DV
28. des, 2011

Upprás á Indlandi

Indverjar glíma frá fornu fari við ferns konar ranglæti, sem leitar á hugann um jólin.

Tökum fyrst heimanmundinn, sem var bannaður með lögum 1961. Innheimta heimanmunds tíðkast samt sums staðar enn, einkum til sveita og í 640 þúsund þorpum, sem eru heimkynni þriggja af hverjum fjórum Indverjum skv. manntali 2001. Þorpið er líf og sál Indlands, sagði Gandí, landsfaðirinn, þótt almúginn færi þar næstum alls á mis um hans daga og geri það enn, enda streymir fólk til borga og bæja í leit að betra lífsviðurværi. Heimanmundarhefðin gerði eiginmönnum kleift að krefja fjölskyldu brúðarinnar um fjallháar fúlgur, stundum húsverð, fé, sem hefði verið betur varið til að kenna konunum að lesa og skrifa. Lögbannið gegn heimanmundinum hefur stuðlað að auknu læsi kvenna (nú er helmingur fullorðinna kvenna læs og skrifandi á móti fjórðungi fyrir 30 árum) og færri barnsfæðingum (indverskar komur eiga nú þrjú börn að jafnaði, ekki sex eins og 1961). Þær segjast helzt vilja láta tvö börn duga, fengju þær að ráða því sjálfar.

Stjórnarskrá Indlands frá 1950 leggur blátt bann við hvers kyns mismunun og þá um leið bann við mismunun eftir stéttum. Þar er sérstakt ákvæði um afnám sérstöðu hinna ósnertanlegu, lægstu stéttarinnar, sem fólk af öðrum stéttum vildi ekki og mátti ekki snerta fram að því. Aðalhöfundur indversku stjórnarskrárinnar var fyrsti maðurinn, sem brauzt til mennta úr stétt hinna ósnertanlegu, B. R. Ambedkar. Hann er dáður um allt Indland, næsti bær við Gandí. Stjórnarskrárákvæðið um hina ósnertanlegu hefur þó ekki dugað nema til hálfs, því að lengi lifir í glæðum gamalla fordóma og fáfræði. Stjórnarskrá Indlands er öðrum þræði viljayfirlýsing frekar en lagaboð líkt og í sumum öðrum stjórnarskrám.

Giftingar barna voru bannaðar með lögum á Indlandi 1929, þegar lágmarksgiftingaraldur karla var ákveðinn 21 ár og kvenna 18 ár. Ekki hefur Indverjum þó tekizt betur en svo að hlýða og framfylgja lögunum, að helmingur kvenna á aldrinum 20 til 24 ára giftist fyrir 18 ára aldur. Barnagiftingar eru algengari til sveita en í bæjum og borgum, en þeim fer fækkandi með meiri og betri menntun. Gandí giftist ólæsri konu sinni um fermingaraldur, en það var löngu fyrir 1929.

Þrátt fyrir blátt bann við vinnu barna undir 14 ára aldri í stjórnarskrá Indlands, gerðist það ekki fyrr en 1986, að bann við barnaþrælkun var leitt í lög, en þau náðu skammt, og eftir þeim er ekki farið. Ríkisstjórn Indlands viðurkennir, að um 20 milljónir barna eru þvinguð til vinnu, en aðrar heimildir telja fjöldann leika á bilinu 50 til 60 milljónir barna.

Eftir meira en 40 ára stöðnun í efnahagslífinu frá sjálfstæðistökunni 1947, hóf Indland sig til flugs fyrir 20 árum með gagngerum umbótum. Heilagar kýr sjást varla lengur í Nýju Delí, a.m.k. ekki í miðborginni, en varla var hægt að þverfóta fyrir þeim fyrir 30 árum. Fyrir 20 árum fóru átta af hverjum tíu langskólagengnum Indverjum úr landi, ættu þeir heimangengt (læknar, verkfræðingar o.fl.), einkum til Bandaríkjanna, Bretlands, Kanada og Ástralíu. Nú fara ekki nema tveir af hverjum tíu að heiman. Indland framleiðir hugbúnað, lyf, vefnaðarvöru og margt annað handa öllum heiminum.

Framför Indlands stendur á gömlum merg. Á 16. og 17. öld gátu nýfædd börn á Indlandi vænzt þess að komast fast að fimmtugu. Landið var ríkt, og fólkinu vegnaði vel. Margar glæsilegustu söguminjar landsins eru frá þeim tíma. Eftir það hallaði svo undan fæti, að meðalævin styttist um helming. Árið 1947 voru ævilíkurnar um 30 ár: nýfædd börn gátu þá að jafnaði vænzt þess að verða þrítug líkt og íslenzkir hvítvoðungar um 1870. Nú geta Indverjar vænzt þess að komast yfir sjötugt. Það er framför. Tekjur á mann á Indlandi voru þriðjungi minni en í grannlandinu Pakistan fyrir 30 árum, en eru nú fjórðungi meiri en í Pakistan. Enn er að sönnu langt í land, en þetta potast.