DV
20. jan, 2012

Að rífa niður eldveggi

Þegar 300 milljónir manna losnuðu loksins undan oki kommúnismans í Austur-Evrópu og nærsveitum eftir fall Berlínarmúrsins 1989, stóðu vonir til, að lýðræði á vestur-evrópska vísu yrði reglan um alla Evrópu og einnig í gömlu Sovétríkjunum. Þessar vonir rættust vestan landamæra Rússlands, en þó ekki í Rússlandi sjálfu og ekki heldur í suðurríkjum Sovétríkjanna sálugu, þar sem gamlir kommúnistajálkar ráða enn ríkjum sums staðar eins og ekkert hafi í skorizt. En Austur-Evrópa tók sér tak, bæði Eystrasaltslöndin þrjú (Eistland, Lettland, Litháen) og gömlu Varsjárbandalagslöndin, ekki bara Pólland, Tékkland, Slóvakía og Ungverjaland, heldur einnig Rúmenía, Búlgaría og Albanía auk Júgóslavíu, sem skiptist nú í mörg lönd. Þessi lönd eru nú öll nema Albanía komin inn í Evrópusambandið og einnig Slóvenía, nyrzti hluti Júgóslavíu. Króatía bíður inngöngu innan tíðar líkt og Albanía.

Eftir hverju eru öll þessi austur-evrópsku aðildarlönd ESB að slægjast? Svarið er friður og framfarir. Og aðhald. Þau sækjast eftir að deila fullveldi sínu með öðrum Evrópulöndum svo sem reglur hússins mæla fyrir um. Sameiginlegt fullveldi á tilteknum sviðum finnst þeim vera kostur, ekki galli, þar eð það veitir þeim vernd gegn innlendu ofríki.

Nú reynir á þolrifin. Flokkur stjórnarandstæðinga í Ungverjalandi náði meira en tveim þriðju hlutum þingsæta í kosningum 2010 með 53% atkvæða að baki sér. Þetta gerðist í kjölfar mikilla sviptinga á fjármálamörkuðum og í efnahagslífi landsins m.a. vegna óstjórnar og spillingar í stjórnartíð sósíalista árin næst á undan. Sigurvegararnir, andstæðingar sósíalista, mynduðu nýja ríkisstjórn eftir kosningarnar undir forustu Viktors Orbán fyrrum forsætisráðherra og neyttu aukins þingmeirihluta til að skipta um stjórnarskrá. Meðal breytinganna, sem tóku gildi í byrjun þessa árs, eru ýmis ákvæði, sem ganga í þveröfuga átt við frumvarp Stjórnlagaráðs til nýrrar stjórnarskrár hér heima og veikja lýðræði, lög og rétt.

Nú er Ungverjaland að vísu eina Austur-Evrópulandið, sem ekki setti sér nýja stjórnarskrá eftir hrun kommúnismans, en það er ekki haldbær afsökun fyrir harðýðgi stjórnarmeirihlutans nú. Nýja ungverska stjórnarskráin rífur niður eldveggi, veikir valdmörk, mótvægi og mannréttindi til að mylja undir flokk forsætisráðherrans. Þetta er gert m.a. með því að skerða sjálfstæði dómstólanna (með því að knýja á um afsagnir dómara með skyndilegri lækkun eftirlaunaldurs þeirra úr 70 árum í 62 til að rýma fyrir nýjum dómurum úr röðum stjórnarflokksins), skerða sjálfstæði seðlabankans (til að koma bankanum undir yfirráð stjórnarflokksins) og skerða frelsi fjölmiðla og aðgang að upplýsingum. Nýja stjórnarskráin kveður á um, að tvo þriðju hluta þingmanna þurfi til að breyta ýmsum lögum, sem einfaldur meiri hluti dugði áður til að breyta. Þannig hefur ríkisstjórnin gert það erfiðara að breyta lögum aftur í betra horf. Stuðningur almennings við stjórnina minnkaði til muna við þessi tíðindi. Fólkið þusti út á göturnar til að mótmæla.

Feneyjanefndin, sem á vegum Evrópuráðsins er iðulega fengin til að fjalla um nýjar stjórnarskrár í álfunni með lýðræði, lög og rétt að leiðarljósi, gagnrýndi frumvarp ungversku stjórnarinnar, en ríkisstjórnin hefur enn sem komið er látið þá gagnrýni sem vind um eyru þjóta. Evrópuþingið og framkvæmdastjórn ESB hafa nú einnig látið málið til sín taka. Evrópusambandinu er málið skylt m.a. vegna þess, að nýja stjórnarskráin stríðir að dómi þings og framkvæmdastjórnar ESB gegn skuldbindingum Ungverja varðandi mannréttindi skv. Alþjóðasamningnum um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi. Þetta er sami samningur og Íslendingar halda áfram að brjóta gegn með fiskveiðistjórnarkerfinu skv. áliti mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna frá 2007.

Sjái ungverska ríkisstjórnin ekki að sér, getur ESB skv. reglum sínum gripið til þess ráðs að taka fyrir aðgang Ungverja að styrkjum úr sameiginlegum sjóðum sambandsins. ESB líður ekki mannréttindabrot innan sinna vébanda. Þar eru engir afslættir í boði. Þessa meginreglu þurfa Ungverjar að virða ekki síður an aðrar aðildarþjóðir ESB. Svo vill til, að Ungverjar þurfa sem stendur á fjárhagsaðstoð ESB og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins að halda. Samningar standa yfir.