DV
14. nóv, 2011

Hvað voru Grikkir að hugsa?

Ungt fólk á öllum aldri studdi yfirleitt inngöngu Grikklands í ESB 1981. Fyrir þessu fólki vakti, líkt og mörgum Íslendingum, að Grikkir myndu læra af aðildinni, hverfa frá suður-evrópsku sjúski og fúski og byrja smám saman að líkjast frekar löndunum í norðanverðri álfunni og Mið-Evrópu. Þetta var lykilhugsunin: að taka framförum í góðum félagsskap.

Og víst hefur Grikkland tekið stakkaskiptum. Aþena er nær óþekkjanleg frá 1981, þegar ég kom þangað fyrst: hún var þá þriðjaheimsborg og er nú heimsborg. Mér skilst, að sveitirnar hafi einnig tekið miklum framförum, og það hafa grísku eyjarnar sannarlega gert. Svo er fyrir að þakka bæði kostunum, sem fylgja aðild að ESB – framförum í hagstjórn, betra skipulagi, aðhaldi, aga, eftirliti o.s.frv. auk lægri vaxta – og miklu fjárstreymi frá ESB til Grikklands, þar eð Grikkir hafa fengið að njóta þess, að þeir að búa á útjaðri Evrópu. ESB er annt um afskekktar byggðir.

En þetta reyndist ekki duga, þar eð gerspillt stjórnmálastéttin gekk á lagið. Hún notaði skjólið af ESB-aðildinni ekki bara til að byggja landið og búa í haginn fyrir framtíðina, heldur einnig til að mylja undir sjálfa sig og sína, þenja ríkisbáknið út og hlífa skipakóngum og öðrum auðmönnum við skattheimtu, þannig að fullt af venjulegu fólki ákvað þá að skjóta sér einnig undan sköttum, svo að skattsvik urðu að þjóðaríþrótt. Ríkisstjórnin reyndi að breiða yfir hallareksturinn með því að falsa bókhaldið. ESB horfði í hina áttina.

Klíkuskapur, spilling og fyrirgreiðsla handa sérhagsmunahópum leiddu til mikillar sóunar almannafjár. Lægri vextir leiddu af sér tvöföldun skulda ríkisins miðað við landsframleiðslu 1980-90, fyrstu tíu Grikklandsárin í ESB. Lánsféð var notað til að treysta innanlandsfriðinn með því að fjölga ríkisstarfsmönnum, auka lífeyri og efla heilbrigðisþjónustu og ýmsa aðra þætti velferðarkerfisins, einkum handa þeim, sem höfðu orðið út undan á tímum herforingjastjórnarinnar 1967-74. Eflingu velferðarkerfisins fylgdi ekki nægur skilningur á nauðsyn gagngerra skipulagsumbóta til að efla samkeppnishæfni grísks efnahagslífs í Evrópu. Innstreymi fjárhagsaðstoðar frá ESB og lánsfjár frá erlendum bönkum örvaði grískt efnahagslíf, en skaut samt ekki styrkum stoðum undir sjálfbæran hagvöxt. Erlent framkvæmdafé nýttist ekki nógu vel, og aðild Grikklands að ESB nýttist ekki heldur nógu vel, þótt landið hafi haft 30 ár til að læra lexíuna. Þessi baneitraða blanda er frá mínum bæjardyrum séð undirrót efnahagskreppunnar í Grikklandi.

Meðbyrinn og meðgjöfin, sem leiddi af ESB-aðild Grikklands, reyndust því vera blendin blessun. Slíkt gerist oft. Til eru lönd, þar sem þróunaraðstoð hefur beinlínis hægt á framförum, þar eð löndin kunnu ekki með auðfengið fé að fara. Og til eru lönd, sem náttúruauðlindagnægð hefur leitt út í ógöngur, þar eð þau hafa ekki kunnað fótum sínum forráð. Það þarf sterk bein til að þola góða daga, segir máltækið. Aðildin að ESB hafði öðrum þræði svipuð áhrif á Grikkland eins og olíugnægðin hefur haft á Nígeríu.

Kannski hefði farið eins fyrir Íslandi, hefðum við gengið inn í ESB með Austurríkismönnum, Finnum og Svíum 1994 eins og mér og mörgum öðrum fannst þá tímabært. Kannski ekki. En nú, þegar reynsla Grikkja blasir við, hafa Íslendingar enga afsökun fyrir að falla í sömu gryfju og Grikkir. Ófarir Grikklands ættu því að geta orðið Íslandi hollt vegarnesti inn í ESB, holl áminning, ákveði þjóðin að ganga þangað inn að loknum samningum. Ófarir Grikklands eru því engin sönnun þess, að Ísland eigi ekki erindi inn í ESB, heldur kannski þvert á móti, ef eitthvað er. Við skulum ekki gleðjast yfir óförum Grikkja, heldur reyna að læra af þeim.