Háskólaútgáfan
2. jan, 1998

Að byggja land

Sjónvarpsþáttaröðin Að byggja land var endurgefin út á DVD-diski 17. júní 2011 í tilefni dagsins með enskum texta. Hún kom fyrst út á bók og bandi hjá Háskólaútgáfunni í desember 1998. Þættirnir fjalla um hagstjórnarhugmyndasögu Íslendinga á síðustu öld og þessari í gegn um samfellda frásögn af þrem mönnum, þeim Jóni SigurðssyniEinari Benediktssyni og Halldóri Laxness.

Fyrsti þáttur ber heitið Brautryðjandinn. Þar er Jóni Sigurðssyni forseta lýst sem einörðum málsvara frjálsra viðskipta og erlendrar fjárfestingar á Íslandi: sem hagfrelsishetju, fyrsta hagfræðingi Íslands. Hann átti undir högg að sækja í innanlandsmálum, svo að forustu hans og hugmyndum var hafnað í hverju málinu á eftir öðru.

Annar þáttur heitir Ofurhuginn og fjallar um Einar Benediktsson skáld. Hann kynnti hugmyndir sínar um fjárhags- og framfaramál þjóðarinnar í beinu framhaldi af frelsisbaráttu Jóns forseta, en viðhorf hans urðu undir í orrahríð stjórnmálanna á fyrri hluta þessarar aldar. Ísland tók þá aðra stefnu en þeir Jón og Einar höfðu markað.

Þriðji þáttur heitir Gagnrýnandinn. Þar er því lýst, hvernig Halldór Laxness rithöfundur brást við haftastefnu stjórnvalda á fimmta áratug aldarinnar. Rökum hans fyrir frjálsum viðskiptum, skynsamlegri landbúnaðarstefnu og öðrum efnahagsumbótum er lýst til að kasta ljósi á efnahags- og þjóðlífið á Íslandi allt fram á okkar daga.

Inn í frásögnina er fléttað ýmsu efnahags- og menningarsögulegu efni, sem varðar þessa þrjá menn og hagstjórnarhugmyndir þeirra.

Pálmi Gestsson fer með hlutverk þremenninganna. Vignir Jóhannsson býr til leikmynd. Karl R. Lilliendahl kvikmyndaði. Jón Egill Bergþórsson stjórnaði gerð myndanna. Höfundur textahandrits, framleiðandi og þulur er Þorvaldur Gylfason.

Þættirnir voru frumsýndir í Sjónvarpinu í nóvember 1998 og endursýndir í desember 1998. Þeir voru sýndir í færeyska sjónvarpinu um páskana 2005 (föstudaginn langa, páskadag og annan í páskum). Þeir voru endursýndir á Hringbraut á nýársdag 2018.

Dómar um þættina eftir Eggert Þór Bernharðsson sagnfræðing birtust í Morgunblaðinu 11., 18. og 25. nóvember 1998. Sjá einnig dóm eftir Ólaf H. Torfason kvikmyndagagnrýnanda í tímariti kvikmyndagerðarmanna, Land og synir, maí/júní 1999.