskrá með yfirgnæfandi meiri hluta í þjóðaratkvæðagreiðslunni 2012. Nýja stjórnarskráin myndi leysa bæði ESB-málið og fiskveiðistjórnarmálið og mörg önnur viðkvæm mál til skamms og langs tíma litið (umhverfismál, upplýsingamál, spilltar embættaveitingar, stjórnskipunarmál o.m.fl.). Alþingi lætur þó eins og engin þjóðaratkvæðagreiðsla hafi farið fram rétt eins og þingmenn hafi það í hendi sér, hvort niðurstöður almennra kosninga eru virtar eða ekki. Svo lengi sem Alþingi neitar að sjá að sér í þessu máli, verður það með réttu sakað um að slíta sundur friðinn í landinu.

Hvers vegna sýnir Alþingi af sér svo fáheyrðan yfirgang í öllum þrem málunum, sem reifuð eru að framan? Svarið blasir við. Alþingismenn ganga leynt og ljóst erinda fámennra forréttindahópa, sem þykjast eiga landið og miðin, færa sig sífellt upp á skaftið og skeyta lítt um hag og rétt fólksins í landinu. Vitnisburðir liggja fyrir. Fv. ritstjóri Morgunblaðsins sagði á prenti, að það „jafngilti pólitísku sjálfsmorði að rísa upp gegn handhafa kvóta á landsbyggðinni.“

Þegar svo hyldjúp gjá myndast milli þings og þjóðar, er tvennt til ráða. Annað ráðið er, að forseti Íslands neyti málskotsréttar síns til að skakka leikinn. Það getur forsetinn að sönnu gert í fiskveiðistjórnarmálinu, en ekki í hinum tveim. Hitt ráðið er, að fólkið í landinu taki völdin í sínar hendur eins og það gerði 2009. Það ráð myndi duga til að leysa öll málin þrjú. Gleðilegt ár.