Sagnfesta eða bókfesta?
Vinur minn einn segist hafa ráðið Einari Kárasyni rithöfundi frá því að reyna að skrifa Jónsbók með þeim rökum, að efniviðurinn væri svo margslunginn, að það væri ekki vinnandi vegur að ná utan um hann í sannsögulegu riti. Hann segist hafa sagt við Einar: Skrifaðu heldur skáldsögu, og þá nærðu betur utan um efnið og getur tekið þér frelsi, sem sannsöguleg efnistök veita þér ekki færi á. Ég skil þau svo þessi varnaðarorð úr munni manns, sem er öllum hnútum kunnugur í viðskiptalífi landsmanna marga áratugi aftur í tímann, að hann telji, að skáldsaga um Jón Ólafsson kaupsýslumann hefði í einhverjum skilningi getað orðið sannari og þá um leið gagnlegri en sú Jónsbók, sem birtist lesendum fyrir síðustu jól. Hér er hreyft við grundvallaratriði í sagnaritun þjóðar. Athugum málið.
Forfeður okkar og mæður litu svo á Íslendingasögur í sjö hundruð ár, að þær væru sannorðar frásagnir af raunverulegum atburðum og raunverulegu fólki af holdi og blóði: þetta er kjarninn í sagnfestukenningunni. Á ofanverðri 19. öld tefldi Konrad Maurer prófessor í München, virktavinur Jóns Sigurðssonar forseta og annarra Íslendinga, fyrstur manna fram þeirri djörfu hugmynd, að sögurnar bæri líklega heldur að skoða sem skáldverk en sagnfræði: óþekktir höfundar þeirra væru ekki annálaritarar, heldur skáld, enda bæru sögurnar ýmis einkenni skáldskapar frekar en skraufþurra annála, þótt þær styddust trúlega í ýmsum greinum við gömul munnmæli. Alls væri því óvíst, hvort Njáll á Bergþórshvoli, Gunnar á Hlíðarenda og Egill Skallagrímsson hafi nokkurn tímann gengið um grænar sveitir Suðurlands og Borgarfjarðar eða önnur pláss.
Skiptir það máli fyrir sögu lands og þjóðar, hvor kenningin er rétt? Varla. Sögurnar eru sennilega sízt lakari heimildir um sögu landsins á þjóðveldisöld, þótt bókfestukenningin hafi ýtt sagnfestukenningunni til hliðar. Aldarfarslýsing skáldanna, sem skráðu sögurnar á árunum 1200 til 1350, er trúlega rétt í aðalatriðum, hvort sem söguhetjurnar eru upplognar og einstakir atburðir eða ekki. Lýsingin á lífi og hugarheimi forfeðra okkar og formæðra er sennilega rétt í grófum dráttum. Ef við ættum eintóma annála aftan úr fornöld og engan skáldskap, vissi þjóðin væntanlega minna um uppruna sinn og sögu en hún gerir nú. Skýringin blasir við: skrautlegar skáldsögur eiga vísari aðgang að mörgum lesendum en vindþurrkaðir annálar. Þannig getur skáldskapur opnað mönnum dyr og glugga, sem þurr sagnfræði megnar ekki að ljúka upp. Góð sagnfræði getur að sönnu verið svo safarík, að hún slagi hátt upp í góðan skáldskap, og má þá vart á milli sjá, en það er annað mál. Íslendingasögur eru ekki einu bækurnar, sem svo er ástatt um, að sumir velkjast enn í vafa um bókstaflegt sannleiksgildi textans. Bókstafstrúarmenn telja sagnfestukenninguna eiga við um biblíuna. Gildi biblíunnar rýrnar þó ekki við það, að hún sé skoðuð öðrum þræði sem skáldrit eftir bókfestukenningunni líkt og Íslendingasögur.
Sagnaritun nútímans þarfnast bæði sagnfræði og skáldskapar í hæfilegum hlutföllum ekki síður en sagnaritun á fyrri tíð. Sagnfræði er góðra gjalda verð, víst er það, en hún dugir samt ekki ein sér til að halda til haga sögu lands og þjóðar. Ljósmyndir duga ekki heldur einar sér eða raunsæismálverk til að veita mönnum fullan skilning á kyrralífi, landslagi eða lifandi fólki. Til þess þarf fjölbreytt efnistök, margbrotna myndlist. Með því að afbaka fyrirmyndir sínar eftir kúnstarinnar reglum veita myndlistarmenn okkur nýja sýn, stundum sannari og skarpari, á lífið og tilveruna. Fegurð Þingvalla er meiri í augum margra Íslendinga fyrir þann skilning á landslaginu þar, sem Jóhannes Kjarval veitti þjóðinni í verkum sínum. Og þess vegna heiðra menn gjarnan hverjir aðra, þegar mikið liggur við, með því að láta mála af þeim myndir frekar en að senda þá til ljósmyndara. Ljósmyndasmiðir, raunsæismálarar, expressjónistar og aðrir bæta í eyðurnar hvorir hjá öðrum og búa þannig til fyllri og sannari mynd af ýmsu því, sem fyrir augu okkar ber. Með líku lagi þurfum við bæði á sagnfræði og sögulegum skáldskap að halda til að hafa sem heillegasta og sannasta mynd af lífi og sögu þjóðarinnar. Þess vegna er fengur bæði að samtímasagnfræðiritum eins og Jónsbók Einars Kárasonar og samtímasögulegum skáldverkum Þráins Bertelssonar, Dauðans óvissi tími (2004) og Valkyrjur (2005).