Á eigin fótum?
Margir líta svo á, að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn (AGS) leggi nú línurnar um hagstjórn á Íslandi. Sjóðnum er kennt um háa vexti, hækkun skatta, niðurskurð ríkisútgjalda, lágt gengi krónunnar, gjaldeyrishöft, vaxandi skuldabyrði, versnandi lífskjör og aðrar afleiðingar hrunsins. Þetta er eins og að kenna slökkviliðinu um íkveikju. AGS er hér í boði magnþrota stjórnvalda, sem ásamt eigendum og stjórnendum banka og annarra stórfyrirtækja keyrðu Ísland í kaf. Seðlabankinn varð tæknilega gjaldþrota með því að veita bönkunum lán gegn ónýtum veðum. Ríkissjóður varð að leggja Seðlabankanum til hundruð milljarða króna, sem sóttar verða í vasa skattgreiðenda. Ísland rambaði og rambar enn á barmi einangrunar, aðfangaskorts og neyðar. Ríkisstjórnin kvaddi AGS á vettvang til að leggja á ráðin um endurreisn bankanna og efnahagslífsins og leggja fram lánsfé til að efla gjaldeyrisforða Seðlabankans og forða gengi krónunnar frá frekara falli. Aðkoma sjóðsins var nauðsynleg til að tryggja viðbótarlánsfé frá Norðurlöndum og Rússlandi. Einu löndin, sem vildu lána Íslendingum fé án skilyrða, voru Færeyjar og Pólland.
AGS er hér í ráðgjafarhlutverki. Stjórnvöldum er í sjálfsvald sett, hvort þau þiggja ráðin og lánin, sem fylgja þeim. Gjaldeyrisláni sjóðsins til Seðlabankans fylgja skilyrði um hagstjórnina í samræmi við regluverk og vinnulag sjóðsins. Skilyrðunum er ætlað að tryggja, að áætlunin beri árangur. Sjóðurinn kappkostar að gæta jafnræðis milli aðildarlanda, svo að skilyrðin séu keimlík land úr landi við líkar aðstæður, en þó þannig að tekið sé mið af staðháttum. Þetta er þrautreynt fyrirkomulag, sem er ætlað að skapa örvandi umgerð utan um efnahagsáætlunina og aga. En þetta er vandrataður vegur.
Við bætist vandinn, sem fylgir því, að AGS hefur ekki bolmagn til að útvega allt það fé, sem þarf til að reisa lönd úr rústum. Ísland er gott dæmi. Þótt sjóðurinn teygi sig út á yztu nöf, getur hann samkvæmt settum reglum ekki lagt fram nema langt innan við helming þess lánsfjár, sem hann telur þurfa til að tryggja framgang áætlunarinnar. Danmörk, Finnland, Noregur og Svíþjóð leggja fram næstum annað eins. Fjárhagsaðstoð þeirra er skiljanlega einnig háð skilyrðum. Norræn gjaldeyrislán til Íslands nema rösklega 40 þúsund krónum á hverja fjögurra manna fjölskyldu á Norðurlöndum. Það er mikið fé. Löndin fjögur eru sögð ætlast til, að Alþingi staðfesti IceSave-samninginn í samræmi við kröfur annarra Evrópuþjóða. Verði hann felldur á Alþingi, er aðstoð Norðurlandanna við áætlunina trúlega sjálfhætt, og þá er aðstoð AGS við Ísland í uppnámi. Þá standa Íslendingar einir á berangri. Sé þessi lýsing rétt (stjórnvöld hafa ekki upplýst þetta frekar en margt annað), virðist sjóðurinn hafður fyrir rangri sök, þegar hann er sagður ganga erinda Breta og Hollendinga í IceSave-málinu.
Þegar efnahagsáætlun ríkisstjórnarinnar og Seðlabankans var birt í nóvember 2008, virtist hún geta gengið upp, þar eð erlend skuldabyrði þjóðarbúsins virtist viðráðanleg. Nú eru komnar fram nýjar upplýsingar um mun meiri skuldir við útlönd. Munurinn á gamla og nýja skuldamatinu er mikill eins og ég lýsti á þessum stað fyrir viku. Seðlabankanum bar að reiða fram réttar tölur í nóvember, en það verkefni reyndist honum ofviða. Af skekkjunni leiðir, að hættan á þjóðargjaldþroti eða vanskilum ríkisins réttar sagt, sem virtist óveruleg í nóvember, er nú orðin raunveruleg. Ríkissjóður stendur frammi fyrir gjalddaga 2011 vegna láns frá 2006 til að tvöfalda gjaldeyrisforðann og þarf þá á endurfjármögnun að halda, en óvíst er, hvort hún tekst. Ef ekki, getur ríkissjóður lent í vanskilum með þessa skuldbindingu og aðrar.
Hafi komið til greina, að Norðurlöndin vildu leggja á sig að forða íslenzka ríkinu frá yfirvofandi vanskilum, virðist það nú ólíklegt. Ísland hefur síðustu ár verið vettvangur augljósra efnahagsbrota, sannkallað þjófabæli, sumpart í boði meðvirkra stjórnvalda, sem seldu bankana einkavinum við vildarkjörum þrátt fyrir vel þekktan brotaferil eins þeirra, og brugðust síðan eftirlitsskyldu sinni með öllu. Við þetta bætist veikluleg rannsókn brotanna, þar til ríkisstjórnin fyrir frumkvæði fólks úti í bæ réð Evu Joly rannsóknardómara í þjónustu sína. Stjórnvöld virðast ekkert hafa gert til að hrinda þeim þráláta orðrómi, að bankarnir hafi einn eða fleiri baðað fé fyrir Rússa. Allt þetta blasir við frændum okkar og vinum á Norðurlöndum og kann að slæva áhuga þeirra á að rétta Íslandi frekari hjálparhönd.