DV
6. jan, 2012

Að ná endum saman

Hagstofa Íslands birtir á vefsetri sínu nýjar tölur um fjárhag heimilanna eftir forskrift evrópsku hagstofunnar Eurostat. Tölurnar sýna, að sjöunda hvert heimili í landinu telur sig eiga mjög erfitt með að ná endum saman. Við erum að tala um 16.000 heimili af 123.000, eða 13 prósent af heildinni. Tölurnar eiga við 2011. Árið áður, 2010, töldu 17.000 heimili sig eiga mjög erfitt með að ná endum saman. Til samanburðar telja aðeins um 2-4 prósent heimila annars staðar á Norðurlöndum sig eiga mjög erfitt með að ná endum saman. Sama hlutfall er 3 prósent í Þýzkalandi, 4 prósent í Frakklandi, og 6 prósent á Bretlandi 2010. Hlutfallið er hærra en hér heima í aðeins þrem Evrópulöndum utan gömlu kommúnistaríkjanna í Austur-Evrópu, og þau eru Spánn (14 prósent), Portúgal (20 prósent) og Grikkland (24 prósent). Þetta er ískaldur og ískyggilegur raunveruleikinn á bak við biðraðirnar fyrir utan Fjölskylduhjálpina og Mæðrastyrksnefnd og annað góðgerðarstarf m.a. á vegum Hjálparstofnunnar kirkjunnar og pólskra nunna.

Þessar tölur þurfa ekki að koma á óvart. Árið 2004, fjórum árum fyrir hrun, sagðist tíunda hvert heimili á Íslandi eiga mjög erfitt með að ná endum saman borið saman við 3-4 prósent annars staðar á Norðurlöndum. Takið eftir þessu: hér heima hefur þeim heimilum fjölgað, sem eiga mjög erfitt með að ná endum saman, en þeim hefur fækkað í Finnlandi, Noregi og Svíþjóð. Hér gætir áhrifa hrunsins á skuldabyrði heimilanna. Umtalsverðar fjárhagsþrengingar lágtekjufólks fyrir hrun (t.d. 2004) virðast stafa af þeirri stefnu íslenzkra stjórnvalda fram að hruni að flytja skattbyrði af herðum efnafólks yfir á herðar fólks með lágar tekjur og miðlungstekjur. Af þessu leiddi aukna misskiptingu svo sem algengt er í aðdraganda fjármálahruns. Heimskreppan 1929-1939 fylgdi í kjölfar aukins ójafnaðar í tekjuskiptingu í Bandaríkjunum. Sama á við um margar aðrar fjármálakreppur á fyrri tíð.

Hvert er orsakasamhengið? Er aukin misskipting sjálfstæður kreppuvaldur? Varla. Hitt virðist líklegra, að aukin misskipting og fjármálakreppur eigi sér sameiginlega undirrót eins og t.d. rangsleitna stjórnarstefnu, sem mylur undir auðmenn á kostnað venjulegs fólks, svo að auðmennirnir kunna sér ekki læti og keyra bankana í kaf líkt og gerðist hér heima og víðar.

Þegar heimilin voru spurð, hvort þau geti mætt óvæntum útgjöldum upp á 160.000 krónur 2011, sögðust 40 prósent heimilanna ekki geta það 2011 borið saman við 36 prósent 2004 og 30 prósent 2007. Vandinn er mestur meðal ungs fólks. Í aldurshópnum undir 30 ára aldri segjast nærri 60 prósent ekki geta mætta óvæntum útgjöldum. Þegar spurt var, hvort heimilin eigi erfitt, nokkuð erfitt eða mjög erfitt með að ná endum saman, sögðust nærri 63.000 heimili eiga í erfiðleikum 2011, eða meira en helmingur allra heimila í landinu. Þessar tölur skerpa myndina af misskiptingunni, sem Stefán Ólafsson prófessor hefur ásamt samverkamönnum sínum kortlagt og skýrt og einnig varað við mörg undangengin ár.

Stundum er sagt, að þjóðin hafi tapað áttum í aðdraganda hrunsins. Ekki renna tiltækar hagtölur stoðum undir þá fullyrðingu. Í Tíund, tímariti ríkisskattstjóra, er að finna tölur, sem sýna, að meira en helmingur allra heimila í landinu var í árslok 2008 svo að segja skuldlaus. Þetta fólk – meiri hluti þjóðarinnar – tók ekki þátt í darraðardansinum. Á hinn bóginn skulduðu 244 fjölskyldur 150 milljónir króna eða meira hver fyrir sig á núgildandi gengi krónunnar og áttu ekki fyrir skuldum. Um 1.400 fjölskyldur áttu eignir, sem námu 150 milljónum króna eða meira. Tæpur helmingur allra heimila átti eignir, sem nema 5 milljónum króna eða minna. Þessar tölur vitna um ójafna skiptingu eigna og skulda og ríma vel við skýrar vísbendingar um aukinn ójöfnuð í tekjuskiptingu ár eftir ár fram að hruni. Eftir hrun hefur misskiptingin minnkað, þar eð fjármagnstekjur efnafólks hrundu með bönkunum.