DV
13. okt, 2012

Að breyta nýrri stjórnarskrá

Alþingi boðaði fulltrúa úr Stjórnlagaráði til fjögurra daga fundar í marz 2012 til að fjalla um nokkrar spurningar og ábendingar Alþingis.

Ein spurningin snerist um ákvæði frumvarpsins þess efnis, að 5/6 hlutar þingmanna gætu breytt stjórnarskránni á eigin spýtur án þess að bera breytinguna undir þjóðaratkvæði. Í greinargerð frumvarpsins var því lýst, að hugsunin á bak við ákvæðið var sú, að sumar breytingar á stjórnarskránni séu svo smávægilegar (t.d. breyting á nafni þingnefndar, sem tilgreind er í stjórnarskránni), að ástæðulaust væri að halda sérstaka þjóðaratkvæðagreiðslu þess vegna. Í þessu fólst sú hugsun, að 1/6 hluta þingmanna hlyti að vera treystandi til að misnota ekki heimildina til að smygla efnislegum breytingum inn í stjórnarskrána án þess að spyrja þjóðina. Sumir töldu, að hér væri öllu óhætt, en aðrir töldu, að hér væri tekin of mikil áhætta.

Í erindi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar til Stjórnlagaráðs í marz 2012 var álitamálinu lýst svo:

„Í 113. gr. er fjallað um breytingar á stjórnarskrá. Talsverðar athugasemdir hafa verið gerðar við að Alþingi geti ákveðið að fella niður þjóðaratkvæðagreiðslu um breytingar á stjórnarskrá. Í greinargerð segir að ákvæðinu sé einungis ætlað að taka til „minniháttar“ breytinga. Þetta getur valdið stjórnskipulegum vafa um gildi breytinga á stjórnarskrá og þeirrar lagasetningar sem á henni byggist. Telur ráðið mögulegt að skýra þetta ákvæði betur í texta ákvæðisins eða telur það hyggilegra að skipa málum þannig að allar breytingar á stjórnarskrá þurfi samþykki í þjóðaratkvæðagreiðslu?“

Svar fulltrúa úr Stjórnlagaráði til Alþingis hljóðaði svo:

„Viðhorf og afstaða fundar fulltrúa í Stjórnlagaráði
Stjórnlagaráð gerði í frumvarpi sínu ráð fyrir þeim möguleika að þjóðaratkvæðagreiðslu yrði sleppt þegar um væri að ræða minniháttar og nánast óumdeildar breytingar á stjórnarskrá. Í greinargerð með ákvæðinu kemur m.a. fram að möguleiki á einfaldri meðferð var settur inn með það í huga að hugsanlega þyrfti að gera smávægilegar breytingar á stjórnarskrá t.d. vegna þjóðréttarsamninga. Það voru ekki síst hagkvæmnissjónarmið sem réðu niðurstöðu ráðsins en þannig væri hægt að komast hjá fjárútlátum vegna þjóðaratkvæðagreiðslu þegar stór meirihluti þings væri hlynntur minniháttar breytingum á stjórnarskrá.
Kjósi Alþingi að fella út 2. mgr. 113. gr. frumvarpsins um heimild 5/6 hluta þingmanna til að breyta stjórnarskrá og tryggja þjóðinni þannig ávallt beina aðkomu að öllum breytingum á stjórnarskrá mun það ekki raska samhengi í frumvarpi Stjórnlagaráðs.“

Í þessu svari felst, að fulltrúar í Stjórnlagaráði féllust á að fella burt ákvæðið um, að 5/6 hlutar þingmanna gætu breytt stjórnarskránni á eigin spýtur án þess að bera breytinguna undir þjóðaratkvæði.

113. gr. frumvarps Stjórnlagaráðs myndi þá hljóða svo:

„Þegar Alþingi hefur samþykkt frumvarp til breytingar á stjórnarskrá skal það borið undir atkvæði allra kosningabærra manna í landinu til samþykktar eða synjunar. Atkvæðagreiðslan skal fara fram í fyrsta lagi einum mánuði og í síðasta lagi þremur mánuðum eftir samþykkt frumvarpsins á Alþingi.“

Alþingi getur því ákveðið að hafa hvorn háttinn sem er á þessu ákvæði frumvarpsins við lokaafgreiðslu málsins á Alþingi að loknu þjóðaratkvæði án þess að víkja frá frumvarpi Stjórnlagaráðs og þeim breytingum á frumvarpinu, sem fulltrúar úr ráðinu féllust á fyrir sína parta á fjögurra daga fundinum, sem Alþingi kvaddi saman í marz 2012. Þær breytingar eru ekki stórvægilegar og raska að engu verulegu ráði efni frumvarpsins eða innbyrðis samhengi þess, en þær veita Alþingi svigrúm til að velja milli ólíkra gerða nokkurra ákvæða við lokafrágang frumvarpsins. Ég legg slíkar breytingar að jöfnu við orðalagsbreytingar.

Í þessu ljósi þarf að skoða orðalag fyrstu spurningarinnar 20. október:

„Vilt þú að tillögur stjórnlagaráðs verði lagðar til grundvallar frumvarpi að nýrri stjórnarskrá?“