Fréttablaðið
16. ágú, 2007

Ábyrgðarleysi sem lífsstíll

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu birti fróðlega grein í Morgunblaðinu 13. ágúst. Þar segir: „Tölur upplýsinga- og áætlanadeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu sýna, að ofbeldisbrotum á höfuðborgarsvæðinu hefur fækkað jafnt og þétt á undanförnum árum.“ Ennfremur segir í grein lögreglustjórans: „Að sama skapi sýna þessar tölur að alvarlegum ofbeldisbrotum hefur fækkað umtalsvert á fyrstu sex mánuðum ársins samanborið við sama tímabil í fyrra.“ Með greininni birtir lögreglustjórinn auk annars ítarefnis mynd, sem kollvarpar þessum fullyrðingum hans. Myndin sýnir, að kærðar líkamsárásir á fyrri hluta þessa árs voru fleiri – já, fleiri! – en þær voru 1998 og 2002, bæði í 101 Reykjavík og öðrum borgarhlutum. Myndin sýnir einnig berlega, að kærðum líkamsárásum í skilningi 217. greinar hegningarlaga hefur fjölgað um meira en helming síðan í fyrra; samanburðurinn á við fyrstu sex mánuði beggja ára. Það er að vísu rétt hjá lögreglustjóra, að meiri háttar líkamsárásum í skilningi 218. greinar hegningarlaga hefur fækkað frá sama tíma í fyrra, en þær voru eigi að síður tvöfalt fleiri fyrstu sex mánuði þessa árs en á sama tíma 1998.

Lögreglustjórinn segir í grein sinni: „Fjöldi lögreglumanna á vakt um hverja helgi er að minnsta kosti tvöfaldur miðað við það sem venjulegt er.“ Með þessum orðum staðfestir hann fyrir sína parta það, sem allir vita og margir hafa sett út á: að lögreglan er nánast ósýnileg í miðborg Reykjavíkur á síðkvöldum um helgar. Þess vegna meðal annars eru ofbeldisverkin eins yfirgengileg og aðalvarðstjóri hjá lögreglunni lýsti þeim í viðtali við DV 30. júlí: „Í dag linna menn ekki látum fyrr en fórnarlambið er annaðhvort meðvitundarlaust eða verulega illa farið.“

Fyrir viku lýsti ég að gefnu tilefni eftir auknu fé handa lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, svo að hún geti staðið tryggari vörð um eyru, líf og limi borgarbúa og stemmt stigu fyrir grófu ofbeldi, sem saklausir vegfarendur verða fyrir flestar helgar og stundum einnig í miðri viku, á öllum tímum sólarhrings. Ætla hefði mátt, að lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu tæki fagnandi undir svo frómar óskir úr óvandabundinni átt, en það gerði hann ekki í grein sinni í Morgunblaðinu. Hann reynir heldur að varpa ábyrgðinni á ófremdarástandinu í löggæzlumálum höfuðborgarinnar yfir á aðra. Hann segir berum orðum: „Þar er ábyrgð borgaryfirvalda og rekstraraðila veitinga- og skemmtistaða mest.“ Og hann bætir við eins og til málamynda: „Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu leikur þar einnig hlutverk …“, en það virðist vera aukahlutverk í augum lögreglustjórans.

Í grein minni á þessum stað fyrir viku lýsti ég menningarástandi löggæzlumálanna svo, að þar séu allir kallaðir til ábyrgðar, svo að enginn beri ábyrgð. Þetta var ítalskt grín og átti að vera auðskilið. Þar suður frá var stundum sagt, þegar vitleysan og spillingin keyrðu um þverbak í stjórnartíð kristilegra demókrata: „Nú breytum við öllu, svo að ekkert breytist.“ Og þá kemst ég að því fyrir einskæra tilviljun, að dómsmálaráðherra hafði komizt að svo felldri niðurstöðu á vefsetri sínu tveim dögum fyrr: „Besta leiðin til að auka næturöryggi í miðborg Reykjavíkur er að kalla alla til ábyrgðar.“ Í þessi orð ráðherrans vitnar lögreglustjórinn með velþóknun, en hann var einmitt starfsmaður dómsmálaráðuneytisins þar til fyrir skömmu. Sem sagt: það er opinber ásetningur dómsmálaráðuneytisins og lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, að allir – það er að segja enginn! – beri ábyrgð á öryggi borgaranna. Er hægt að hugsa sér skýrari skilaboð til ofbeldismanna? Er ekki kominn tími til að setja þessum mönnum stólinn fyrir dyrnar?

Í grein sinni í Morgunblaðinu ber lögreglustjórinn sig aumlega undan umræðunni um öryggismál íbúa höfuðborgarsvæðisins og gesta þeirra og segir: „Þar hafa ekki heldur verið kynntar raunhæfar tillögur um lausnir á þeim vanda sem við er að fást.“ Ég er á öðru máli. Ég lagði það góðfúslega til fyrir viku, að dómsmálaráðherra yrði ásamt yfirstjórn lögreglunnar kallaður til ábyrgðar á ítrekuðum ofbeldisverkum í höfuðborginni og ábyrgir menn, sem borgararnir geta treyst, taki við yfirstjórn dómsmála og efli löggæzlu. Sú tillaga þætti ekki bara fyllilega raunhæf, heldur beinlínis sjálfsögð í öðrum löndum, þar sem stjórnmálamönnum og embættismönnum er gert að axla ábyrgð á alvarlegum misbrestum í málaflokkum, sem þeir stjórna. Ég hef spurt þingmenn um málið. Þeir segja mér, að það taki því ekki að flytja vantraust á dómsmálaráðherrann, því það sé löngu ákveðið, að hann verði innan tíðar gerður að sendiherra. Þannig sæta menn ábyrgð á Íslandi.