Aukinn ójöfnuður á Íslandi 1993-2005
Mynd 105. Það er saga á bak við þessa mynd. Þegar kvótakerfið var tekið upp 1984 með endurgjaldslausri úthlutun aflakvóta til útvegsmanna, vöruðu margir við því, að þarna væri að nauðsynjalausu verið að stíga stórt skref í átt til aukins ójafnaðar á Íslandi. Rökin gegn endurgjaldslausri úthlutun og þá um leið með veiðigjaldi snerust bæði um hagkvæmni og réttlæti og tvinnuðust saman, því að ranglæti hneigist til að rýra hagkvæmni eftir ýmsum leiðum, meðal annars með því að tefla auði og völdum upp í hendur óverðugra og deyfa réttlætiskennd almennings, svo að alls kyns ójafnaðarmenn ganga þá á lagið. Með árunum tók að bera á auknum ójöfnuði í skiptingu auðs og tekna, svo sem búast mátti við, og þá brá svo við, að Hagstofa Íslands, sem heyrir beint undir forsætisráðuneytið, hafði alltaf eitthvað annað við tímann við gera en að reikna og leggja fram alþjóðlega samanburðarhæfar staðtölur um ójöfnuð í tekjuskiptingu hér innan lands og fékk þó margar einkalegar og opinberar áskoranir um að leggja fram slíka reikninga til að greiða fyrir málefnalegri umræðu um brýnt mál, sem varðar alla landsmenn. Ísland er eina Evrópulandið eða næstum eina, sem engar tekjurskiptingartölur eru til um í skýrslum Alþjóðabankans og Sameinuðu þjóðanna. Ekki þar fyrir, að einkaaðilum eins og til dæmis mér sjálfum sé um megn að gera þessa útreikninga, alls ekki. Nemendur mínir í Háskóla Íslands gætu einnig gert þá með léttum leik. Kjarni málsins er sá, að stjórnvöldum ber skylda til að safna og dreifa upplýsingum um helztu þætti efnahagsmála og þá um leið um þróun tekjuskiptingarinnar. Þess vegna dugði mér ekki fyrir tuttugu árum að slá sjálfur eins og ég gerði ár fram af ári máli á kostnaðinn, sem búverndarstefnan lagði og leggur enn á neytendur og skattgreiðendur, heldur linnti ég ekki látunum fyrr en stjórnvöld gerðu þetta loksins sjálf og létu alþjóðastofnunum tölurnar í té, svo að þær birtast nú með árvissu millibili í skýrslum OECD. Opinberar tölur verða ekki heldur vefengdar í hráskinnsleik stjórnmálanna með sama hætti og ýmsir stjórnmálamenn leyfa sér stundum að vefengja réttar upplýsingar frá einkaaðilum. Þar kom, að ég missti þolinmæðina gagnvart Hagstofunni í tekjuskiptingarmálinu og sneri mér heldur til Ríkisskattstjóra vorið 2006, og þar var erindi mínu vel tekið og ljúfmannlega (það vantaði ekki heldur á Hagstofunni), og nú liggja tölur embættisins fyrir og birtast á myndinni hér að ofan. Hún sýnir, svo að ekki verður um villzt, að áhyggjur manna af auknum ójöfnuði reyndust eiga við gild rök að styðjast: ójöfnuður á Íslandi hefur aukizt mikið ár fram af ári síðan 1993. Myndin sýnir Gini-stuðla fyrst miðað við heildartekjur hjóna og sambýlisfólks, áður en skattar eru af þeim greiddir og bætur þegnar (rauðu súlurnar) og heildartekjur eftir skatta og bætur, það er að greiddum sköttum og þegnum bótum (gulu súlurnar). Gini-stuðullinn er viðtekinn mælikvarði á ójöfnuð í skiptingu tekna milli manna og er reiknaður úr gögnum um tekjur manna, yfirleitt skv. skattframtali, og tekur í minnsta lagi gildið 0, ef allir hafa sömu tekjur (fullkominn jöfnuður), og í mesta lagi 100, ef allar þjóðartekjurnar falla einum manni í skaut (fullkominn ójöfnuður). Ef horft er til heimsins alls, nær Gini-stuðullinn frá tæplega 25 í Danmörku, þar sem tekjuskiptingin er nú jöfnust, upp í tæplega 71 í Namibíu, þar sem hún er nú talin ójöfnust. Gulu stuðlarnir á myndinni eiga við ráðstöfunartekjur með fjármagnstekjum skv. skattframtali ásamt barna- og vaxtabótum að frádregnum tekju-, eignar- og fjármagnstekjuskatti. Hér eru jöfnunaráhrif skattlagningar og almannatrygginga því tekin með í reikninginn. Takið eftir því, að hæðarmunurinn á rauðu og gulu súlunum, sem lýsir jöfnunaráhrifum skatta- og tryggingakerfisins, hefur minnkað jafnt og þétt allt tímabilið. Hér hafa ójafnaðarmenn bersýnilega verið að verki: myndin staðfestir, að breytingar, sem gerðar hafa verið á skattkerfinu og tryggingakerfinu undangengin ár, hafa aukið ójöfnuðinn í tekjuskiptingunni. Myndin sýnir, að Gini-stuðullinn hefur hækkað um eitt stig á ári og vel það að jafnaði síðan 1993. Gini-stuðullinn hefur því hækkað um fimmtán stig – það gerir næstum tvöföldun! – á aðeins tólf árum. Mér er ekki kunnugt um, að svo skyndileg umskipti í tekjuskiptingu hafi nokkurn tímann átt sér stað í nálægum löndum. Fimmtán stiga munur á Gini-stuðlum milli landa svarar til munarins á jöfnuði í tekjuskiptingu í Noregi og Bandaríkjunum (sjá mynd 103). Það yrðu væntanlega uppi fótur og fit í Noregi, ef tekjuskiptingin þar í landi hefði á röskum áratug færzt í sama horf og í Bandaríkjunum, án þess að frá því væri greint á áberandi stað í opinberum hagskýrslum. Sjá meira um málið í greininni Bað einhver um aukinn ójöfnuð?, en þar eru tölurnar um Ísland nokkru eldri eins og á mynd 102 og sennilega lakari en tölur Ríkisskattstjóra á myndinni að ofan.