Hvínandi Kúba
Nú fer hver að verða síðastur að kynnast kommúnismanum af eigin raun. Norður-Kórea er lokuð öllum nema örfáum ferðamönnum, en Kúbu er hægt að heimsækja. Landið er sem aldrei fyrr á hvínandi kúpunni. Kreppan er djúp, og hún er tvíþætt. Annars vegar er efnahagskreppan, sem öldungarnir í ríkisstjórninni reyna ekki lengur að leyna. Fídel Kastró er hálfníræður, og Raúl bróðir hans, sem er nú forseti landsins, er að verða áttræður. Hins vegar er stjórnmálakreppan, sem engum leyfist að nefna á nafn að viðlagðri refsingu. Þessir tveir angar kreppunnar tengjast. Raunverulegar efnahagsumbætur eru ekki í sjónmáli, þar eð stjórnmálaforustan er lömuð, og öfugt.
Þegar kalda stríðinu lauk, varð Kúba af erlendri efnahagsaðstoð, sem hafði haldið landinu gangandi í 70 ár. Fyrir og eftir síðari heimsstyrjöldina studdi kaninn Kúbu með því að hleypa innfluttum sykri frá Kúbu til Bandaríkjanna framhjá háum verndartollum, en bandarísk fyrirtæki höfðu þá sykurekrur Kúbu í hendi sér. Eftir að Kastróbræður héldu innreið sína í Havana á nýársdag 1959, tóku Sovétríkin við keflinu og studdu Kúbu með því að flytja inn þjóðnýttan sykur á yfirverði auk annarrar aðstoðar. Þegar Sovétríkin hrundu á jóladag 1991, hætti fjárstuðningur þeirra við Kúbu eins og hendi væri veifað, og 11.000 sovézkir hernaðarráðgjafar og tækniráðunautar voru kallaðir heim. Bara sykurútflutningurinn á yfirverði hafði skilað Kúbu um fimm milljörðum Bandaríkjadala á ári, eða um 500 dölum á hvert mannsbarn í landinu.
Smám saman fylltu Kínverjar að hluta skarðið, sem Rússar skildu eftir sig, og Venesúela undir stjórn Hugos Chavez forseta hefur selt Kúbu olíu á undirverði, olíu, sem Kúbverjar hafa síðan selt öðrum á heimsmarkaðsverði og hirt muninn. Efnahagslífið á Kúbu snýst því enn um yfirverð og undirverð. Landið geldur fyrir, að rétt verð, markaðsverð, kemur sízt til álita. Talið er, að brotthvarf Rússa frá Kúbu hafi skert tekjur landsmanna um 40 prósent. Kúbverjar í Bandaríkjunum senda heim um tvo milljarða Bandaríkjadala á ári. Við þetta bætast fullar ferðatöskur fjár, kannski annað eins, eftir að ríkisstjórn Obamas forseta heimilaði Bandaríkjamönnum af kúbverskum uppruna nýlega að ferðast heim til Kúbu.
Kúba var og er eins og Rússland var: fyrirtækin þykjast borga verkafólkinu, og fólkið þykist vinna. Eftir brotthvarf Rússa frá Kúbu fundu ríkisfyrirtækin (nær öll fyrirtæki landsins) fyrir því, að þetta er dýrt sport. Ríkisstjórn Kúbu byrjaði því skömmu eftir 1991 að leyfa einkarekstur í smáum stíl. Eitt leiddi af öðru. Raúl Kastró tilkynnti í fyrra, að einkavæðing ríkisfyrirtækja kallaði á uppsögn einnar milljónar ríkisstarfsmanna (íbúafjöldi Kúbu er um 11 milljónir). Skilaboðin voru skýr: ríkisstjórnin getur ekki lengur séð um sína. Atvinnuleysisbætur eru rýrar og renna út eftir þrjá mánuði. Skilningur Kastróbræðra á einkarekstri ristir þó ekki dýpra en svo, að einkafyrirtækjum er gert ókleift að taka við nema litlum hluta þeirra, sem missa vinnuna hjá ríkinu. Til dæmis eru einkamatstaðir nú leyfðir, en þeir mega ekki hafa nema tuttugu stóla og mega ekki ráða óvandabundið fólk í vinnu, heldur aðeins fjölskyldumeðlimi.
Nærri má geta, hvort ekki er reynt að fara í kringum reglurnar. Hvað er stóll? Hvað er fjölskylda? Lögreglan eyðir ómældu púðri í að girða fyrir sniðgönguna. Fyrstu skref Kúbverja á leið sinni til markaðsbúskapar lofa því ekki góðu. Eitt helzta einkenni markaðsbúskapar er, að nýjum fyrirtækjum gefast færi á að leysa óhagkvæm fyrirtæki af hólmi í heilbrigðri samkeppni. Leiðin að því marki er að efla samkeppni frekar en að halda henni í skefjum. Mikil samkeppni er líklegri en lítil samkeppni til að halda hagnaði í skefjum svo sem Kastróbræðrum er mjög í mun.
Allt er í niðurníðslu: húsin, bílarnir, vélakosturinn, mannaflinn. Árum saman hefur ein bygging hrunið á hverjum degi allan ársins hring. Sykurmyllurnar standa óbreyttar frá 1959. Bílaflotinn er kafli út af fyrir sig: gömlu bandarísku kaggarnir bera kúbverskum bifvélavirkjum fagurt vitni eftir meira en hálfa öld. Fátæktin er mikil og sár. Ungir og gamlir betla á götum úti. Læknar og lögfræðingar hafa meira upp úr sér sem leiðsögumenn en við störfin, sem þeir lærðu til. Mánaðarlaun lögreglumanna og hermanna eru 28 til 34 Bandaríkjadalir, lækna 21 til 25 dalir og verkamanna 17 dalir. En músíkin er góð. Fátt bendir til, að fólkið muni rísa upp gegn þeim bræðrum í bráð. Þegar þeir eru horfnir af sjónarsviðinu, getur þó allt gerzt. Svo fallegu landi leyfist ekki að halda fólkinu sínu föstu í fátæktargildru mann fram af manni.