11. nóv, 1998

Gagnrýnandinn

Halldór Kiljan Laxness (1902-1998). Rithöfundur, ólst upp að Laxnesi í Mosfellssveit og kenndi sig við þann stað. Hann var langdvölum erlendis, bæði austan hafs og vestan, og fór víða, en frá árinu 1945 átti hann fast heimili að Gljúfrasteini í Mosfellssveit, þótt hann væri áfram með annan fótinn í útlöndum. Hann hlaut bókmenntaverðlaun Nóbels árið 1955. Halldór samdi fyrstu bók sína undir nafninu Halldór frá Laxnesi, en tók síðar upp nafnið Halldór Kiljan Laxness, hann hætti að nota Kiljansnafnið á 7. áratugnum og tók það síðan upp aftur, áður en hann lézt. Hann starfaði einnig að menningarmálum og stjórnmálum og skilur eftir sig langt mál um þau efni. Ritgerðir hans um heima og geima eru meiri að vöxtum en skáldsögurnar, og eru þær flestar varðveittar í ritgerðasöfnum, þar á meðal Alþýðubókin (1929), Dagleið á fjöllum (1937), Vettvángur dagsins (1942), Sjálfsagðir hlutir (1946), Reisubókarkorn (1950), Dagur í senn (1955), Gjörníngabók (1959), Upphaf mannúðarstefnu (1965), Íslendingaspjall (1967), Yfirskygðir staðir (1971), Þjóðhátíðarrolla (1974), Seiseijú, mikil ósköp (1977), Við heygarðshornið (1981), Og árin líða (1984) og Af menníngarástandi (1986). Hann skrifaði einnig ferðabækurnar Í austurvegi (1933) og Gerska ævintýrið (1938) og samtalsbókina Skeggræður í gegnum tíðina ásamt Matthíasi Johannessen (1972). Halldór þýddi skáldsögur eftir Gunnar Gunnarsson (Fjallkirkjan, Frá Blindhúsum og Vikivaki), Ernest Hemingway (Vopnin kvödd) og Voltaire (Birtíngur), auk þess sem hann bjó ýmis fornrit til prentunar. Sögur hans hafa verið þýddar á fjölmörg tungumál í flestum heimsálfum, og gerðar hafa verið kvikmyndir eftir skáldsögunum Salka Valka (sænsk), Brekkukotsannáll (þýzk), Atómstöðin og Kristnihald undir Jökli. Árið 1930 gaf hann út Kvæðakver og birtist þar sem eitt ljóðrænasta og skemmtilegasta skáld landsins.