Fréttablaðið
12. feb, 2009

Tvö haldreipi

Efnahagur landsmanna er illa laskaður af völdum bankahrunsins. Skaðinn hefur kallað á tímabundin gjaldeyrishöft til að aftra frekara gengisfalli krónunnar, en þessi höft standa landinu að öðru leyti fyrir þrifum. Þau hneppa landsmenn í átthagafjötra með því að meina þeim að selja eignir sínar og flytjast til útlanda. Sömu fjötrar fæla Íslendinga í útlöndum frá að flytjast heim. Erlent fé er læst inni í landinu, svo að nýtt fé fæst ekki til landsins utan úr heimi.

Ísland hefur nú tvö haldreipi, annað í hendi, hitt innan seilingar. Bæði reipin myndu binda Ísland traustari böndum við umheiminn, væri vel á þeim haldið, og styrkja stöðu landsins á alþjóðavettvangi. Þjóðin þarf á báðum reipunum að halda til að endurheimta tapað traust.

Fyrra haldreipið er Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn. Ný ríkisstjórn Samfylkingarinnar og Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs segist að sönnu vilja halda í reipið. Samstarfið við sjóðinn felst í vinnu hans að efnahagsáætlun ríkisstjórnarinnar og Seðlabankans og vandlegu eftirliti sjóðsins með framfylgd áætlunarinnar auk gjaldeyrisláns frá sjóðnum og nokkrum einstökum löndum fyrir tilstilli sjóðsins. Bæði tækniaðstoðin og lánið eru nauðsynleg eins og sakir standa. Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins og Samfylkingarinnar tafði aðkomu sjóðsins að Íslandi von úr viti, þótt þörfin fyrir aðstoð hans væri löngu ljós og margir menn innan lands og utan mæltu með henni við stjórnvöld snemma árs 2008. Seðlabankinn og stjórnarandstaðan skynjuðu ekki heldur í tæka tíð þörfina fyrir aðkomu sjóðsins.

Ábyrgð Seðlabankans má ráða af ummælum formanns bankastjórnarinnar í sjónvarpi hálfu ári eftir að forsætisráðherra Bretlands réð forsætisráðherra Íslands að leita til sjóðsins: „Hvað eru menn að tala um varðandi Alþjóðagjaldeyrissjóðinn? Menn eru að tala um að þá yrði ríkisstjórnin að óska eftir því að fara í svokallað prógramm, sem gæti staðið í sex mánuði eða tólf mánuði þar sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn kemur hingað, tekur ráðin af ríkisstjórninni varðandi fjárlög ríkisins meira og minna… en þetta er notað yfir ríki sem hafa orðið gjaldþrota. Íslenska ríkið er ekki gjaldþrota. Það eru bankarnir sem eru í vandræðum, ekki íslenska ríkið í rauninni.“ Þessi orð bankastjórans lýsa ekki næmum skilningi á hlutverki sjóðsins og ekki heldur á eðli og umfangi vandans, enda leitaði ríkisstjórnin til sjóðsins, þegar aðrar síðri leiðir reyndust lokaðar. Hvers vegna síðri? Ríkisstjórnin reyndi fyrst að fá lán, sem var ekki bundið skilyrðum um skynsamlega hagstjórn. Slík lán voru hvergi í boði, jafnvel ekki í Rússlandi. Seðlabankinn hefur haldið áfram leynt og ljóst að grafa undan efnahagsáætlun stjórnvalda, meðal annars með því að flíka í tvígang ágreiningi við sjóðinn um vexti. Sjálfstæðisflokkurinn reynir að tefja löngu tímabæra endurnýjun á bankastjórn Seðlabankans, þótt hún sé rúin öllu trausti innan lands og utan. Sjálfstæðisflokkurinn hegðar sér eins og hann sé að reyna að sarga haldreipi Íslands í sundur.

Hitt haldreipið er Evrópusambandið. Samfylkingin og Framsóknarflokkurinn eru nú sammála um þörfina fyrir að sækja án frekari tafar um inngöngu í ESB. Umsókn um aðild nú myndi senda umheiminum skilaboð um einbeittan ásetning stjórnvalda um að koma efnahag landsins á réttan kjöl eins fljótt og hægt er. Umsókn nú myndi opna leið til að festa gengi krónunnar við evruna með Evrópska seðlabankann að bakhjarli og girða með því móti fyrir gengisóvissuna, sem er orsök gjaldeyrishaftanna, átthagafjötranna og fjárskortsins.

Sjálfstæðisflokkurinn heldur þó fast við andstöðu sína við inngöngu Íslands í ESB og fúlsar við því haldreipi, sem skjót innganga myndi færa Íslandi í hendur, væri kostur veittur á henni af hálfu ESB. Vinstri hreyfingin – grænt framboð gengur á lagið og biðlar til Noregs um liðsinni til að halda Íslandi utan ESB, en Norðmenn færast undan. Norðmenn eiga olíulindir og hafa því efni á að standa utan ESB, við ekki. Umsókn um aðild Íslands að ESB hefði getað skilað sér í höfn nú í febrúar, hefði ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins og Samfylkingarinnar haldið velli og hefði Sjálfstæðisflokkurinn séð sig um hönd í tæka tíð, en það varð ekki. Nú mun ekkert gerast í Evrópumálinu fyrr en eftir kosningar í vor. Dýrmætur tími heldur áfram að fara til spillis.