Vísbending
7. okt, 2005

Bað einhver um aukinn ójöfnuð?

Í svari fjármálaráðherra við fyrirspurn Sigurjóns Þórðarsonar alþingismanns á Alþingi fyrir nokkru kom fram, að ójöfnuður á Íslandi hefur aukizt til mikilla muna undangengin ár. Tölunum, sem fjármálaráðherra birti með svari sínu, er lýst á mynd 1. Þar er sýndur Gini-stuðull, sem svo er nefndur, en hann er viðtekinn mælikvarði á ójöfnuð í skiptingu tekna milli manna. Áður en við leggjum mat á tölurnar á mynd 1, þurfum við fyrst að kynnast kvarðanum, svo að ekkert fari á milli mála.

Gini-stuðullinn

Corrado Gini (1884-1965) var Ítali og birti um sína daga meira en 70 bækur og 700 ritgerðir um ýmsar hliðar mannvísinda og er nú einkum þekktur af stuðlinum, sem við hann er kenndur. Stuðullinn er reiknaður úr gögnum um tekjur manna, yfirleitt skv. skattframtali, og tekur í minnsta lagi gildið 0, ef allir hafa sömu tekjur (fullkominn jöfnuður), og í mesta lagi 100, ef allar þjóðartekjurnar falla einum manni í skaut (fullkominn ójöfnuður). Ef horft er til heimsins alls, nær Gini-stuðullinn frá tæplega 25 í Danmörku, þar sem tekjuskiptingin er nú jöfnust, upp í tæplega 71 í Namibíu, þar sem hún er nú ójöfnust. Simbabve, Síle, Suður-Afríka og Brasilía eru meðal þeirra landa, þar sem ójöfnuður í tekjuskiptingu er mestur: Gini-stuðullinn í þessum löndum leikur á bilinu 57 til 59.

Alþjóðlegur samanburður á Gini-stuðlum er m.a. þeim vandkvæðum bundinn, að sums staðar lýsir hann skiptingu tekna milli manna án tillits til jöfnunaráhrifa skatta og almannatrygginga og annars staðar lýsir hann skiptingu ráðstöfunartekna eða neyzlu, svo að jöfnunaráhrif skatta og almannatrygginga eru þá tekin með í reikninginn. Alþjóðabankinn og aðrar alþjóðastofnanir reyna eftir föngum að samræma tölurnar og gera þær samanburðarhæfar milli landa og reyna jafnframt með tímanum að afla tekjuskiptingartalna um fleiri og fleiri lönd. Upplýsingar um tekjuskiptingu um heiminn hafa því tekið talsverðum framförum undangengin ár. Ísland er nú eina landið á OECD-svæðinu auk Lúxemborgar, sem hirðir ekki um að halda til haga tölum um tekjuskiptingu og telja þær fram í skýrslur alþjóðastofnana. Þetta er ekki nýtt háttalag: tölum um búverndarkostnað hér heima var haldið frá OECD árum saman, þar til stjórnvöld töldu sig ekki lengur geta staðið gegn góðfúslegum áskorunum um að birta þær. Það væri nógu slæmt að liggja á Gini-stuðlunum, ef allt væri með kyrrum kjörum, en það er afleitt að geyma svo mikilvægar staðtölur bak við luktar dyr í ljósi þess, að tiltækar upplýsingar um tekjur manna sýna stóraukinn ójöfnuð síðustu ár – meiri og skyndilegri aukningu ójafnaðar en dæmi eru um frá nálægum löndum.

Umskipti síðan 1995

Skoðum nú tölurnar á mynd 1. Þær eiga við ráðstöfunartekjur hjóna og sambýlisfólks með fjármagnstekjum skv. skattframtali ásamt barna- og vaxtabótum að frádregnum tekju-, eignar- og fjármagnstekjuskatti. Hér eru jöfnunaráhrif skattlagningar og almannatrygginga því tekin með í reikninginn. Talan fyrir 2004 er reiknuð með sömu aðferð og fyrri tölur fjármálaráðuneytisins. Myndin sýnir, að Gini-stuðullinn hefur hækkað um eitt stig á ári að jafnaði síðan 1995 og vel það. Gini-stuðullinn hefur því hækkað um tíu stig – það gerir helmingshækkun! – á aðeins níu árum. Mér er ekki kunnugt um, að svo skyndileg umskipti í tekjuskiptingu hafi nokkurn tímann átt sér stað í nálægum löndum. Tíu stiga munur á Gini-stuðlum milli landa svarar til munarins á jöfnuði í tekjuskiptingu í Noregi og Bretlandi (sjá mynd 2, hún sýnir nýjustu Gini-stuðla, sem völ er á, frá ýmsum árum á bilinu 1990-2000). Það yrðu væntanlega uppi fótur og fit í Noregi, ef tekjuskiptingin þar í landi hefði á tæpum áratug færzt í sama horf og á Bretlandi, án þess að frá því væri greint á áberandi stað í opinberum hagskýrslum.

Það bregður gagnlegri birtu á Gini-stuðlana á myndum 1 og 2 að bera þá saman við annan grófari, auðreiknanlegri og auðskiljanlegri kvarða á tekjuskiptingu milli manna, 20/20-hlutfallið. Með því er átt við tekjuhlutfall ríkasta og fátækasta fimmtungs mannfjöldans. Ef 20/20-hlutfallið er þrír, sem felur í sér þrefaldan mun á tekjum ríkasta og fátækasta fimmtungs mannfjöldans, þá er Gini-stuðullinn 25 eins og í Danmörku, Japan, Belgíu, Svíþjóð og Noregi. Ef 20/20-hlutfallið er fjórir, sem þýðir fjórfaldan mun á tekjum ríkasta og fátækasta fimmtungsins, þá er Gini-stuðullinn 30 líkt og í Þýzkalandi, Austurríki, Íslandi, Hollandi og Kóreu. Sé 20/20-hlutfallið sex, sem þýðir sexfaldan mun á tekjum ríkasta og fátækasta fimmtungsins, þá er Gini-stuðullinn 35 líkt og í Ástralíu, Grikklandi, Írlandi, Ítalíu og Bretlandi. Og sé 20/20-hlutfallið átta, sem þýðir áttfaldan mun á tekjum ríkasta og fátækasta fimmtungsins, þá er Gini-stuðullinn 40 eins og í Bandaríkjunum. Reglan er þessi: tíu stiga hækkun Gini-stuðulsins helzt nokkurn veginn í hendur við tvöföldun 20/20 hlutfallsins. Rétt er þó að hafa það hugfast, að 20/20-hlutfallið er nálgun og breytist t.d. ekki, þótt tekjur færist til innan fimmtunganna tveggja, en við það myndi Gini-stuðullinn þó breytast.

Samt er hægt að ráða tekjuhlutfall ríkasta og fátækasta fimmtungs mannfjöldans nokkurn veginn beint af Gini-stuðlinum og öfugt. Hlutfall ráðstöfunartekna ríkasta og fátækasta fimmtungs mannfjöldans á Íslandi 1995 var 2,5 og svarar til Gini-stuðulsins 21. Ráðstöfunartekjuhlutfall ríkasta og fátækasta fimmtungs mannfjöldans 2004 var komið upp í 4,6 – og má af því ráða, hversu dregið hefur sundur með ríkum og fátækum undangenginn áratug. Þessi umskipti hafa átt sér stað flestum að óvörum, enda hefur aðgengilegum upplýsingum um tekjuskiptingu ekki verið til að dreifa. Haldi Gini-stuðullinn hér heima áfram að hækka um heilt stig á hverju ári eins og hann hefur gert síðan 1995, þá verður hann með sama áframhaldi kominn upp fyrir Gini-stuðul Bandaríkjanna eftir ellefu ár, og þar er ójöfnuður í tekjuskiptingu nú meiri en annars staðar á OECD-svæðinu eins og jafnan fyrr. Þessi þróun er umhugsunarefni m.a. vegna þess, að nýjar rannsóknir hagfræðinga benda til þess, að ójöfnuður geti dregið úr hagvexti til langs tíma litið.[1]

Betri skýrslur, takk

Meðan hún var og hét, reiknaði Þjóðhagsstofnun Gini-stuðla fyrir Ísland, en nú er hún ekki lengur til, svo að handhægar upplýsingar um þróun tekjuskiptingar á Íslandi er hvergi að finna í opinberum skýrslum. Það er því fengur í fyrirspurn Sigurjóns Þórðarsonar á Alþingi og í svari fjármálaráðherra við henni, enda þótt ráðherra hirti ekki um að svara þeim hluta fyrirspurnarinnar, sem snerist um væntanleg áhrif nýlegra skattalagabreytinga á tekjuskiptingu. Þegar Þjóðhagsstofnun hélt þessum tekjuskiptingartölum til haga, sýndu þær, að tekjuskipting á Íslandi var með jafnasta móti á heimsvísu, jafnari en annars staðar á Norðurlöndum, ef eitthvað var. Svar fjármálaráðherra við fyrirspurn þingmannsins sýnir þó, að svo er ekki lengur. Nú er tekjuskiptingin á Íslandi orðin mun ójafnari en annars staðar um Norðurlönd, eins og fram kemur á mynd 2 og einnig í athugunum Stefáns Ólafssonar prófessors (Íslenska leiðin, 1999) og nokkrum prýðilegum blaðagreinum Guðmundar Arnar Jónssonar verkfræðings. Ójöfnuðurinn hér virðist enn fara vaxandi. Það nær engri átt, að þingmenn stjórnarandstöðunnar þurfi að toga svo mikilvægar upplýsingar með töngum út úr stjórnvöldum. Þessar upplýsingar þurfa að vera öllum aðgengilegar í opinberum skýrslum.

Það er því brýnt, að Hagstofan eða fjármálaráðuneytið reikni og birti tölur um tekjuskiptingu aftur í tímann bæði með jöfnunaráhrifum skatta- og tryggingakerfisins og án þeirra til samanburðar. Stjórnvöld þurfa jafnframt að sjá til þess, að tölurnar um tekjuskiptingu og þróun hennar gegnum tímann séu aðgengilegar í hagskýrslum og nái inn í alþjóðleg gagnasöfn, t.d. hjá Alþjóðabankanum og Sameinuðu þjóðunum. Þessu verki þarf síðan að halda áfram, svo að fólkið í landinu geti eftirleiðis án mikillar fyrirhafnar fylgzt sem gerst með því, sem er að gerast í þjóðfélaginu.

[1] Sjá t.d. ritgerð höfundar ,,Menntun, jöfnuður og hagvöxtur,“ sem birtist í Vísbendingu í þrem hlutum 8., 22. og 29. júní 2001. Ritgerðin er endurprentuð í Framtíðin er annað land (Háskólaútgáfan, Reykjavík, 2001, 24. kafli).