Þjóðernaskipti á ræningjum
Nýlendukúgun hverfur ekki eins og dögg fyrir sólu, þótt nýlenduherrarnir hverfi af vettvangi og heimamenn fái að taka sér sjálfstæði. Það er gömul saga og ný, að heimamenn hlaupa gjarnan í skarðið, ef þeir geta. Evrópuþjóðirnar, sem skiptu Afríku á milli sín á Berlínarfundinum 1885, fóru illa með álfuna, einkum Belgar og Portúgalar. Þeir drýgðu grimmileg illvirki í nýlendum sínum. Þegar Portúgalar hrökkluðust loksins burt frá Afríku, skildu þeir nýlendurnar þar eftir í rjúkandi rúst, þar á meðal Angólu og Mósambík. Þeir tóku meira að segja símalínurnar með sér og helltu steypu í pípulagnir og leiðslur, úr því að þeir urðu að skilja þær eftir. Viðskilnaður Belga í Kongó 1960 var engu skárri, og var Belgía þó fullþroska lýðræðisríki ólíkt Portúgal, sem var frumstætt einræðisríki fram til 1975, þegar nýlenduveldi Portúgals í Afríku leið undir lok. Angóla, Kongó og Mósambík loguðu í ófriði lengi á eftir. Friður brauzt út í Angólu 2002 og í Mósambík 1992, en ástandið á báðum stöðum er ennþá hörmulegra en tárum taki. Kongó logar enn.
Margir Afríkumenn eru uppteknir af hörmungarsögu nýlendutímans eins og eðlilegt er og kenna nýlenduveldunum að mestu leyti um ófarir sínar. Samt er saga margra þessara landa að fengnu sjálfstæði engu minni sorgarsaga, og hún er að miklu leyti heimatilbúin, enda þótt arfleifð nýlendutímans kasti stórum skugga yfir álfuna. Þessi þráláta blinda á eigin afglöp birtist skýrt í afstöðu margra Afríkubúa til ástandsins í Simbabve síðustu ár, þar sem frelsishetjan Róbert Múgabe hefur með óstjórn og ofbeldi lagt landið í rúst eða því sem næst á nokkrum árum. Múgabe er gamall marxisti og uppfullur af alls kyns ranghugmyndum um efnahagsmál og margt annað. Ef okkur vantar peninga, þá bara prentum við þá, segir hann; seðlabankastjórinn er bezti vinur hans og botnar hvorki upp né niður í sambandinu milli peningaprentunar og verðbólgu.
Simbabve átti bjarta framtíð fyrir sér líkt og Suður-Afríka, en landið rambar nú á barmi hruns. Verðbólgan er komin upp undir átta þúsund prósent á ári, og annað er eftir því. Ekkert hagkerfi stenzt til lengdar svo mikla verðbólgu, þar eð framleiðslan lætur undan og hagkerfið með. Jafnvel Nelson Mandela, hugrakkasti stjórnmálamaður heimsins, vék sér lengi vel undan því að segja Múgabe til syndanna, gömlum vopnabróður úr baráttunni gegn aðskilnaðarstefnunni. En nú hefur Mandela fundið leið: hann hefur tekið sæti ásamt öðrum gömlum kempum, þar á meðal Jimmy Carter fyrrverandi Bandaríkjaforseta og Mary Robinson fyrrum forseta Írlands, í öldungaráði, sem ætlar sér meðal annars að láta ástandið í Simbabve til sín taka. Vonandi láta þau Múgabe heyra það óþvegið. Ferill hans í Simbabve er varla skárri en ferill Portúgala í Angólu og Mósambík.
Íslendingum hætti lengi vel með líku lagi til að kenna Dönum um allt, sem aflaga fór hér heima. Á sama tíma og margir stjórnmálamenn héldu áfram að úthúða Dönum fyrir einokunarverzlunina og aðrar gamlar misgerðir, njörvuðu þeir sjálfir viðskiptalífið í svo níðþunga fjötra, að ekki hefur enn tekizt að leysa þá til fulls af landinu. Ein skýrasta birtingarmynd þessara heimatilbúnu viðja er andstaða allra stjórnmálaflokkanna nema eins gegn inngöngu Íslands í ESB: það er eins og það skipti flokkana engu máli, að ítrekaðar skoðanakannanir Gallups og annarra sýna, að meiri hluti kjósenda allra flokka er yfirleitt hlynntur aðild. Þvergirðingur flokkanna vitnar um virðingarleysi gagnvart almenningi. Flokkarnir ganga erinda bænda, útvegsmanna og annarra framleiðenda, og hagsmunir neytenda sitja á hakanum. Þeir vita, að ESB líður ekki fákeppni og okur og myndi setja þeim stólinn fyrir dyrnar. Í þessu ljósi þarf að skoða mótþróa flokkanna gegn ESB-aðild.
Annar angi málsins birtist fyrir kosningarnar nú í vor. Þá hömuðust málsvarar þáverandi stjórnarflokka – með Seðlabankann í eftirdragi! – við að þræta fyrir vaxtaokrið í bönkunum, þótt opinberar vaxtatöflur bankanna sjálfra tækju af öll tvímæli um okrið. Seðlabankinn var jafnvel látinn leggja fram leynilega útreikninga, sem áttu að sýna, að munur útlánsvaxta og innlánsvaxta væri óverulegur. Þessir útreikningar Seðlabankans hafa ekki enn fengizt birtir opinberlega, ekki frekar en bankarnir fást nú til að greina frá gjöldunum, sem þeir leggja á yfirdrætti, svo sem fram hefur komið í fréttum Ríkisútvarpsins. Það flaut með útvarpsfréttinni, að bankarnir fylgdu allir sömu verðskrá og hvorki Fjármálaeftirlitið né Samkeppniseftirlitið hygðust kanna málið. Nú þyrfti Ísland að vera í ESB, því að þá gætu bankarnir átt von á heimsókn þaðan klukkan sex í fyrramálið.