Fréttablaðið
9. apr, 2009

Heilagar kýr

Íslendingar hafa á liðnum árum leyft sér ýmislegan munað. Tökum landbúnaðinn. Halldór Kiljan Laxness, Gylfi Þ. Gíslason, Jónas Kristjánsson, Guðmundur Ólafsson og margir menn aðrir hafa hver fram af öðrum gagnrýnt búverndarstefnu stjórnvalda og talið hana of dýra fyrir neytendur og skattgreiðendur. Alþingi hefur alla tíð daufheyrzt við þessari gagnrýni á tveim forsendum.

Önnur forsendan hvíldi á beinharðri og blákaldri pólitík: bændur höfðu meiri þingstyrk en neytendur, þótt neytendur séu margfalt fleiri en bændur. Hagur neytenda er dreifður í andstöðumerkingu við þjappaðan hag bænda. Kjördæmaskipanin með ójöfnu vægi atkvæða eftir búsetu reið baggamuninn. Hin forsendan var hagræn og kom síðar til sögunnar: menn hugsuðu margir sem svo, að eitt ríkasta land heims hlyti að geta leyft sér dýra búvernd innan um alla jeppana og annan lúxus.

Nú er síðari forsendan brostin í bili. Þoturnar eru þargnaðar. Jepparnir streyma þúsundum saman úr landi. Tugþúsundir heimila eiga varla fyrir skuldum ef þá það. Fjölmörg fyrirtæki berjast í bökkum. Að vísu munu framleiðsla og tekjur á mann hér heima varla dragast langt aftur úr nálægum löndum í kreppunni, ef hagspár Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og innlendra stjórnvalda ganga eftir. Þær gera ráð fyrir tíu prósenta samdrætti landsframleiðslunnar hér í ár á móti þriggja prósenta samdrætti í Bandaríkjunum og Evrópu og sex prósentum í Japan. Þetta segir samt ekki alla söguna, því að hún þarf einnig að ná yfir eignir og skuldir heimila og fyrirtækja. Aukning erlendra skulda vegna gengisfalls krónunnar og stórfelld rýrnun eigna heimila og fyrirtækja munu íþyngja Íslendingum næstu ár. Þjóðarauðurinn á bak við landsframleiðsluna er nú minni að vöxtum en hann var.

Til að byggja auðinn upp aftur, það er safna eignum og grynnka á skuldum, þarf þjóðin að draga úr útgjöldum. Lífskjör almennings munu því rýrna bæði vegna tímabundins samdráttar í framleiðslu og tekjum og vegna þarfarinnar fyrir að spara meira en áður til að bæta fyrir eignatjónið af völdum hrunsins. Margir hugðust nota uppsveifluna til að drýgja grunnlífeyri elliáranna. Sumir munu kjósa að bæta sér ekki upp eignamissinn og bera skaðann síðar. Aðrir munu byrja strax að reyna að bæta skaðann. Hér blasir við gamall vandi í nýrri mynd: lífeyririnn lætur undan til að jafna metin. Á fyrri tíð át verðbólgan upp lífeyri landsmanna. Verðtrygging var þá leidd í lög, svo að lífeyrissjóðir gátu eflzt og venjulegt fólk átti þess kost að byggja upp viðbótarsparnað. Nú hefur viðbótarsparnaður almennings rýrnað verulega og einnig grunnlífeyririnn. Mestu skiptir þó, að mannauðurinn er óskertur og einnig framleiðslutækin og ýmsar auðlindir til sjós og sveita.

Búverndin hefur verið heilög kýr. Jafnvel Alþýðusambandið hefur ekki enn fengizt til að beita sér gegn búverndarstefnunni, þótt hún bitni harkalegast á þeim, sem lægst hafa launin. Heilögu kýrnar eru fleiri. Nú þarf að endurskoða þær fordómalaust í ljósi breyttra aðstæðna.

Tökum ESB og evruna. Margir andstæðingar aðildar hafa sagt sem svo, að Íslendingar hafi líkt og Norðmenn efni á að standa utan ESB. Þessi forsenda sýnist nú brostin. Hrunið hefur bætt tveim nýjum röksemdum í safn þeirra, sem telja, að hag Íslands sé bezt borgið innan ESB. Í fyrsta lagi höfum við ekki lengur sömu ráð og áður á að hafna þeim hagsbótum, sem myndu fylgja inngöngu í ESB: lægra matarverð, meiri samkeppni, lægri vextir. Heimilin í landinu verja um sjöttungi tekna sinna til matarkaupa, og þau þurfa nú á greiðum aðgangi að ódýrum mat að halda til að ná endum saman. Í annan stað þurfum við nú einnig að senda umheiminum skýr boð um, að við erum fús til að lúta þeim aga, sem fylgir fullri aðild að ESB: aga í fjármálum og peningamálum og einnig á öðrum sviðum.

Lausbeizluð hagstjórn í nafni óskoraðs fullveldis hefur ekki reynzt vel. Við hófum sjálfstætt efnahagslíf fyrir röskum hundrað árum með íslenzka krónu, sem var þá jafnvirði danskrar krónu. Nú er gengið 22 íslenzkar krónur á móti einni danskri, og tókum við þó tvö núll aftan af gömlu krónunni, svo að gengið nú er í reyndinni 2200 íslenzkar á móti einni danskri. Það er ekki trúverðugt, hvorki innan lands né út á við, að standa nú í rústunum og strengja þess heit einu sinni enn, að héðan í frá ætlum við á eigin spýtur að halda gengi krónunnar stöðugu. Taflinu er lokið.