DV
13. jan, 2012

Lög og lögfræðingar

Lagakennsla sums staðar í Evrópu hvílir á þrem meginstoðum. Ein stoðin er lögin sjálf. Önnur stoð er mannréttindi, einkum réttur manna gagnvart yfirvöldum. Þriðja stoðin er réttmæti laganna í augum fólksins, sem í lýðræðisríki er uppspretta alls valds, laga og réttar. Stoðirnar styðja hver aðra. Á þeim hvíla félagsleg réttarríki nútímans með réttlát og skýr lög, sem fólkið kýs að fylgja til að efla eigin hag.

Lagakennsla á Íslandi hvíldi löngum á fyrstu stoðinni einni saman. Lögin sjálf í þröngri merkingu voru ær og kýr lögfræðinga, mannréttindi voru í engum hávegum höfð og ekki heldur hugmyndin um fólkið, þjóðina, sem uppsprettu og réttlætingu laganna. Orðaforði málsins segir sína sögu. Ráðuneyti, sem í Evrópu eru kennd við réttlæti, kölluðu Íslendingar þar til nýlega dómsmálaráðuneyti.

Það gerðist ekki fyrr en 1995, að ný mannréttindaákvæði voru leidd inn í stjórnarskrána frá 1944 til samræmis við Mannréttindasáttmála Evrópu. Lögin um stjórn fiskveiða brjóta enn gegn mannréttindum, bæði skv. dómi Hæstaréttar 1998 og skv. bindandi áliti mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna 2007, áliti, sem stjórnvöld hafa ekki enn til fulls brugðizt við. Enginn lagaprófessor fékkst til að skrifa undir yfirlýsingu 105 prófessora til varnar Hæstarétti, yfirlýsingu, þar sem Alþingi var hvatt í ljósi dóms Hæstaréttar til að haga lögum í samræmi við stjórnarskrána. Hæstiréttur sneri dómi sínum frá 1998 við hálfu öðru ári síðar undir þrýstingi frá ráðherrum.

Frumvarp Stjórnlagaráðs til nýrrar stjórnarskrár gerir mannréttindum hærra undir höfði með nýjum ákvæðum og áherzlum í samræmi við kall og kröfur tímans, m.a. með því að fella ákvæði um náttúruauðlindir og umhverfisvernd inn í kaflann um mannréttindi til að undirstrika mikilvægi og innbyrðis samhengi auðlinda, umhverfis og mannréttinda.

Lagakennslu um mannréttindi og skyld mál hefur farið fram síðustu ár með aukinni vitund almennings um slík réttindi. Mannréttindi og umhverfisréttur t.d. eru nú kennslugreinar og rannsóknarefni í lagadeildum háskólanna, en svo var ekki fyrir fáeinum árum. Margir lögfræðingar virðast þó enn heldur áhugalitlir um ýmis mannréttindabrot, hvort sem þau felast í mismunun við úthlutun t.d. aflakvóta eða í misvægi atkvæðisréttar eftir búsetu, sem erlendir kosningaeftirlitsmenn hafa mörg undangengin ár fundið að. Frumvarp Stjórnlagaráðs til nýrrar stjórnarskrár kveður á um jafnt vægi atkvæða alls staðar á landinu, svo að allir séu jafnir í kosningum til Alþingis.

Frumvarp Stjórnlagaráðs kveður sem sagt á um tvenn grundvallarréttindi auk annars, auðlindir í þjóðareigu í samræmi við stefnu allra flokka á Alþingi og jafnt vægi atkvæða alls staðar. Fáir lögfræðingar hafa þó enn sem komið er stigið fram til að taka undir þessi mannréttindaákvæði frumvarpsins. Hinir virðast fleiri, lögfræðingarnir, sem setja fyrir sig einstök lagatæknileg atriði í anda gamla skólans, þar sem þröng sýn á lögin ræður för og réttlætið situr á hakanum og einnig réttur þjóðarinnar til að setja sér stjórnarskrá eftir settum reglum.

Margir lögfræðingar hafa frá öndverðu verið andvígir endurskoðun bráðabirgðastjórnarskrárinnar frá 1944. Það er af sem áður var, þegar helztu lögfræðingar landsins (t.d. Bjarni Benediktsson, Ólafur Jóhannesson og Gunnar Thoroddsen) líkt og leiðtogar stærstu stjórnmálaflokkanna voru á einu máli um nauðsyn slíkrar endurskoðunar. Margir lögfræðingar voru andvígir kosningunni til stjórnlagaþings, þar eð þeir virtust ekki fella sig við þriðju stoðina undir lögum og rétti, hugmyndina um fólkið, þjóðina, sem yfirboðara Alþingis og uppsprettu laga og réttar.

Í þessu ljósi þarf að skoða ógildingu Hæstaréttar á úrslitum kosningarinnar til stjórnlagaþings 2010. Það hefur ekki áður gerzt í fullburða lýðræðisríki, að þjóðkjör hafi í heilu lagi verið ógilt eftir á – og það á svo veikum grunni, að þar stendur ekki steinn yfir steini eins og Reynir Axelsson stærðfræðingur lýsir vel í ritgerð sinni um ákvörðun Hæstaréttar. Ritgerð Reynis er aðgengileg á vef Stjórnarskrárfélagsins, stjornarskrarfelagid.is.