Að kyssast á fundum
Hollusta þeirra var innmúruð og ófrávíkjanleg. Þeir gengu á milli fyrirtækja og kröfðu þau um framlög í flokkssjóð og létu á sér skiljast, að ella skyldu menn hafa verra af eins og kom á daginn. Þeir skipuðu frændur og vini og sjálfa sig í embætti, sem aðrir voru hæfari til að gegna. Þeir gerðu sérstaka eftirlaunasamninga við sjálfa sig með skraddarasaumuðum undanþágum frá almennum ákvæðum. Þeim fannst sjálfsagt, að skattarannsókn á meintum stjórnarandstæðingum gæti dregizt, meðan beðið væri heimkomu fjármálaráðherrans frá útlöndum. Þeir rökuðu saman fé, þótt þeir hefðu sumir aldrei unnið annars staðar en hjá Flokknum og ríkinu. Þeir kysstust á fundum og gættu þess að skilja ekki eftir sig fingraför. Blöðin þeirra sögðu ekki orð.
Þannig gengu hlutirnir fyrir sig í Kristilega demókrataflokknum, sem réð lögum og lofum á Ítalíu frá 1948 til 1992. Þessi sterka staða flokksins stafaði m.a. af því, að stjórnarandstaðan í landinu var handónýt, því að stærsti flokkurinn á þeim væng var kommúnistaflokkur og hafði svo vitlausa stefnuskrá, að þar stóð varla steinn yfir steini. Þess vegna gátu kristilegir demókratar makað krókinn í 44 ár, enda létu þeir mola og mola hrjóta af borðum sínum til stjórnarandstöðuflokkanna. Það styrkti einnig stöðu stjórnarinnar, að Ítalíu vegnaði að ýmsu leyti vel þessi ár í efnahagslegu tilliti þrátt fyrir alla spillinguna. Landið var fagurt og frítt.
En allt tekur enda. Spillingin í röðum kristilegra demókrata vakti smám saman áhuga rithöfunda og annarra, sem báru skyn á listrænt ívaf hennar og skrifuðu bækur um hana og bjuggu til bíómyndir og náðu þannig til fólks, sem hafði lítinn áhuga á stjórnmálum. Fjöldi fólks var frábitinn stjórnmálum vegna þess, að stjórnkerfi Ítalíu – þingið, stjórnin, dómstólarnir o.s.frv. – naut svo lítillar virðingar meðal almennings. Nema seðlabankinn var hafinn yfir spillinguna öll þessi ár og naut virðingar, en nú er seðlabankastjórinn ítalski flæktur í spillingarmál og þarf að hlýða á háværar kröfur úr öllum áttum um afsögn og sæta opinberri rannsókn. Hann situr þó sem fastast, rúinn trausti. Hvað um það, bækurnar og bíómyndirnar um spillinguna gerðu gagn. Þær stuðluðu að því að opna augu margra Ítala fyrir því, hvers konar flokkur Kristilegi demókrataflokkurinn var í raun og veru. Leikhúsið lét sitt ekki eftir liggja: Dario Fo, leikskáldið, fékk Nóbelsverðlaun 1997 fyrir að draga þá sundur og saman í háði. Hvaðan skyldi Kolkrabbinn vera kominn inn í íslenzkt mál? – nafngiftin, sem festist á svipstundu við fyrirtæki Sjálfstæðisflokksins hér heima. Beint úr ítalskri bíómynd.
Dagblöðin á Ítalíu og aðrir fjölmiðlar létu sér fátt um finnast, þar til spillingarmálin fóru fyrir dóm. Þá gátu blöðin ekki þagað lengur. Réttarhöldin, sem gengu undir nafninu Hreinar hendur, hófust 1992 og stóðu í tvö ár. Þar var flett ofan af ýmislegu misferli. Sex þúsund manns, þar á meðal hundruð stjórnmálamanna, dómara og athafnamanna, máttu sæta rannsóknum og handtökum fyrir mútuþægni og greiðvikni í skiptum fyrir mútur. Dómskerfið virkaði. Fjöldi sektardóma var kveðinn upp. Réttarhöldin gengu svo nærri Kristilega demókrataflokknum, að hann var leystur upp 1994. Gullkistuvörður flokksins sætti rannsókn eða ákæru í 72 málum. Bettino Craxi forsætisráðherra, sem var að vísu úr flokki sósíalista, hrökklaðist í útlegð til Túnis og dó þar. Fjöldi sakborninga slapp þó við refsingu í skjóli fyrningarákvæða, enda var ýmsum brögðum beitt til að tefja framgang réttvísinnar – og tókst.
Tók betra við? Skiptir það máli? Margir Ítalar eru nú þeirrar skoðunar, að Silvio Berlusconi forsætisráðherra, einkavinur Craxis og kristilegra demókrata, sé af sama sauðahúsi og þeir og muni að endingu hljóta dóm fyrir ýmsar sakir, sem á hann hafa verið bornar, endist honum aldur til. Við skulum óska honum langra lífdaga. Réttarhöldin yfir kristilegum demókrötum og vinum þeirra 1992-94 voru nauðsynleg. Án dóms og laga væri saga landsins eftir síðari heimsstyrjöldina ekki rétt skráð.