Veiran: Um hvað stendur stríðið?
Baráttunni við covid-19-veiruna má lýsa á einni einfaldri mynd. Bláa kúrfan lýsir ferli veikinnar ef ekkert er að gert. Fjöldi smita fer þá upp fyrir burðarþol heilbrigðiskerfisins (gráa brotna línan) og helzt þar um skeið og á meðan svo er fær fjöldi sjúklinga ekki þá aðhlynningu sem þeir þurfa á að halda og margir láta þá lífið að þarflausu. Rauða kúrfan lýsir ferli veikinnar ef stjórnvöldum og almenningi tekst með samstilltu átaki (smitprófum, sóttkvíum, ferðahindrunum o.fl.) að hægja svo á faraldrinum að hann ofgeri ekki heilbrigðiskerfinu heldur haldi sér undir gráu línunni. Þá verður kúfurinn lægri og birtist síðar. Þetta snýst um að dreifa álaginu með almannahag og lýðheilsu að leiðarljósi.